16.10.1945
Sameinað þing: 3. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

16. mál, fjárlög 1946

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Fjárlagafrv. er jafnan talið eitt hið merkasta mál á hverju þingi. Ber margt til þess. Fyrst og fremst það, að þá kemur fram fjármálaástand ríkissjóðsins, eins og það er á hverjum tíma. Í öðru lagi er fjárlagafrv. venjulega spegilmynd af ástandinu í landinu, og loks kemur þar að vonum fram, á einn og annan hátt, sú stjórnarstefna, sem hinir ráðandi flokkar fylgja og byggja framkvæmdir sínar á. Það er því að vonum, að þessu frv. sé veitt nokkur athygli umfram önnur frv., svo sem líka má marka af því, að þetta er eina málið, sem skylt er samkv. þingsköpum að hafa útvarpsumr. um.

Ef ég væri um það spurður, hvað mér þætti sérstaklega markvert við þetta frv., sem hér liggur fyrir, mundi ég svara því til, að það væri þrennt. Í fyrsta lagi launahækkun starfsmanna ríkisins. Í öðru lagi verðlagsuppbót landbúnaðarafurða, eða eins og það er kallað í frv., niðurgreiðsla á nokkrum landbúnaðarafurðum til neyzlu innanlands. Og í þriðja lagi hátt framlag til opinberra framkvæmda.

Vegna þess að hæstv. fjmrh. hefur nú skýrt frv. lið fyrir lið og gert grein fyrir afkomunni, skal ég að mestu halda mig við þessi atriði, þó þannig, að með þeim mun ég lítillega minnast á önnur mál skyld, eftir því sem tími vinnst til. Að vísu lítur sínum augum hver á silfrið. Sumir kunna að líta svo á, að það sé ekki síður merkilegt en þessi þrjú atriði, sem ég nefndi, að frv. gerir ráð fyrir mjög miklum greiðsluhalla, eða 12,8 millj. kr. Ég tel þó, að enda þótt þetta sé þannig í frv., þá sé þar með alls ekki sagt síðasta orðið um það atriði, heldur sé það opið til breyt. fyrir hv. fjvn. og Alþ. og beri alls ekki að skoða frv. sem endanlega till. ríkisstj. um að afgr. málið þannig.

Þegar Alþfl. gekk til samstarfs við Sjálfstfl. og Sósfl. um stjórnarmyndun fyrir ári, var það fyrst og fremst til þess að vinna að framgangi og lausn ákveðinna mála, sem Alþfl. lagði höfuðáherzlu á, að breytt yrði hið allra fyrsta. Hið fyrsta þeirra var launamál opinberra starfsmanna. Varð það að samkomulagi milli flokkanna, að málið skyldi leyst í höfuðatriðum þannig, að komið yrði til móts við tillögur B.S.R.B. á því þingi, en þær lágu þá fyrir að mestu í frumvarpsformi og var gengið frá málinu eins og um var samið á síðasta þingi. Þó voru nokkrar starfsgreinar pósts og síma, sem frestað var að taka ákvörðun um og lagt á vald hlutaðeigandi ráðuneytis. Öllum þessum sérsamningum er nú lokið, og má segja, að yfirleitt hafi þar tekizt sem til var ætlazt í stjórnarsamningunum, og opinberir starfsmenn yfirleitt fengið þær launabætur, sem sanngjarnt mátti telja og farið var fram á. Þó að þeir menn séu að vísu til, sem telja, að með launalögunum sé hag ríkissjóðsins teflt í tvísýnu og lengra gengið en fjárhagur landsmanna þoli, þá játar nú orðið mikill meiri hluti þeirra manna, sem þetta mál hafa kynnt sér, að þessar réttarbætur til handa opinberum starfsmönnum séu yfirleitt sjálfsagðar og óumflýjanlegar, því að ekki getur það gengið til lengdar, að þeir séu verr launaðir en tilsvarandi starfsmenn hjá einstaklingafyrirtækjum. Fyrir utan ósanngirnina í því fyrirkomulagi hefði það, þegar fram í sækti, þær bersýnilegu afleiðingar, að þeir, sem annars ættu nokkurs kost — og það mundu þá vitanlega verða hinir færustu og duglegustu starfsmenn, — mundu hverfa frá starfi hjá ríkissjóði og leita þangað, sem arðvænlegra væri að starfa. Þarf ekki orðum að því að eyða, hverjar afleiðingar það mundi hafa fyrir hinn umfangsmikla rekstur ríkisins. Þetta atriði — hin bættu launakjör opinberra starfsmanna setur svo eðlilega sinn svip á fjárlfrv., eins og glöggt kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. Hækkanir hafa víða orðið allverulegar, sérstaklega hjá þeim, sem lægst voru launaðir áður. En þetta var vitað, og þarf enginn að furða sig á því.

