27.11.1945
Neðri deild: 40. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í B-deild Alþingistíðinda. (1617)

62. mál, þjóðjarðasala og kirkjujarða

Frsm. (Jón Sigurðsson) :

Landbn. ber fram tvær brtt. við frv. Eru báðar í samræmi við óskir, sem komu fram við 2. umr. Fyrri brtt. er. við 1. gr., að til viðbótar við námuréttindi verði vatnsréttindi og jarðhitaréttindi undanskilin við sölu þessara jarða. Síðari brtt. er gerð með tilliti til þess, að það munu vera mjög breytileg leigukjör á þessum jörðum, og það hefur verið upplýst, að sums staðar er greitt eftir jarðirnar í fríðu, en það hefur þær afleiðingar, að eftirgjaldið er kannske óeðlilega hátt, sé það reiknað í peningum. Það þykir því eðlilegt að breyta þessu á þann veg, að fasteignamat skuli ráða að viðbættu álagi, sem kann að fylgja jörð, þegar sala fer fram. Er þá lagt til grundvallar sama og gert er, þegar metið er eftirgjald, um leið og jörð er færð úr lausri ábúð í erfðaábúð, og er þá komið fullt samræmi á milli. Um þetta urðu nokkrar umr. við 2. umr., og sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um það nú, ég geri ráð fyrir, að allir hv. þdm. hafi áttað sig á, hvernig þessu er varið.