20.12.1945
Neðri deild: 61. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (1580)

151. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1946

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég á reyndar ræðurétt framsögumanns. Það er klofin n., sem að þessu máli stendur, ég tala fyrir minni hl., en ég þarf ekki á því að halda. Hæstv. forsrh., hans aðalbjargræði er að vitna til þess fordæmis, sem til er í þingsögunni fyrir þessu máli. Hann leggur það að jöfnu, eins og þá stóð á, þegar þetta var gert, eins og nú. Þetta er þó mjög rangt, en látum það vera. En víst er um það, að þegar þetta frv. er flutt, þá er þetta fordæmi ekki haft í huga, því að það er komin fram játning fyrir því, frá hæstv. forsrh., að honum hafi verið bent á það í þessum umr., sem fram fóru um málið, að slík frestun hafi áður átt sér stað, svo þá fyrst hefur það því komið til, að vitna til þess, sem áður hefur gerzt í þessu efni. Það er misminni hjá hæstv. ráðh., að ég hafi haldið því fram, að það hafi að því leyti staðið öðruvísi á, að nú eigi að kjósa en ekki hafi átt að kjósa 1933, þegar frestað var. Það sér maður vel haustið 1933, að kjósa átti 1934, svo slíku er ekki til að dreifa. En hér er sá mikli munur á, að 1933, þegar þessi frestun var ákveðin, þá að vísu mun ekki hafa verið til staðar fordæmi um það að fresta þingi, og má vel vera, að óvarlega hafi verið að því farið og þeirri ábyrgð, sem á mér hvíldi sem þm., hitt er minna um vert, sem hæstv. forsrh. benti á, þó að ég stjórnaði fundum hér í deildinni. Ég hafði fyrst og fremst mínar þingmannsskyldur, alveg eins og aðrir, og ekki síður fyrir það, að ég átti þá vald á fundarstjórn hér í d. En sem betur fór ætla ég; að framkvæmd þessarar frestunar hafi á engan hátt gefið neitt vont fordæmi, því að sú bráðabirgðalöggjöf, sem sett var áður en Alþ. kom saman, hún var, eins og búið er að vekja athygli á, bein afleiðing af þeim kosningum, sem fram fóru þá um sumarið. Þessi mál voru þá rædd meðal þjóðarinnar, og kosningar féllu þannig, að stjórnarskipti urðu og sú löggjöf, sem sett var, var fyrirfram þjóðinni kunn og meiri hl. henni fylgjandi. Hefði þetta verið í annað sinn sem frestað var á þennan hátt, þá hefði mátt með meiri rétti en nú vitna til þess fordæmis. Það kann að vera, að meiri hl. Alþ., sá er að stj. stendur, vilji láta svo sem ekkert hafi gerzt síðan, en ég hygg, að þeir verði allmargir meðal landsmanna, sem eru á öðru máli um það. Því að beinlínis fyrir þingfrestunina á s. l. ári notaði stj. sér þann frest, sem gefinn var, til þess að kveðja ekki þing saman fyrr en bráðabirgðal. um sölu landbúnaðarafurða höfðu verið sett, með þeim einstaka hætti, sem engin dæmi eru til í okkar þingsögu, og vonandi verða ekki fleiri, að ein stétt manna er svo gersamlega svipt mannréttindum, og í framhaldi af því er svo nokkur hluti annarrar stéttar manna einnig settur skör lægra en nokkrir aðrir þegnar þjóðfélagsins. Þetta allt var gert í skjóli þeirrar þingfrestunar, sem gefin var og látin í té fyrir þetta ár. Nú er stofnað til þess sama hvað þingfrestun áhrærir, landbúnaðarlöggjöfin endar í miðjum sept., alveg eins og var nú í haust. Er það þá ekki nokkurt vorkunnarmál þeim, sem hafa andúð á þessari löggjöf og þeim ákvörðunum, sem gerðar hafa verið gagnvart öðrum þegnum þjóðfélagsins, þó að við viljum ekki á það fallast, að þetta endurtaki sig, ef möguleikar eru á því, að það endurtaki sig? En því sækir hæstv. stj. þetta svona fast, að Alþ. þurfi ekki að koma saman fyrr en 1. okt.? Af hverju allt þetta kapp? Eða er það bara til að storka þeim hluta Alþ. og þeim hluta þjóðarinnar, sem ekki veitir stj. brautargengi, að þetta er haft svona? Það hefði ég viljað vona, þó að þykkja okkar fari ekki saman, að stj. gerði sér þó ekki leik að því beinlínis að ögra þeim hluta þjóðarinnar og forsvarsmönnum hennar hér á Alþ. með því, að það, sem hún flytur, það skuli ekki hagga svo miklu sem „kommu“ frá því. Það kann að þykja gott í dag, en vel má vera, að hæstv. forsrh., sem ber ábyrgð á þessu máli, sjái það síðar, að betur hefði hann ekki sótt þetta mál svo fast. Vel má líka vera, að hann sjái það síðar, að betur hefði hann ekki sótt þetta mál af slíku ofurkappi, sem mér virðist nú að hann ætli að gera.