Afstaða okkar Alþýðuflokksmanna til þessa máls er alveg ljós. Við bárum þetta mál fram þegar í upphafi, gerðum framgang þessa máls að skilyrði fyrir stjórnarsamvinnunni og fögnuðum þess vegna framgangi þess sem sjálfsagðri og eðlilegri réttarbót. Þessi útgjöld, sem launal. valda ríkissjóði, var því fyrirfram vitað, að mundu koma, og þeim verður að mæta eins og öðrum sjálfsögðum gjaldaliðum ríkissjóðs.

Eitt höfuðverkefni þessarar ríkisstj. hefur verið að leitast við að halda niðri eins og hægt hefur verið verðlaginu í landinu. Það hefur tekizt á þann hátt, að vísitala framfærslukostnaðar hefur hækkað úr 271 stigi, er stj. tók við völdum, í 278 stig 1. sept. s. l., og er þessi hækkun því með allra minnsta móti, sem orðið hefur frá því ófriðurinn hófst. Að vísu er skylt að geta þess, að allar líkur virðast standa þannig, að nokkur hækkun muni hafa orðið um síðustu mánaðamót vegna hækkunar landbúnaðarafurða, en það er hvort tveggja, að nokkrar vonir standa til þess, að sú hækkun muni geta minnkað aftur síðar að mjög verulegu leyti, og að um þetta leyti hefur á hverju ári orðið nokkur hækkun, stundum meiri, stundum minni, vegna hækkandi verðlagningar landbúnaðarafurðanna.

Ég gat þess í upphafi, að mér þætti eitt af aðaleinkennum þessa frv. vera framlagið úr ríkissjóði til að hindra, að landbúnaðarvörurnar hækkuðu vísitöluna úr hófi, og eru til þess ætlaðar 12 millj. kr., sem mér virðist þó hæpið að muni nægja. Undanfarin ár hefur það ekki verið venja að taka þessa upphæð upp í fjárlfrv. og jafnvel ekki inn í fjárl., þó að vitað væri, að hærri upphæð en þetta raunverulega mundi koma til útborgunar í þessu skyni. Það er því í fyrsta lagi nýmæli, að upphæðin skuli tekin upp í frv. – Í öðru lagi ber þessi háa upphæð svo ljóst sem verða má með sér, að engin viðunandi lausn og allra sízt varanleg lausn er enn fundin á vandamálum afurðasölu landbúnaðarins: Því að það verður að teljast í alla staði óframkvæmanlegt að halda stöðugt áfram á þeirri braut, sem farið hefur verið inn á hin síðari ár, að greiða úr ríkissjóði svo millj. kr. skiptir — og tugum millj. kr. — til þess að verðlag þessara vara skapi ekki fullkominn glundroða í landinu. Ríkisstj. átti þó ekki margra góðra kosta völ. Hún gat í fyrsta lagi látið leika lausum hala hækkun vísitölunnar upp í 310 stig, og í öðru lagi greitt niður allt eins og áður var gert, en undir því reis ríkissjóður ekki. Og hún gat loks í þriðja lagi farið millileiðina, eins og gert var.

Hv. 2. þm. S.-M. (EystJ) hélt því fram hér áðan, að með þessari aðferð væri þjóðinni skipt í verðuga og óverðuga, hreina og óhreina. Þeir óhreinu væru þeir menn, sem hefðu tvo menn eða fleiri í þjónustu sinni. Þetta er furðulega röng túlkun. Þeir, sem hafa tvo menn eða fleiri í þjónustu sinni og greiða þeim kaup með vísitöluálagi, hafa vitanlega einnig hagnað af þessum ráðstöfunum og sennilega miklu meiri en. hinir, er njóta endurgreiðslu samkv. l., svo að það er síður en svo, að þeir séu verr settir Annars má fullyrða það sama um landbúnaðarafurðasöluna og aðra afurðasölu landsmanna: Hún verður að geta staðið á eigin fótum. Annars fer illa. Tilkostnaðurinn verður að lækka og afköstin að aukast, en það þarf út af fyrir sig ekki að þýða kauphækkun, heldur hagkvæmari vinnubrögð, og mun ég koma betur að því síðar.

