16.10.1945
Sameinað þing: 3. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

16. mál, fjárlög 1946

Þóroddur Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. gerði allýtarlega grein fyrir fjárlagafrv. því, sem hér liggur fyrir, í ræðu sinni.

Um tekjuliði frumv. vil ég segja það, að mér finnst þeir vera áætlaðir mjög varlega, og þó það skuli fúslega viðurkennt, að ekki er gott að dæma um, hvað hinir ýmsu tekjuliðir reynast háir, meðan eins mikil óvissa ríkir um söluhorfur á útflutningsvörum landsmanna og nú er, þá finnst mér þó, að tekjuáætlunin sé varleg um of.

Margir af gjaldaliðunum, svo sem starfslaun, vextir og afborganir skulda o. fl. o. fl., eru fastir gjaldliðir, sem ekkert er um að ræða, en hvað snertir framlög til skóla- og menntamála og framlög til verklegra framkvæmda eru þau að vísu hækkuð verulega á nokkrum liðum, en eru þó of lág og verða nauðsynlega að hækka.

Kennslumálaráðh. Brynjólfur Bjarnason hefur lagt til allmiklu hærri framlög til skóla- og menntamála, sérstaklega til skólabygginga, á því sviði mun vera svo brýn þörf, að ekki verði hjá komizt að hækka þau framlög.

Þá er það við gjaldliðina að athuga, að þar eru nokkur framlög, sem eru óþörf og sjálfsagt er að skera niður. Má þar t. d. nefna eftirlitið með sveitar- og bæjarstjórnarmálefnum, sem er gagnslaust, en kostar stórfé. Einnig má nefna 200 þús. kr. lið, sem kallaður er til „framleiðslubóta og atvinnuaukningar.“ En því, sem nefnd sú, sem á að úthluta þessu fé, étur ekki sjálf upp í kostnað við nefndarstörfin, hefur verið mjög óheppilega varið, að ekki sé meira sagt.

Þá vil ég benda á, að í fjárlfrv. þessu eru áætlaðar stórar fjárfúlgur til ýmissa stofnana, sem Framsfl. ræður yfir og misnotar stórlega sér til pólitísks framdráttar. Þessar fúlgur eru ekki í fyrsta sinni í fjárlögum nú, heldur eru þetta sömu liðirnir ár eftir ár, en hafa farið síhækkandi og nema nú milljónum króna. Það er sjálfsagt ekki sanngjarnt að skera alveg niður þessi framlög, og ég er ekki að leggja það til, t. d. framlög til Samvinnuskólans, Búnaðarfélagsins, mæðiveikivarnanna o. fl. En það er sjálfsögð sanngirniskrafa, að það skilyrði verði sett fyrir þessum fjárveitingum, að þær verði ekki notaðar að neinu leyti til pólitísks framdráttar Framsóknarflokknum og ríkt verði gengið eftir, að skilyrðið verði uppfyllt.

Til að fyrirbyggja misskilning vil ég taka það fram, að þessar aths. mínar við fjárlfrv. mega ekki skiljast svo, að ég telji það óhæft í alla staði, þvert á móti, enda er þetta fjárlfrv. svo gerólíkt því, sem maður hefur átt að venjast undanfarin 3 ár.

Þegar núv. ríkisstjórn var mynduð með þátttöku 3 þingflokkanna, lýstu verkalýðsstétt og atvinnurekendastétt landsins yfir stuðningi sínum við hina glæsilegu og stórhuga stefnuskrá ríkisstj. um alhliða viðreisn og nýbyggingu atvinnuveganna.

En einn þingflokkurinn, Framsfl., skarst úr 1eik. Hann var ekki sammála þessari stefnuskrá. Hann setti sem skilyrði fyrir þátttöku sinni, að komið yrði á stórfelldum kauplækkunum. Hann taldi það hið mesta glapræði, að keypt yrðu ný skip og atvinnufyrirtæki fyrr en búið væri að lækka kaupgjaldið. Og flokkur þessi, sem telur sig sérstaklega málssvara bændastéttarinnar, bauðst jafnvel til, að afurðaverð til bænda yrði lækkað, fengist fram lækkun á kaupgjaldi. En engar tillögur gerði flokkurinn um, að efnamennirnir og hátekjumennirnir í landinu ættu neinu að fórna til að lækka dýrtíðina. Margir kjósendur flokksins munu eiga erfitt með að skilja, að þessi afstaða hafi mótazt af bændaumhyggju, enda er ekki svo. En það, sem foringjar flokksins meintu, en ekki sögðu, var það að reyna að spilla milli verkamanna og bænda og umfram allt að hindra, að samvinna tækist milli verkamanna og atvinnurekenda; því að hinir vísu foringjar flokksins telja sér og flokk sínum hinn mesta háska í því, að þessar stéttir komi sér saman um nokkurn hlut.

