20.12.1945
Neðri deild: 61. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í B-deild Alþingistíðinda. (1578)

151. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1946

Sveinbjörn Högnason:

Ég vil þakka hv. þm. V.-Ísf. fyrir það að hafa með þögninni viðurkennt, að það var fullkomlega rétt, sem ég hef sagt um þessi efni. Þegar menn endurtaka, án nokkurra raka, sömu fullyrðingarnar, þegar búið er að sýna þeim fram á það rétta, er það líkt og manni væri sýnt ofan í tjörukagga og hann tryði því, að það væri hvítt, ef búið væri að segja honum það áður. Það er vitanlegt, að hv. þm. gat ekki borið fram neina minnstu sönnun fyrir því, að nokkuð svipað væri ástatt nú, þegar núv. hæstv. forsrh. ákveður þingfrestun til 1. okt., eins og þegar hv. þm. V.-Ísf., þáv. forsrh., ákvað að fresta til 1. okt. 1934. Það eru allt aðrar ástæður, sem við blasa, og er þar af leiðandi ekki neinu svipuðu saman að jafna.