Hv. 2. þm. S.-M. ræddi nú, eins og framsóknarmenn reyndar venjulega gera, mjög einhliða um þá hættu, sem stafaði af dýrtíðinni í landinu, og það öngþveiti, sem atvinnuvegir landsmanna væru að komast í vegna dýrtíðarinnar. En hv. þm. gleymdi því, hvern þátt hann sjálfur og hans flokkur á í vexti dýrtíðarinnar í landinu, og ég held, að það sé það bezta fyrir hann, áður en hann fer að leita að ráðum til þess að bæta úr dýrtíðinni, að gera sér það ljóst, að það er hann og flokksmenn hans, sem hafa staðið að öllu því öngþveiti, sem miðaði að því. að auka dýrtíðina. Ég hef minnzt á það áður hér í útvarpinu og skal ekki endurtaka það nema með örfáum orðum. Framsfl. stóð að því á sinni tíð, eða í jan. 1940, að fella niður ákvæði, sem bindi saman kaupgjald og verðlag, og var þar með rutt úr vegi hömlum fyrir vexti dýrtíðarinnar, sem orsakaði það, að landbúnaðarvísitalan hækkaði upp í 163 stig í des. 1940 og vísitala framfærslukostnaðarins var 142 stig og kaupgjaldsvísitalan 127 stig. — Þá má og fullyrða, að annað spor, sem þessi flokkur hefur stigið, á sinn mikla þátt í því, að stigið væri með setningu gerðardómsl. um áramótin 1941–42. Framsfl. stóð ekki síður að því en Sjálfstfl. Vísitalan hækkaði á árinu og tók það stærsta stökk, sem hún hefur tekið. Framsfl. hefur svo alltaf alið á því, að það sé að kenna Sjálfstfl., en það er einmitt því að kenna, hvernig búið var í haginn með setningu gerðardómsl. Það var hans óheillaspor og sex manna nefndar sáttmálinn, sem allir kannast við og ég skal ekki mikið ræða. En þessi þrjú spor: niðurfelling l. þeirra, er bundu kaupgjald og verðlag, gerðardómsl. og sex manna nefndar sáttmálinn, hafa valdið svo að segja allri hækkun vísitölunnar í landinu. — En eitt er að ræða um, hver eigi sökina á því, að nú er komið sem komið er í dýrtíðarmálunum, og annað að leggja á ráðin til úrlausnar.

Há vinnulaun eða hátt kaupgjald er í sjálfu sér enginn þjóðarvoði, síður en svo. Þá fyrst er um vandamál að ræða í þessu sambandi, þegar þessi háu vinnulaun valda stöðvun á útflutningnum, þegar framleiðslukostnaðurinn er orðinn svo hár, að erlent markaðsverð skilar ekki hinum raunverulega tilkostnaði. Þegar svo er komið, hefur venjan verið sú að grípa fyrst til kauplækkunar. En það eru vissulega til fleiri leiðir til þess að jafna þessi met, og þá fyrst og fremst sú aðferðin að auka afköstin með bættum vinnuaðferðum og fullkomnari tækni.

Úr því að sumir hafa hér farið í nokkurs konar eldhúsdagsumr. og rætt stefnumálin, þá sé ég ekki á móti því að lýsa með nokkrum orðum afstöðu Alþfl. til þessara mála. — Alþfl. hefur frá því fyrsta verið þeirrar skoðunar, að þessa leið bæri að fara, áður en nokkur önnur leið er reynd, og hann er þeirrar skoðunar enn í dag. Barátta flokksins fyrir byggingu síldarverksmiðja allt frá 1927 og fyrir starfsemi fiskimálanefndar, svo sem byggingu hraðfrystihúsa og ýmsum nýjum veiði- og verkunaraðferðum, frá 1934 og síðan er ljóst dæmi um þetta.

Síldarverksmiðjurnar og frystihúsin eru nú orðin svo veigamikill þáttur í útgerðarstarfseminni, að óhugsandi er að reka þennan atvinnuveg án þeirra. Þessi nýbreytni er hið ljósasta dæmi þess, hvað hægt er að vinna með breyttum starfsaðferðum og aukinni tækni og ekki með kauplækkun. Samhliða má svo segja, að komi skipulagning atvinnuvegarins, eins og t. d. starfsemi síldarútvegsn. er gott dæmi um, sem hefur gerbreytt svo aðstöðunni við síldarsöltun, að frá því að vera óviss og áhættusamur atvinnuvegur í mesta máta er hann nú orðinn árviss og áhættulaus innan þeirra takmarka auðvitað, sem fiskigengdin í sjónum setur og enginn ræður við eða getur sagt um fyrirfram enn sem komið er a. m. k.