Foringjaklíka Framsfl. hefur hvað eftir annað látið lýsa því yfir, að flokkurinn væri „milliflokkur, sem berðist á víxl gegn öfgunum til hægri og vinstri“. En ef flokkurinn ætlar alltaf að verða milliflokkur milli hægri og vinstri flokka, þýðir það, að flokkurinn hefur enga sjálfstæða stefnu í þjóðmálum, en stefna hans á. hverjum tíma er ætíð mörkuð af stefnum annarra flokka.

Um baráttu flokksins á víxl til hægri og vinstri hefur reyndin orðið sú, að oftast hefur hann átt samleið með hægri- eða afturhaldsöflunum. Og þó flokkurinn hafi þótzt vera hinn sanngjarni, friðsami milliflokkur; sem vildi bera klæði á vopnin í harðvítugum stéttadeilum, hefur hann allajafna reynt að æsa upp deilur milli atvinnurekenda og verkamanna. Þegar deilurnar rísa nógu hátt, er svo hinn sanngjarni, friðsamlegi milliflokkur reiðubúinn að grípa inn í. Ljósasta dæmið um, á hvern hátt flokkurinn vill gera þetta, eru afskipti hans af hinum hörðu stéttaátökum hér í Reykjavík í nóv. 1932. En þá var aðalforingi flokksins, Hermann Jónasson, þingmaður Strandasýslu, lögreglustjóri í Reykjavík. Eins og kunnugt er, skipaði Hermann lögreglunni að ráðast á mörg hundruð atvinnulausa verkamenn og berja þá niður, og ætlaði með þessu að vinna sig í álit hjá atvinnurekendum. Deilan endaði á hinn eftirminnilega hátt, að hinn hugdjarfi lögreglustjóri flúði eins og fætur toguðu og lögregluþjónarnir börðust hraustlega, en voru ofurliði bornir.

Þessi lífsreynsla gerði þó hvorki foringjann né flokkinn vitrari eða friðsamari, því ályktanirnar, sem flokkurinn dró af reynslu sinni við þessar sérkennilegu tilraunir til að stilla til friðar í stéttaátökunum, voru þær, að nauðsynlegt væri að vopna lögregluna með byssum og gasbombum.

Að vísu er það til í dæminu, að Framsfl. tæki afstöðu með verkalýðsstéttinni í hörðum stéttaátökum, en það er þá því aðeins, að hann fengi nógu mikið fyrir það og fengi öll völdin í sínar hendur og gæti svo svikið það, sem honum sýndist, því yfirlýsing flokksins um það, að hann vilji samstarf til hægri og vinstri, eftir því sem foringjarnir telja bezt henta á hverjum tíma, þýðir ekkert annað en það, að þeir séu reiðubúnir til að selja flokkinn hvorum sem betur býður.

Framsfl. leit til þess með skelfingu, að verkamenn og atvinnurekendur semdu frið og hæfu samstarf um uppbyggingu atvinnuveganna og leit svo á, að slíkt samstarf eyðilegði fyrir sér alla pólitíska verzlunarmöguleika. Þá átti hinn gamli og nýi fjandskapur Framsfl. til sjávarútvegsins sinn þátt í, að flokkurinn vildi ekki taka þátt í stjórnarsamvinnunni. En eins og kunnugt er, er stefnuskrá ríkisstj. byggð á því; að sjávarútvegurinn sé sá af atvinnuvegum þjóðarinnar, sem fyrst og fremst verði að byggja á. Aftur á móti eru það margyfirlýst sjónarmið Framsfl., að það sé landbúnaðurinn, sem sé sá af atvinnuvegum þjóðarinnar, sem sé og muni verða traustastur á að byggja.

Hér er auðvitað um tvö gerólík sjónarmið að ræða; að vísu er Framsóknarflokksforingjunum vel ljóst, að sjónarmiðið, sem þeir halda fram, er heimskulegur þvættingur og fjandsamlegt þjóðarheildinni, en þeir telja líklegt, að það séu flokkshagsmunir sínir að halda því fram, og það ræður.

