22.11.1945
Neðri deild: 37. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1010 í B-deild Alþingistíðinda. (1612)

62. mál, þjóðjarðasala og kirkjujarða

Stefán Jóh. Stefánsson:

Það eru aðeins örfáar aths. við ræðu míns ágæta sessunautar, hv. þm. Borgf. (PO). Mér skilst, sem hann vilji gera allt of lítið úr þeirri breytingu, sem fram kemur í þessu frv. miðað við það ástand, sem áður hefur verið. Eins og hv. þm. Borgf. veit, er yfirleitt ekki hægt að selja þjóð- og kirkjujarðir nema með sérstökum l. frá Alþ. En með því að samþykkja frv. það, sem fyrir liggur, þá opnast sú almenna leið inn á þá braut, eftir reglum, sem fyrir er mælt í þessu frv., með því eina skilyrði, að það sé ábúandi sem setið hefur jörðina tiltekinn tíma og hafi meðmæli hlutaðeigandi hreppsnefndar og hann fær jörð þessa eftir reglum, sem ákvæði gilda um í l. um erfðaábúð og ættaróðal. Það er farið inn á nýja braut í þessu efni; og ég veit, að hv. þm. Borgf. finnur það sjálfur, og þess vegna hefur hann flutt þetta frv. Hann vill breyta til og fá reglur um það, að ekki skuli þurfa sérstök l. um sölu hverrar jarðar til ábúanda eða á annan hátt: Þetta er stórkostleg breyting frá því, sem hefur verið. Hvað varðar nýsköpunina og annað í því sambandi, þá skal ég geta þess, að ef hið opinbera, ríkið, sæi ástæðu til þess að leggja fram að einhverju leyti verulega aðstoð sína til þess að breyta landbúnaðinum með beinum fjárframlögum eða á annan hátt, þá fyndist mér eðlilegt, að sú skipan haldist, sem verið hefur, að þær jarðir, sem hafa verið eign ríkisins og kirkjunnar, sem lítill munur er á hvort er, að þær verði það áfram, svo að þær jarðir geti notið þeirra hlunninda með því að vaxa í verði við aðgerðir þess opinbera, en að það falli ekki í skaut þeirra einstaklinga, sem kynnu að hafa fengið jarðirnar áður en slíkar aðgerðir hefðu verið gerðar fyrir atbeina eða tilkostnað sjálfs ríkisins. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fara inn á það, í hverju nýskipanin í íslenzkum landbúnaði gæti orðið. Ég dreg ekki í efa það, sem hv. þm. Borgf. segir, að það sé mikill áhugi meðal íslenzkra bænda til að notfæra sér nýjustu tækni, sem aukizt hefur á síðustu tímum, til að gera atvinnuveginn líklegri til betri árangurs. Og Alþ. hefur ekki heldur látið sitt eftir liggja til þess að hvetja og styrkja, að slíkar framkvæmdir yrðu gerðar. Ég vil ekki draga úr þeim orðum, sem hv. þm. Borgf. sagði, og ég finn líka, að mikill áhugi er meðal bænda í þessu efni. En vera má þó, að setja þurfi nánari heildarreglu, — til þess að þær framfarir eða nýskipan, sem kynnu að verða í landbúnaðarmálunum, yrðu gerðar eftir öruggum áætlunum, þannig að þær næðu betur tilgangi sínum. En að opna allar gáttir, til þess að einstaklingar geti eignazt ríkis- og kirkjujarðir, er sízt til þess fallið að örva löggjafar- og ríkisvaldið, eftir að búið er að selja þessar jarðir, til að leggja fé af mörkum til þess að bæta jarðir, sem eru algerlega í einkaeign.