29.11.1945
Neðri deild: 42. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í B-deild Alþingistíðinda. (1627)

62. mál, þjóðjarðasala og kirkjujarða

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mig langar til að fá upplýsingar hjá hv. frsm. landbn. um það, hvað hann eða hv. landbn. á við með orðunum: „umfram heimilisþarfir“ í brtt. á þskj. 234, þar sem talað er um vatns- og jarðhitaréttindi. Það eru nú orðin til nokkur býli hér á landi, þar sem lifað er eingöngu á jarðrækt í sambandi við heitt vatn. Og þessir staðir þurfa mikið vatn, og sumir þeirra hafa mjög mikið vatn. Sumir þeirra hafa meira en hektara undir gleri og hitalögnum. — Ég get hugsað mér, að það geti orðið talsvert umdeilt mál, hver hitaþörfin er fyrir heimili, þegar um það er að ræða, hvað miða skuli hér við í sölunni. Og þó að þetta sé álitið ljóst, þá er það þó ekki svo ljóst til tekið hér, að að gagni komi, þegar til framkvæmda kemur í lífinu.