27.11.1945
Neðri deild: 40. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í B-deild Alþingistíðinda. (1618)

62. mál, þjóðjarðasala og kirkjujarða

Jörundur Brynjólfsson:

Ég vil beina því til hv. frsm. landbn., hvort ekki muni vera fulllangt gengið að undanskilja svo gersamlega sem mér skilst, að gert sé í brtt., afnotarétt af jarðhita og vatnsréttindi. Eftir þessari till. skilst mér, að eigandi hafi ekki leyfi til að nota jarðhita til heimilisþarfa og ekki heldur vatnsréttindi, því að það er gersamlega undanskilið, og sá, sem jörðina kaupir, hefur þá alls engin not af þessum hlunnindum. Ég þykist vita, að það hafi ekki verið meining n., að slíkt skuli eiga sér stað, en þar sem þetta er sett í sambandi við námuréttindi, þá er það skýlaust ákvæði og hefur ætíð verið skilið svo að ef námur finnast í jörð, þá séu þær eign ríkisins, að öllu leyti óskorað, og mér skilst, að eftir orðalagi till. eigi alveg eins að fara með vatns- og jarðhitaréttindi. Ég hefði gjarnan viljað bera fram brtt. um þetta, en satt að segja láðist mér að koma því í framkvæmd, því að þegar ég sá brtt., þá hjó ég eftir þessu, og vil ég gjarnan heyra, hvað hv. frsm. segir.