Nokkuð svipað má segja um bæjarútgerðina, sem Alþfl. hefur einnig beitt sér fyrir, en ekki fengið ráðið að koma í framkvæmd nema á allt of fáum stöðum og raunar ekki hreinni nema á einum stað. En þar hefur hún líka gefið hina ágætustu raun, svo góða, að annað form hefur ekki betur gefizt. Hún hefur sýnt, að með því fyrirkomulagi má fleyta atvinnuveginum yfir erfið ár og safna miklu fé til öryggis og tryggingar framtíðinni, þegar vel árar. Þetta tvennt, skipulagsbundin starfsemi og aukin tækni, er því líklegustu úrræðin og hafa þegar sannað, að þau eru líklegustu úrræðin til að leysa vandamál dýrtíðarinnar, svo framarlega sem það er hægt. Einn veigamesti þátturinn í stjórnarsamningunum var því að ákveða, að mjög verulegur hluti af inneignum okkar erlendis yrði notaður til að leysa málin á þessum grundvelli, þ. e. a. s. öflun nýrra og fullkominna tækja, til að unnt yrði að auka afköstin. — Hvernig stendur þá það mál, hvað hefur verið gert í því? Þetta á þjóðin rétt á að fá að vita, og ég tel því rétt að gefa aðeins stutt yfirlit yfir það.

Það hafa verið keyptir inn 100 mótorbátar, tæpir 2/3 þeirrar tölu erlendis og rúmlega 1/3 byggður hér heima. Þessir bátar eru yfirleitt stærri, hraðskreiðari og betur búnir en bátar hafa verið almennt hér og eiga því að geta skilað miklu meiri afla að tiltölu en smærri fleyturnar gerðu áður.

Það er þessa dagana verið að ganga frá kaupum í Englandi á 30 togurum stærri og betur út búnum en áður hefur þekkzt hér á landi, og mér er sennilega óhætt að segja betur út búnum en yfirleitt hefur áður verið venja hjá flestum þjóðum. En þetta mun nú betur koma fram síðar, og skal því ekki fjölyrt um það nú.

Verzlunarflotinn er að stóraukast. Eimskip hefur þegar keypt 2–3 vöruflutningaskip helmingi stærri en þau, sem félagið á nú í förum. Og enn hyggst félagið að bæta við, svo að nýju skipin verði samtals sex. Skipaútgerð ríkisins er að láta athuga möguleika fyrir kaupum á einu strandferðaskipi svipaðrar stærðar og gerðar og Esja og enn fremur tveim minni vöruflutningaskipum. Auk þess hafa svo einstaklingar látið smíða bæði tankskip og kæliskip, sem ýmist eru langt komin í smíði eða verið er að hefja smíði á. Öll þessi skipakaup bera vitni þeirrar viðleitni bæði ríkisstj. og einstaklinga að fá bættan skipakost eins og hann þekkist beztur og jafnvel betri en hann þekkist beztur annars staðar, til þess fyrst og fremst á þann hátt að geta haldið sem bezt í horfinu þrátt fyrir dýrtíðina. Enn fremur má geta þess, að í byggingu eru tvær síldarverksmiðjur, á Siglufirði og Skagaströnd, sem báðar eiga að bæta úr brýnni þörf og eiga að geta orðið einn liðurinn í því kerfi, sem verið er að skapa til þess að búa sem bezt í haginn fyrir sjávarútveginn.

Landbúnaðarvélar hafa líka verið keyptar á þessu ári og leyfi veitt í nánustu framtíð fyrir upphæðum, sem mjög fara fram úr því, sem áður hefur tíðkazt til þeirra kaupa. Er það vissulega vel, að þessi atvinnuvegur fái sinn hluta, því að hann þarf sannarlega á því að halda, svo að ekki sé meira sagt.

