22.11.1945
Neðri deild: 37. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (1613)

62. mál, þjóðjarðasala og kirkjujarða

Sigurður Guðnason:

Út af því, sem hv. 2. þm. Skagf. (JS) sagði hér um ágreining minn og afstöðu mína til þessa máls þegar landbn. hafði þetta frv. til meðferðar, vil ég aðeins segja örfá orð. Það er alveg rétt, að ágreiningur minn stafar einfaldlega af þeirri ástæðu, að ég er mótfallinn allri sölu á jörðum, sem eru í félagseign, bæði kirkju- og þjóðjörðum. Þar af leiðir, að ég hlýt að vera á móti því að auðvelda sölu þeirra á nokkurn hátt.

Það er réttilega tekið fram hjá hv. þm. Borgf. (PO), að andstæðingar þessa frv. væru á móti því vegna þess, að það gerir greiðari aðgang með að selja þjóðjarðirnar. Og það þarf, engan að undra, að þeir, sem eru á móti þeirri málsmeðferð, sem lagt er til í þessu frv., greiði atkv. á móti því.

Um það atriðið, hvort jarðir eru betur setnar í einkaeign en ef þær eru í eign ríkisins, er það að segja, að ég veit mörg dæmi þess, að illa er farið með jarðir, sem eru í einkaeign, og ég gæti varið löngum tíma í það að telja upp þær jarðir, sem betur hefðu verið komnar í eigu ríkisins en í einkaeign.

Ég vil svo að lokum ljúka máli mínu með því að ítreka enn einu sinni þá skoðun mína, að ég vil ekki og tel ekki heldur rétt að auðvelda einstaklingum að kaupa hvorki þjóð- né kirkjujarðir.