27.11.1945
Neðri deild: 40. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1014 í B-deild Alþingistíðinda. (1623)

62. mál, þjóðjarðasala og kirkjujarða

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Hér er um tvær stefnur að ræða, sem er geysilega langt á milli. Hér er um það að ræða, hvort ríkið eigi að afhenda einstaklingum verðmæti eins og vatnsréttindi og jarðhitaréttindi og þar með tryggja, að einstaklingar geti grætt á því stórfé beinlínis til tjóns almenningi. Það verður ekki um það deilt, að jarðhiti og vatnsréttindi, þar sem um mikið vatnsafl er að ræða, eru geysilega miklir tekjustofnar fyrir þá einstaklinga, sem hafa yfirráð yfir þeim, og það getur kostað fjölda manna, sem þurfa að fá afnot af þeim, mikil útgjöld, ef þau komast í eigu einstaklinga. Þess vegna er rangt að opna leið til þess, að ríkið láti slíkar jarðir af hendi til einstaklinga, ég álít, að það komi alls ekki til mála. Ég vil í því sambandi minna á það út frá því, sem hv. 1. þm. Árn. sagði, að það mun hafa komið fyrir ekki fyrir löngu síðan í hans eigin sveit, að jörð, sem hafði geysilega verðmæt jarðhitaréttindi, var seld út úr hreppnum, og sá, sem fékk þessi réttindi, hefur svo selt öðrum af þeim fyrir stórfé. Um þetta hafa orðið blaðadeilur meðalsveitarmanna sjálfra. En þar sem ekki er nema sáralítill jarðhiti eða vatnsafl, sem væri til afnota fyrir jarðareiganda sjálfan, þar er öðru máli að gegna. En ég tel fjarstæðu, sem hefur verið drepið á, að það að undanskilja vatnsréttindi geti þýtt það, að bannað sé að veita vatni í bæinn, það tekur enginn alvarlega. Hér er um það stóra atriði að ræða, hvort eigi að gefa einstaklingum kost á að fá frá ríkinu stór verðmæti, sem þeir geta síðan notað sér til tekjuaukningar á kostnað annarra, sem þurfa að njóta þeirra líka.