Loks vil ég aðeins með örfáum orðum minnast á rafmagnsmálin. Með hinni innlendu orku, sem við eigum bæði í fallvötnum og hverum, höfum við kannske mesta möguleikana til að halda uppi tiltölulega háum „lífsstandard“ í okkar litla og fámenna þjóðfélagi. Með heppilegum raforkuvirkjunum og skynsamlegri dreifingu eigum við að hafa í hendi okkar ákaflega sterka möguleika til að gera alla starfrækslu ódýrari og lífið þægilegra fyrir allan almenning. Tvær rafvirkjanir eru nú í gangi, í fyrsta lagi Andakílsárvirkjunin og gufustöð Reykjavíkurbæjar, sem verið er að afla til allra nauðsynlegra tækja og bráðlega verður hafizt handa um að reisa. Þá hafa á þessu ári tekið til starfa Rafveitur ríkisins með línulögn um allan Reykjanesskaga, sem efni er nú keypt til og verið er að leggja. Auk þess er nú ákveðin og verið að festa kaup á efni til línu frá Sogsfossum til Selfoss, Eyrarbakka og Stokkseyrar og frá Laxárvirkjuninni til Húsavíkur, allt. samkvæmt heimildum síðasta Alþingis. Má gera ráð fyrir, ef hægt er, eins og til er stofnað, að allir þessir staðir fái rafmagn á næsta ári. Mér er ekki nákvæmlega kunnugt um, hve margt fólk hér er um að ræða, en hygg, að það muni vera milli 10 og 20 þús. manns. Auk þess er svo verið að hefja rafmagnsframleiðslu í stórum stíl með mótorvélum í Vestmannaeyjum, Neskaupstað og víðar, og undirbúningsrannsóknir og vinna hafa farið fram á mörgum öðrum stöðum. Ég nefni þetta aðeins til að sýna, að sú viðleitni, sem ég minntist á um hagnýtari vinnubrögð og öflun nýrra og fullkominna tækja, er vissulega í fullum gangi, og ég get ekki annað sagt en að á þessu sviði hafi samstarfsflokkarnir í ríkisstj. staðið við gefin fyrirheit. En öflun þessara nýju tækja telja margir meginatriði stjórnarsamningsins.

Fjárlfrv. gerir ráð fyrir mjög auknum verklegum framkvæmdum. Að vísu eru framlög til vega og hafnargerða svipuð og þau hafa verið mest áður, en nú ber mikið á framlögum til opinberra bygginga, miklu meira en venja hefur verið til. Ég nefni aðeins fátt eitt:

Ný símakerfi og aðrar eigna-

aukningar landssímans

3,5 millj.

kr.

Vegir, hafnir og vitamál

8,4 —

Til sjúkrahúsbygginga og læknis-

bústaða

2,1 —

Til ríkisútvarps, þjóðminjasafns

og raforkusjóðs

2,6 —

Til skólabygginga

7,6 —

eða um 25 millj. kr.

Við höfum á síðustu árum rétt vel úr kútnum Íslendingar fjárhagslega. Sumar orsakirnar, sem til þess liggja, eru okkur ekki sjálfráðar að vísu, en þó verður því ekki móti mælt, að því aðeins hefur þetta mark náðst, að unnin hafa verið erfið og áhættusöm verk og öll tækifæri notuð, sem boðizt hafa. Það má þá líka ganga út frá því sem gefnu, að þjóðin sleppir ekki frá sér aftur með góðu því, sem áunnizt hefur, og því aðeins gerir hún það, að áður hafi verið reyndar allar hugsanlegar aðferðir til að halda í horfinu. En aðferðirnar til þess eru, eins og ég hef lýst, fullkomnari tækni og betra skipulag, og í þá átt miðar öll viðleitni núv. ríkisstj. Takist það ekki eða réttara sagt, nægi þessar aðgerðir ekki, verður að grípa til lækkunar, en það á að verða síðasta úrræðið, en ekki það fyrsta.

Hv. 2. þm. S.-M. sagði í lok ræðu sinnar, að nú yrði að koma til kasta þjóðarinnar sjálfrar. Hér dygði engin gagnrýni, heldur skyldu verkin tala. Tækifærið hefði þjóðin við kosningarnar næstu, og hv. þm. endaði ræðu sína sem nokkurs konar kosningaávarp og slengdi þar út kosningaprógrammi Framsfl., en það var þetta: Það verður að lækka allt kaupgjald í landinu nú þegar. — Það er stefna Framsfl. Þessi stefna er ljós og auðskilin, en stefna ríkisstj. er líka jafnljós. Hún beitir sér ekki fyrir niðurfærslu kaupgjaldsins, fyrr en öll önnur sund eru lokuð og allar aðrar leiðir reyndar, þær leiðir, sem hún er að undirbúa með nýjum tækjum og nýjum vinnuaðferðum og skipulagi.