22.11.1945
Neðri deild: 37. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1006 í B-deild Alþingistíðinda. (1607)

62. mál, þjóðjarðasala og kirkjujarða

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það er eitt atriði, sem ég vildi minnast á í sambandi við þetta frv. Í fyrri málsgr. 2. gr. segir svo: „Jarðir, sem seldar eru samkvæmt 1. gr., skulu seldar fyrir það verð, sem eftirgjald þeirra segir til um miðað við 3% vexti, og greiðast að fullu við afsal.“ Ég er hræddur um, að eftirgjald það, sem nú er greitt eftir jarðir, sem eru almannaeign, sé ekki í öllum tilfellum öruggur mælikvarði, þegar ákveða skal söluverð jarðanna. Ég hef hugmynd um, að eftirgjald jarðanna sé ákaflega langt frá að vera hlutfallslega það sama miðað við dýrleika jarðanna. Ég hygg, að það sé þannig, að sumar af þessum jörðum séu byggðar eftir ábúðarl. frá 1933, en margar aðrar byggðar eftir eldri ákvæðum og leigumáli sé þess vegna þar arinar. Ég hygg, að það sé svo, að sumar af þessum jörðum séu leigðar samkvæmt gildandi samningum fyrir minna eftirgjald en sem svarar 3% af fasteignamatsverði, en aðrar aftur fyrir hærra verð. Sérstaklega mun það vera þannig, þar sem ákveðið er í byggingarbréfi, að landskuld skuli greidd í fríðu, sem kallað er, að þá sé eftirgjaldið samkvæmt núverandi verðlagi nokkuð hátt.

Ég vil benda á í þessu sambandi, að í l. um ættaróðul og erfðaábúð frá 1943 er kafli um erfðaábúð, sem ákveður; að afgjald af þeim jörðum, sem leigðar eru samkvæmt þeim l., skuli vera 3% af fasteignamatsverði lands og jarðarhúsa. Í sömu l. er ákveðið, að ábúandi, sem hefur fengið erfðaábúð á jörð, geti fengið hana keypta með því að gera hana að ættaróðali fyrir þetta verð, þ. e. a. s. fasteignamatsverð. Mér finnst þarna ósamræmi, þar sem gert er ráð fyrir í þessu frv., að söluverðið skuli miðað við eftirgjald, sem nú er greitt, en í l. um ættaróðul er því slegið föstu, að fasteignamatsverð skuli gilda. Ég skal ekki dæma um, hvort heppilegra er, en ég vil aðeins benda á, að þessi l. ættu að vera betur samræmd en hér er gert. Mér virðist óeðlilegt, að ákvörðun söluverðs sé með öðru móti en gert er ráð fyrir í l. um ættaróðul og erfðaábúð.

Eins og vikið er að í grg., þá geta þeir, sem búa á jörðum hins opinbera, fengið þær keyptar, ef þeir hafa fyrst fengið á þeim erfðaábúð, og hefur í þeim tilfellum fasteignamatsveró gilt, en mér skilst, að ef þetta frv. verður að l., þá fái menn jarðirnar með allt öðrum kjörum samkvæmt þeim. Ég vil því beina því til n., hvort hún vilji ekki taka þetta atriði sérstaklega til athugunar fyrir 3. umr. málsins.