Þegar núv. ríkisstjórn var mynduð, var þjóðin eins og milli vita. Það var fyrirsjáanlegt, að stríðslokin nálguðust og að þar með mundi harðna samkeppni við aðrar þjóðir um sjávarútveg og verzlun. Skipaflotinn var lítill og sumt af honum úr sér gengið. Það var því bersýnilegt, að þjóðin hlaut að standa mjög illa að vígi, ef ekkert væri að gert, og eftirstríðsörðugleikarnir mundu fljótlega eftir stríð, þrátt fyrir stríðsgróðann, skapa stórkostlegt atvinnuleysi og þar með fátækt og eymd.

Annaðhvort var að mæta örðugleikunum óundirbúinn og taka hinum óhjákvæmilegu afleiðingum fyrirhyggjuleysisins, kreppu, taprekstri, gjaldeyrisvandræðum, atvinnuleysi og fátækt og sennilega sjálfstæði þjóðarinnar, a. m. k. fjárhagslega, eða að hefja alhliða viðreisn á atvinnuvegum þjóðarinnar, kaupa ný, stór og smá skip af vönduðustu og fullkomnustu gerð og stórvirkar vélar og vinnutæki, — gera þjóðina samkeppnisfæra við aðrar þjóðir um að notfæra sér hin auðugu fiskimið kringum landið. Með slíkum ráðstöfunum er full ástæða til að ætla, að þjóðin geti litið framtíðina björtum augum og þurfi ekki að óttast hrun og atvinnuleysi. Flokkar atvinnurekenda og verkamanna völdu hina síðar töldu leið. Að ráði hinna framsýnustu og vitrustu manna þessara flokka voru flokkshagsmunir látnir þoka fyrir hagsmunum alþjóðar. Þrátt fyrir harðvítuga baráttu undanfarinna ára milli þessara flokka, tókst samvinna um ríkisstjórn og hin stóru og glæsilegu nýsköpunaráform.

Framsóknarflokkurinn lét stjórnast af þröngum flokksklíkusjónarmiðum og lét þau sitja í fyrirrúmi fyrir hagsmunum alþjóðar og neitaði að taka þátt í stjórnarsamvinnunni eftir að hafa reynt eins og hann gat að spilla fyrir, að samkomulag næðist.

Þjóðin fagnaði stjórnarsamvinnunni og fylgdist af miklum áhuga með nýsköpunarstarfinu, en Framsfl. dreymir dagdrauma um, að upp úr stjórnarsamvinnunni slitni, að nýsköpunin fari í handaskolum, að stéttaátök og illdeilur hefjist, — að góðir, pólitískir verzlunarmöguleikar skapist.

Færi svo, að slitnaði upp úr stjórnarsamvinnunni, kæmi rúm fyrir „hinn gætna, friðsamlega milliflokk,“ sem þá gæti athugað, hvort betur borgaði sig að vinna gegn öfgunum til hægri eða vinstri.

Sem betur fer fyrir þjóðina, en því miður fyrir Framsfl., eru dagdraumar hans utan við veruleikann enn þá sem komið er, og allar líkur til, að foringjar flokksins eigi eftir langan tíma að kunna hinu pólitíska ástandi illa.

Ef einhverjum dytti í hug, að hér væri of harður dómur felldur yfir Framsfl. fyrir það, að hann neitaði að taka þátt í stjórnarsamvinnunni, þá væri þeim hinum sama ráðlegast að athuga afstöðu flokksins í stjórnarandstöðunni.

Blöð Framsfl. hafa keppzt um að reyna að ófrægja ríkisstjórnina og aldrei látið hana njóta sannmælis um það, sem hún hefur gert. Þegar skipuð er nefnd bænda til að ákveða verðlag landbúnaðarafurða, segja blöð Framsfl., að völdin séu tekin af bændum til að ákveða verðlag afurða sinna. Hins vegar hefur Framsfl. sannað það, að hann kærir sig ekki um samninga milli neytenda og framleiðenda um verðlagið.

