22.12.1945
Efri deild: 57. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (1591)

151. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1946

Forsrh. (Ólafur Thors):

Eins og grg. þessa frv. ber með sér, þá er lagt til í þessu frv., að samkomudagur reglulegs Alþingis á árinu 1946 verði 1. október, vegna þess að ætlað er, að þetta þing, sem nú stendur yfir, haldi áfram, en því verði einungis frestað til 1. febrúar n. k., en þá hefjist það að nýju. Og þegar það kemur þá saman, verður að sjálfsögðu reynt að ganga frá sem flestum mikils varðandi málum, sem nú liggja fyrir þinginu, jafnframt því, eftir því sem auðið verður, að bera fram að sjálfsögðu hverja þá nýja till., sem Alþ. óskar eftir eða breyttar kringumstæður kunna að krefjast.

Um þetta mál hafa staðið nokkrar deilur í hv. Nd., og ég þóttist taka eftir því, að hv. Ed. þm. voru þar viðstaddir, er þær umr. fóru fram þar.

Sé ég ekki ástæðu til að orðlengja um frv., enda er ekkert annað að segja um það en það, að þessu yfirstandandi þingi hefur ekki verið hægt að ljúka nú fyrir jólin og því verður þinghald að verða áframhaldandi á fyrri hluta næsta árs, þannig að þessu yfirstandandi þingi verði þá fram haldið. Og af þeim ástæðum þykir nauðsynlegt .að fresta aðalþinginu 1946 til 1. október. Nú er þó frestunin að því leyti ekki ákveðin, að það er eingöngu lagt á vald ríkisstj., hvort þing verður kallað saman fyrr á árinu, en þó á það ekki síðar að koma saman en 1. október. Má vera, að fyrr verði að kveðja það saman. En úr því sker reynslan.

Það hafa komið fram óskir í hv. Nd. um það, að Alþ. skuli koma saman í síðasta lagi 1. ágúst eða 1. september. Hv. Nd. vildi ekki fallast á það. Ég fyrir mitt leyti sé ekki heldur ástæðu til þess. Og fyrir því má færa rök, að það gæti verið heppilegt, en þó ekki svo sterk frá mínu sjónarmiði, að ástæða sé til að taka þau til greina.

Ég vildi mælast til þess, að þetta mál gæti fengið fljóta afgreiðslu, þannig að ekki þætti ástæða til að tefja þingið vegna þessa máls, ef menn á annað borð vilja fallast á það. En ef allt fer með felldu eins og gert er ráð fyrir, er meiningin, að þinginu verði frestað á morgun.