20.12.1945
Neðri deild: 62. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1001 í B-deild Alþingistíðinda. (1586)

151. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1946

Pétur Ottesen:

Mér þykir rétt að gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls, áður en það fer endanlega út úr hv. d. Það er búið að bera hér fram tvær brtt. við frv., sem telja má, að séu miðlunartill. í málinu, eða a. m. k. má svo að orði komast um aðra brtt., sem miðuð var við það, að Alþ. komi saman ekki seinna en 1. september. Þessar brtt. hafa nú báðar verið felldar, svo að það er sýnt, að málið á að ganga fram í þeim búningi að þessu leyti, sem því var valinn í upphafi. — Það lá hér fyrir síðasta þingi frv. um þingfrestun. Og það tímatakmark, sem þá var sett, olli þá ágreiningi, eins og þetta tímatakmark veldur enn ágreiningi. Ég studdi þá till., sem fram kom um það, að þingið kæmi ekki seinna saman en 1. sept., og þá var það með sérstöku tilliti til þess, að á tímabilinu á milli 1. september og 1. október hlyti að verða að taka ákvörðun um mjög mikilsvarðandi löggjöf, sem snerti annan aðalatvinnuveg þjóðarinnar, sem sé landbúnaðinn. Og ég taldi miklu eðlilegra, að það félli í skaut Alþ. að taka þessa ákvörðun heldur en að ríkisstjórnin gerði það upp á sitt eindæmi og væntanlega með stuðningi þeirra manna, sem bak við hana standa. — Nú olli þessi ákvörðun, sem ríkisstj. tók, mjög miklum ágreiningi í landinu, bæði hvað snertir þá aðferð, sem þar var viðhöfð, auk þess sem ágreiningur varð um hina málefnislegu hlið.

Þar sem gera má ráð fyrir, að líkt standi á, á næsta hausti, að gera þurfi ráðstafanir í þessu efni fyrir þann tíma, sem samkv. þessu frv. er ákvarðaður sem endatakmark þess, að þing komi saman, þá finnst mér, að það hefði verið rétt af hæstv. ríkisstjórn og þeim, sem hana styðja, með tilliti til þeirra árekstra, sem þetta hefur valdið á síðasta hausti, að gengið hefði verið það langt til samkomulags við þessa óánægðu menn að halda því ekki til streitu að hafa sama tímatakmark í þessu efni og þá var.

Ég held, að það hefði verið hyggilegt af hæstv. stj. að taka þetta tillit til þeirra manna, sem hafa látið í ljós óánægju út af þessari ákvörðun síðasta haust. Þetta hefur hæstv. stj. ekki talið sér fært að gera, og tel ég það mjög miður farið. Og með tilliti til þess, að ég lít á þetta sömu augum og ég gerði, þegar sams konar ákvörðun var tekin um þetta síðast, þá mun ég greiða atkv. á móti þessu frv. nú, þegar það kemur til endanlegrar afgreiðslu, og það er af þessari ástæðu, sem ég hef nú lýst, sem ég greiði atkv. á móti þessu frv. Ég vildi láta þetta koma fram hér, af því að það er svo margt annað, sem blandað hefur verið inn í þessar umr. og er þannig, að ég vil ekki láta líta svo út, að mín afstaða markist neitt af því, heldur eingöngu af þessu eina atriði.