Þegar verðlag landbúnaðarafurða er ákveðið 4—6 sinnum hærra en hægt er að fá þessar vörur fyrir erlendis, þá skamma blöð Framsfl. verðlagsnefndina fyrir það, að hún hafi ákveðið verðið allt of lágt. Sömu blöðin skammast einnig yfir, að verðið sé ákveðið of hátt og það muni draga stórlega úr innanlandssölunni og aumka mjög kaupendur yfir þessu háa verði. Þannig tala þessi blöð tveim tungum.

Eitt gleggsta dæmið um hin ósvífnu og drengskaparsnauðu vinnubrögð Framsfl. í stjórnarandstöðunni eru árásir hans á ríkisstjórnina og fiskimálanefnd út af fisksölumálunum. Þessar árásir sanna líka vel fjandskap flokksins við s,jávarútveginn og sjómannastétt landsins, — því þær eru tilraun til að koma málefnum sjávarútvegsins í sem mest óefni.

Á síðast liðnum vetri, meðan alger óvissa var ríkjandi um sölu á sjávarafurðum landsmanna og yfir stóðu samningaumleitanir við erlenda aðila um fisksölumálin, birti Tíminn og hjálparkokkur hans, Vísir, hverja greinina af annarri, þar sem haldið var fram, að verðlækkun á fiski væri óhjákvæmileg. Þannig reyndi stjórnarandstaðan eins og hún gat að vinna að því, að fiskverðið lækkaði.

Í byrjun vetrarvertíðarinnar um síðastliðin áramót, réðust bæði Tíminn og Vísir á ríkisstjórnina fyrir það, að hún tryggði ekki nægan skipakost til fiskflutninga, og bæði blöðin fluttu margar skröksögur um, að fiskurinn lægi undir skemmdum og eyðilegðist í ýmsum verstöðvum vegna skipaleysis. Um þetta leyti krafðist svo Tíminn þess hvað eftir annað, að færeysku skipin yrðu leigð til fiskflutninganna sem allra fyrst. En ekki hafði ríkisstjórnin fyrr leigt færeysku skipin og tryggt sér til viðbótar nokkur erlend skip til fiskflutninganna en Tíminn og Vísir réðust á ríkisstjórnina fyrir þessar ráðstafanir.

Þá voru ensku skipin talin óheppileg og áhættusöm og færeysku skipin óhæf, síðan var sagt, að leigan á öllum þessum skipum yrði bara til þess, að íslenzku fiskflutningaskipin fengju ekki nægan fisk fyrir sig. Þannig voru vinnubrögðin.

Þegar færeysku skipin voru leigð, lögðu framsóknarmenn kapp á, að fram yrði tekið í samþykkt Alþingis um leigu skipanna, að þau yrðu sérstaklega notuð til að taka fisk á afskekktum smáhöfnum, og enn fremur, að fram yrði tekið, að ríkissjóður greiddi tap, sem á rekstri skipanna kynni að verða af þeim ástæðum. Frá byrjun var framsóknarmönnum það sýnilega mikið áhugamál, að rekstur skipanna gengi illa, enda pöntuðu þeir áskoranir frá kaupfélagsstjórnum utan af landi um, að þangað yrðu send skip, þó lítill sem enginn afli væri, þegar skipin komu á staðinn. Og í sumum tilfellum var alls enginn fiskur og enginn róður byrjaður.

Þegar ríkisstjórnin ákvað 15% verðlækkun á fiski til fiskkaupaskipa, sagði Tíminn að þessi ráðstöfun gæti alveg eins orðið til að lækka fiskverðið til útgerðarmanna og sjómanna, enda mundi það sennilega fara svo. En hrakspá Tímans hefur nú rætzt þannig, eins og kunnugt er, að ráðstafanir ríkisstj. hækkuðu fiskverðið til sjómanna og útgerðarmanna um 3 milljónir og 400 þúsund krónur.

Út yfir allt hafa þó raunar tekið árásir stjórnarandstöðunnar á fiskimálanefnd og rógburðurinn um hana. Tíminn hefur hvað eftir annað ásakað fiskimálanefnd fyrir leigu færeysku skipanna, þó öllum sé ljóst, að nefndin leigði ekki skipin, heldur þingið, og það með atkvæðum framsóknarmanna. Og þó Framsókn hafi sérstaklega heimtað skipin til smáu hafnanna stundum að þarflausu, og viljað við byrjun leigutímans auglýsa sem mest, að halli af rekstri þeirra vegna smáhafnanna yrði greiddur úr ríkissjóði, þá reynir Tíminn með stuðningi Alþýðublaðsins að kenna fiskimálanefnd um tap, sem verða kann á skipunum.

