19.11.1945
Efri deild: 33. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í B-deild Alþingistíðinda. (1660)

23. mál, byggingar- og landnámssjóður

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Af ræðu hv. frsm. meiri hl. er það ljóst, að hann fylgir þessu frv. einungis vegna þess, að hann misskilur það, ef taka á orð hans alvarlega viðkomandi dæmi því, sem hann tók. Hann tók sem dæmi tvær jarðir, þar sem önnur hafði ekki fengið styrk og þá var hægt að selja hana fyrir fullt verð, en hina taldi hann, að yrði að selja samkv. fasteignamati, ef þetta ákvæði verður ekki fellt burtu úr 1. En það er misskilningur, að þetta ákvæði hljóði upp á það, að ekki megi selja eða leigja þessa jörð hærra verði en fasteignamat leyfir eða að l. yfirleitt ákveði nokkuð um það. Ákvæðið í l. hljóðar aðeins upp á það, að ef fasteignin er seld eða leigð hærra en fasteignamat hljóðar upp á, þá falli lánið í gjalddaga fyrirvaralaust. Ég get fullvissað hv. frsm. meiri hl. og hv. þm. Dal. um, að það ber enga brýna nauðsyn til að fella þessa gr. niður úr l. Það er alveg frjálst fyrir hvern sem er að selja jörð sína á hvaða verði sem hann vill. Það eina, sem hann þarf að gera, er að endurgreiða lánið. Það er engin nauðsyn að afnema þetta ákvæði, þótt 17, gr. hafi verið numin úr gildi. Mér er persónulega kunnugt um, að það eru ýmsar jarðir, sem seldar hafa verið miklu hærra verði en l. leyfa. Viðkomandi hefur sem sé tekið þann kostinn að selja jörðina á frjálsum markaði og endurgreiða lánið. Og ég sé ekki ástæðu til að gera upp á milli manna, þótt 17. gr. hafi verið felld úr gildi. Ef viðkomandi getur selt jörðina með ágóða, er hann ekkert of góður að endurgreiða ríkinu aftur lánið, sem hann fékk til að byggja upp jörðina. Þess vegna mun ég greiða atkv. á móti þessu frv.

Ég sé enga ástæðu til þess, að ríkissjóður fari að gefa þessum mönnum fé vegna þess, að þeir komust í þá aðstöðu, að byggingarnar eru orðnar margfalt meira virði en þær voru á þeim tíma, sem fénu var varið til þeirra.