20.12.1945
Neðri deild: 61. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 992 í B-deild Alþingistíðinda. (1576)

151. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1946

Sveinbjörn Högnason:

Ég skal ekki tala langt mál. Ég get ekki látið hjá líða að segja það, að mig furðar á því, að jafnreyndur þm. eins og hv. þm. V.-Ísf., sem kom svo mjög við sögu stjórnarforustunnar 1933 og stjórnaði þeim atburðum, sem þá fóru fram, skuli ekki geta fengið opin augun fyrir því, hver eðlismunur er á þessum málum þá og nú. Mér dettur ekki í hug að halda, að hv. þm. V.-Ísf. sé svo skyni skroppinn að hann sjái ekki þann eðlismun, heldur er hann kominn í þann félagsskap, þar sem það er talið heppilegt að haga málflutningi eftir því, sem henta þykir, en ekki eftir því, hvernig staðreyndirnar eru, eins og hann gerði jafnan, það skal ég viðurkenna, 1933, meðan hann var í okkar hópi. En hann er kominn í félagsskap, þar sem hann veit, að vinnubrögðin eiga að vera öðruvísi, þess vegna segir hann ósatt öðru hverju um það, sem gerðist í hans eigin flokki 1933–1934. Ég vil spyrja hv. þm. V.-Ísf. um það, hvort það hafi legið fyrir, þegar ákveðin var þingfrestunin til 1. okt. 1934 að hans undirlagi, að það skyldi verða sett löggjöf um landbúnaðinn, sem þyrfti að framlengja í sept. það ár. En það liggur fyrir nú, það veit hver einasti þm. Vissi þessi hv. þm. það þá, að í sept. mundu liggja fyrir slík úrlausnarefni, eða lágu fyrir slík úrlausnarefni þá fyrir augum allra þm.? Ef svo var ekki, hvers vegna er þá hv. þm. V.-Ísf. að fara með þær blekkingar, sem hann fer með hér nú? Í öðru lagi er það vitað, að þegar þessi bráðabirgðal. um afurðasöluna voru sett, þá var um það barizt í kosningunum 1934, þannig að það lá opið fyrir öllum kjósendum í landinu, hvernig skipulagið skyldi vera, og meðal annars tók hv. þm. V.-Ísf. þátt í því í kosningunum, og kosningarnar ultu að mjög verulegu leyti á því, hvort þessi löggjöf yrði sett eða ekki. Kosningarnar sýndu, að þjóðin vildi, að slík löggjöf yrði sett, og þess vegna var hún sett af þeim meiri hl., sem þjóðin skapaði í kosningunum 1934. Liggur þetta fyrir hér nú? Hefur verið kosið um þessa löggjöf, sem stj. setti sem bráðabirgðal. um sölu landbúnaðarafurða á s. l. hausti? Hefur stj. lagt fram fyrir þjóðina áætlun um það, sem kosningarnar skuli aðallega snúast um og hvaða löggjöf hún ætlar að setja á næsta hausti í þessu efni? Ef svo er ekki, þá eru það fullkomin ósannindi, að það standi nákvæmlega eins á nú og 1934, svo ekki sé meira sagt. Og mig furðar á því, eins og ég sagði, að hv. þm. V.-Ísf., sem stóð einmitt í fararbroddi 1933 um þingfrestunina og þá atburði, sem þá urðu, skuli geta fengið sig til þess að koma þannig fram á Alþ. eins og hann hefur nú gert. Þetta getur ekki verið nema fyrir þá sök, að hann sé orðinn öðruvísi andlega innréttaður en hann var fyrir kosningarnar 1934. Af hverju sú breyt. stafar, get ég ekki sagt um, en vitanlega sér hver maður, að sú breyt. hallar mjög í áttina til þess einræðis, sem nú er fallið í Þýzkalandi. Ég hefði gjarnan viljað óska hv. þm. V.-Ísf., af því mér er frekar vel til hans frá gamalli tíð, annars samfélags og annars jólamatar nú heldur en þess, sem hann bersýnilega nú hefur.