Tíminn og Alþýðublaðið hafa birt, og sýnilega með mikilli ánægju, skröksögur eftir ómerkilegum heimildum, um það, að fiskimálanefnd hafi svikið Færeyinga í viðskiptum. Í nefndinni er þekktur framsóknarmaður, tilnefndur sem fulltrúi flokksins í nefndina. Þegar hann ásamt hinum nefndarmönnum í fiskimálanefnd sendir Tímanum, eins og öðrum blöðum, leiðréttingu á skröksögunum og upplýsingum um hinn rétta gang málsins, er blaðið svo vesalt, að það neitar að birta hann og heldur áfram rógburðinum og rangfærslunum.

Sams konar atvik gerðist í sambandi við nýbyggingarráð. Tíminn réðst með ofsalegum árásum á nýbyggingarráð fyrir stuðning þess við sjávarútveginn og beitti þar hinum herfilegustu blekkingum og rangfærslum. Þegar nýbyggingarráð bar til baka blekkingar blaðsins og ósannindavaðal, hafði Tíminn það að engu, en hélt áfram uppteknum hætti.

Framsóknarmenn hafa verið að læða því út, að tap muni verða meira á færeysku skipunum en þurft hefði að vera, vegna þess að þeim var ekki strax í sumar sagt upp. En hvað hefði það þýtt fyrir bátaflota Austurlands og víðar, hefði öllum færeysku skipunum verið sagt upp strax í sumar? Það hefði þýtt stöðvun alls bátaflotans bæði á Austurlandi og annars staðar. Sjálfsagt hefði sú ráðstöfun glatt framsóknarmennina, jafnframt því hefðu þeir svo ráðizt á ríkisstjórnina fyrir hvernig hún níddist á vesalings smáútgerðarmönnunum og sjómönnunum. Það er framsóknarmönnum alltaf sérstakt gleðiefni ef eitthvað mistekst við nýbyggingarstarfið, ef sala sjávarafurða gengur illa eða ef afli bregzt. Svo hefur hlakkað í þeim yfir síldarleysinu í sumar, að þeir hafa blátt áfram ekki getað dulið gleði sína. Þegar sýnt var, að síldin brást gersamlega, skipaði atvmrh. nefnd manna til að rannsaka afkomu hjá útgerðinni og gera tillögur um stuðning við hana vegna tapanna á, síldarvertíðinni. N. komst að þeirri niðurstöðu, að tap útgerðarinnar á síldveiðunum sé um 12 millj. króna, en sé sleppt fyrningu, viðhaldi og ýmsum liðum, sé tapið 6 millj. N. leggur til, að þeim útgerðarmönnum, sem verst eru stæðir, verði veitt vaxtalaus lán til 5 ára og megi lánsupphæð til hvers ekki vera hærri en tap hans nam á síldarvertíðinni. Talið er, að lánsupphæðin þurfi ekki að vera hærri en 3–4 millj. króna. Þessi ráðstöfun varð að vonum mjög vinsæl hjá útgerðarmönnum, enda margir þeirra illa stæðir eftir hina misheppnuðu vertíð. Margir útgerðarmenn líta svo á, að ekki væri mikið, þó að ríkissjóður hlypi undir bagga með útgerðinni eftir þetta áfall og styrkti hana með 3–4 millj. kr. á sama tíma og ríkissjóður styrkir landbúnaðinn með beinum fjárframlögum um milli 20 og 30 millj. kr.

Auðvitað voru framsóknarmenn á öðru máli og fylltust heift og gremju, en það var kannske ekki vænlegt að ráðast á þetta með miklu offorsi, alþingiskosningar eru á næsta sumri, og eitthvað af smáútgerðarmönnum ætti að vera hægt að fá til að kjósa flokkinn, því mátti helzt ekki spilla. Nú voru góð ráð dýr. Jú, þjónn Framsfl., Stefán Pétursson Alþýðublaðsritstjóri, fann lausnina. Atvmrh. á 1/12 part í mótorbát, sem var á síldveiðum, og Alþýðublaðið og Tíminn komu með stórar fyrirsagnir, eins og „Skýringin á umhyggju Áka fyrir útgerðinni kemur í ljós“. Og svo er fullyrt, að persónuleg sjónarmið hafi ráðið nefndarskipuninni. Já, langt er nú sótt.

