20.12.1945
Neðri deild: 61. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í B-deild Alþingistíðinda. (1579)

151. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1946

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég varð að fara á ríkisráðsfund í morgun, þegar umr. stóðu yfir um þetta mál. Ég get vel við unað þessar umr. Aðalárásin á stj. út af þessu máli var sú, að hér væri um ægilegt fordæmi að ræða. En minnugur maður vakti athygli mína á því, að 1933 hefði nákvæmlega sama till. verið lögð fyrir þingið 9. des., og var hún þá samþ. með öllum atkv. framsóknarmanna undir forustu þess manns, sem hér hóf andróður í nafni þingræðisins móti þessari till. Annar framsóknarmaður, hv. 2. þm. S.-M., hafði sig í morgun mjög í frammi, sjálfsagt einnig óhræddur um það, að hans yrði getið þegar þessi saga yrði skráð, fordæmið um að þingræðið væri troðið undir fótum á Íslandi. Á þinginu 1933, í desember, var þetta mál ekki talið meira þingræðisbrot en svo, að um það voru töluð 22 orð í þessari hv. d. Þá höfðu örlögin hagað því svo, að þessi hv. þm., 2. þm. S.-M., gat látið ljós sitt skína, því að í þeirri n., sem fjallaði um málið, lagði hann til, að málið yrði samþ. óbreytt. Hv. 1. þm. Árn. sagði í morgun, að það hefði verið allt öðru máli að gegna í des. 1933, því að nú ætti að kjósa í vor, en ég veit ekki betur en að þá hafi líka átt að kjósa, það stóð til í des. 1933 að kjósa á miðju árinu 1934, og það var gert. Sem sagt, hv. 2. þm. S.-M. var svo lánsamur að eiga fortíð í málinu, og sá veldur miklu, sem upphafinu veldur. Mér er sagt, að hv. þm. V.-Sk. hafi sérstaklega slegið á þann streng í ræðu, eftir að ég var farinn, að 1933–1934 hafi staðið öðruvísi á, og varpað því fram, hvort þá hefði átt að setja veigamikla löggjöf eins og vitað sé, að nú muni eiga að gera. Hv. þm. V.-Ísf. benti honum þá á, að einmitt frumlöggjöfin um þetta efni er sett sem bráðabirgðal., án þess að kalla saman þing, og eins og hv. þm. V.-Ísf. sagði, þá stendur svo nákvæmlega eins á nú um þessi landbúnaðarmál og önnur aðaldeilumál, og um þau verður sjálfsagt talað í kosningunum. Ég held þess vegna hvað málefnaaðstöðu áhrærir, þá sé frekar sjaldgæft, að menn séu svo gersamlega króaðir inni í sinni eigin fortíð eins og framsóknarmenn í þessu máli. — Ég vil svo ekki fara út í önnur atriði, þetta er kjarni málsins, og þar sem ég vil ekki tefja þennan stutta tíma þingsins, læt ég þetta nægja.