Auðvitað trúir enginn maður þessari ósvífnu staðhæfingu, og hún snerti ekki atvmrh., heldur aðeins rógberana sjálfa og skapar þeim verðskuldaða fyrirlitningu heiðarlegra manna. En það má öllum vera ljóst, að þó að Tíminn hafi sérstaka ánægju af að rógbera atvmrh. og raunar fleiri ráðherra, þá er þó það, sem fyrst og fremst er á bak við, illviljinn til sjávarútvegsins og löngunin til að hindra það, að honum verði veittur stuðningur eftir hina geigvænlegu aflaleysisvertíð.

Eins og ég gat um áðan, hefur Framsfl. mjög lagt sig fram um að ófrægja nýbyggingarráð og gera lítið úr því merka og mikla starfi, sem þar hefur verið unnið. Framsóknarmenn sögðust svo sem ekki vera á móti kaupum á nýjum skipum og framleiðslutækjum, en þetta yrði bara aldrei framkvæmt, áætlanir ríkisstjórnarinnar og nýbyggingarráðs í þessu efni væru aðeins skýjaborgir og leiktjaldamálning til að blekkja almenning. En staðreyndirnar eru stundum slæmar að stangast við, það fær vesalings Tíminn að reyna, og nú skýrir hann frá, að búið sé að semja um smíði á rúmum 100 mótorbátum og 30 togurum. Raunar vill hann eigna fyrrverandi ríkisstj. verulegan hluta af heiðrinum, en fer þó ekkert inn á að skýra afskipti Vilhjálms Þórs af því máli, kærir sig sennilega ekki um miklar umræður um þau. — Þegar búið er að semja um smíði togaranna og mótorbátanna og sumir bátarnir að koma til landsins, er auðvitað ekki þægilegt að halda áfram þvaðrinu um skýjaborgir og leiktjaldamálningu. Og nú er blaðinu snúið við. Skipakaupin eru glapræði; vegna þess að engir menn eru til á skipin. — Þessi fjarstæða er auðvitað ekki verri en margt annað, sem Framsfl. lætur sér sæma að bera á borð fyrir fólk, enda er stjórnarandstaða hans svo ábyrgðarlaus, ódrengileg og þjóðarfjandsamleg, að slíks munu fá dæmi í lýðræðislandi. Raunar þarf engan að undra, þó að framkoma Framsfl. í stjórnarandstöðunni sé eins og raun ber vitni. Flokkurinn hefur engan eðlilegan grundvöll og er því meira og minna í lausu lofti, starfsgrundvöllur hans er tilbúinn. þörfin fyrir hann er tilbúningur og leikaraskapur. En einmitt þessi tilbúningur og blekkingar, þetta óeðlilega ástand og rótleysi flokksins hefur átt sinn þátt í þeirri pólitísku siðspillingu, sem flokkurinn er haldinn af. En flokkurinn hefur ekki spillzt mest af stjórnarandstöðunni, spillingin hafði grafið um sig áður. Framsfl. var um nærfellt tveggja áratuga skeið lengst af stjórnarflokkur. Hann hefur því haft góða aðstöðu til að koma áhugamálum sínum í framkvæmd. En hver er árangurinn? Flokkurinn þykist vera mikill bændavinur og berjast fyrir samvinnustefnu. Ekki hefur hann þó á valdatímum sínum komið upp einu einasta samvinnubúi um landbúnað. Og ekkert hefur verið gert af hans hálfu til að skipuleggja landbúnaðinn og færa hann í það horf, að þeir, sem við hann vinna, geti haft sæmilega fyrir strit sitt án hjálpar frá öðrum stéttum. Ekkert hefur hann gert til að skipuleggja það, að t. d. sauðfjárrækt yrði aðallega í þeim héruðum, sem skilyrði eru bezt, og mjólkurframleiðsla fyrst og fremst í námunda við bæina eða markaðina. Ekkert var gert til að koma á meiri fjölbreytni á landbúnaði og innleiða stórvirkar vélar.

Þetta hefur flokkurinn látið ógert, en í stað þess virðist hann hafa mestan áhuga fyrir að koma upp smábýlum, einyrkjabýlum, þar sem ógerningur er að koma við stórvirkum vinnuvélum. Í stað þess að hjálpa bændastéttinni til að gera landbúnaðinn að arðvænlegum atvinnuvegi, hefur Framsfl. komið upp flóknu og margþættu styrkjakerfi til bænda, og nema þessir styrkir nú beint og óbeint tugum milljóna króna árlega.

Fólkið við sjávarsíðuna, sem raunverulega borgar þessar milljónir, er gramt yfir því, og bændum er mörgum hverjum mikil raun að því að taka styrkina, en geta alls ekki án þeirra verið, eins og ástandið er. Því miður gætir stundum of lítils skilnings hjá fólkinu við sjávarsíðuna á erfiðleikum bænda, enda reynir Framsfl. að spilla sambúð annarra stétta við bændur eins og hann frekast getur. Það er Framsfl. sem hefur ráðið þróuninni í landbúnaðinum, og það er því hans sök, hvað þessi atvinnuvegur er illa kominn. Framsfl. telur það pólitíska hagsmuni sína, að bændastéttin sé nokkrir ríkir stórbændur og allur fjöldinn fátækur og illa stæður, sem ekki geti haldizt við á búum sínum, nema fá stórfellda styrki, — sjái sem sagt einu leiðina til að draga fram lífið í því, að framsóknarhöfðingjarnir útvegi þeim styrki, og trúi því, að allar stéttir ofsæki þá og vilji ofan af þeim skóinn, sérstaklega verkalýðsstéttin.

Framsóknarburgeisarnir hérna í Reykjavík skilja vel, hvílík hætta væri á ferðum, fyrir þeirra pólitísku yfirráð, ef þessar tvær vinnandi stéttir, smábændurnir og verkalýðurinn, tækju höndum saman.

Eitt er það, sem sýnir umhyggju framsóknarburgeisanna fyrir bændum. Eins og kunnugt er, stundar meiri hluti íslenzkra bænda einhverja vinnu utan bús síns, vegavinnu o. fl. Þrátt fyrir þetta berst Framsfl. harðvítugri baráttu fyrir lækkun kaupgjalds og þykist gera það af umhyggju fyrir bændum. Þó að Framsfl. hafi ekki stofnsett eitt einasta samvinnufélag um landbúnað, þá hefur hann látið mikið til sín taka í kaupfélagsmálum landsins. Hann hefur sölsað undir sig völdin í flestum kaupfélögunum og stjórn SÍS. — Þar, sem Framsfl. hefur völdin í kaupfélögunum, misnotar hann þau sér til pólitísks framdráttar á hinn óskammfeilnasta hátt. Varla nokkur maður fær atvinnu við þessi félög, nema hann sé framsóknarmaður. Félögin eru látin beint og óbeint kosta kosningabaráttu flokksins, styrkja blaðakost hans og fram eftir því, alveg notuð sem flokkstæki. Þó er það alkunna, að menn úr öllum flokkum eru meðlimir kaupfélaganna.

Sama misnotkunin er viðhöfð í SÍS. Tímarit SÍS, „Samvinnan“, sem gefið er út fyrir fé kaupfélaganna, er látið flytja flokkspólitískan áróður fyrir Framsfl. SÍS er látið byggja dýra lúxusvillu yfir einn framsóknarburgeisinn hér í Reykjavík og látið leggja fé til pólitískrar starfsemi flokksins. Nú er fé SÍS auðvitað sameign meðlima kaupfélaganna, en eins og áður er sagt, eru menn úr öllum flokkum í kaupfélögunum. Ef eitthvert kaupfélagið vogar sér að sýna ekki sambandsstjórnarherrunum fulla hlýðni, þá er strax beitt refsiaðgerðum. Ég hef sjálfur nokkra reynslu í, hvers er að vænta í slíkum tilfellum.

Þegar Kaupfélag Siglfirðinga var stofnað árið 1929, var ég einn af stofnendum þess og hef átt sæti í stjórn þess nokkur síðustu árin. Fram að árinu 1937 var félagið fámennt, hafði litla verzlun, átti mikið í útistandandi skuldum og var í fáum orðum sagt illa á vegi statt. En á því ári fengum við sósíalistar nokkur ítök í stjórn þess. Okkur tókst þá að fjölga mikið í félaginu, auka verzlunina og koma á kontant viðskiptum. Fyrir harðvítuga baráttu okkar sósíalista tókst svo að láta félagið kaupa tvær stórar húseignir í hjarta bæjarins, aðra fyrir stríð, hina áður en verðlag hækkaði til muna. Húseignir þessar eru mjög dýrmætar og nú komnar í margfalt verð. Eftir að við sósíalistar fengum ítök í stjórn Kaupfélags Siglfirðinga, sáum við um, að Framsfl. gæti ekki á neinn hátt misnotað það fyrir sig pólitískt. Félagið varð þá í mikilli ónáð hjá SÍS, og eftir aðalfund í fyrra, þegar kaupfélagsstjórnin varð skipuð 3 sósíalistum af 5, byrjaði stjórn SÍS að setja félagið hjá við vöruúthlutun og sýna því stirfni á einn og annan hátt. Framsóknarmenn á Siglufirði hófu mikinn undirróður í félaginu og beittu Alþýðuflokksmönnum fyrir sig, en á Siglufirði eru Alþýðuflokksmenn ákaflega ósjálfstæðir gagnvart Framsfl., líklega mest vegna þess, að þeir eru að biðla þar til framsóknarmanna um kosningafylgi við næstu alþingiskosningar. Einkennilegt má það teljast, að Alþýðuflokksmenn á Siglufirði skuli gera sér miklar vonir um að fá fylgi framsóknarmanna þar við næstu kosningar, því að vitanlegt er, að Framsfl. hlýtur að tapa nokkrum þingsætum við næstu alþingiskosningar og getur því gert sér vonir um að fá uppbótarþingsæti:. Þó Framsfl. hafi enga möguleika til að fá mann kosinn á Siglufirði, getur hann því hæglega misst uppbótarþingsæti, ef atkvæði hans þar falla á annan flokk. En staðreyndin er, að siglfirzkir Alþýðuflokksmenn treysta á stuðning framsóknarmanna við alþingiskosningarnar og ganga undir þeim í öllu til að missa ekki þann stuðning. En hvort sem vonir Alþfl. í þessu efni rætast eða ekki, gengu þeir vel fram með Framsfl. í Kaupfélagi Siglfirðinga. Þá fékk Framsfl. einnig til liðs við sig sjálfstæðismennina í félaginu, sem flestir eru stjórnarandstæðingar og fúsir til samvinnu við Framsfl. Þegar Framsóknarmenn höfðu tryggt sér þessa samherja, hófu þeir illdeilur í félaginu og beittu þar fyrir sig Alþfl. Þessar deilur urðu þó þrenningunni ekki til mikils sóma, en svo kom hvalrekinn.

Skömmu fyrir aðalfund síðastliðinn vetur komst það upp, að stórfelld vörurýrnun var í einni af búðum félagsins, og það svo, að nam tugum þúsunda króna fram yfir það, sem eðlilegt gat talizt. Framsfl. og samstarfsmenn hans hlupu með málið í blöðin og sögðu: Sjáið til, fyrsta árið, sem kommúnistar hafa meiri hluta í stjórn kaupfélagsins, fer þar allt í óreiðu. — Og látið var skína í, að stjórnin ætti sök á vörurýrnuninni. En framsóknarmönnum láðist að skýra frá því, að deildarstjórinn í búðinni, sem vörurýrnunin varð í, var framsóknarmaður og kaupfélagsstjórinn var framsóknarmaður.

Annað mikið notað áróðursatriði hjá þrenningunni var það, að gróðurhúsfyrirtæki, sem Kaupfélag Siglfirðinga er aðaleigandi að, en ég og annar sósíalisti erum í stjórn í, var í miklum fjárhagsvandræðum. Forsögu málsins sögðu þeir ekki, en hún er sú, að árið 1942 stofnaði Kaupfélag Siglfirðinga þetta gróðurhúsfyrirtæki að tilhlutun framsóknarmanna. Sósíalistar voru þá í minni hluta í stjórn kaupfélagsins. Formaður og framkvæmdastjóri var framsóknarmaður. Allt fór í handaskolum, uppskeran varð engin fyrsta árið, og bæði gróðurhúsin fuku og brotnuðu í rúst. Að þessum afrekum loknum vorum við, ég og annar sósíalisti og einn krati, kosnir í stjórn í fyrravetur að okkur forspurðum og nauðugum; enda vorum við báðir fjarverandi. Þar sem kaupfélagið átti allmikið fé í fyrirtækinu, útveguðum við sósíalistarnir lán og létum byggja upp húsin og gengum sjálfir í ábyrgð fyrir láninu, en kratinn vildi ekki hætta sínum fjármunum og neitaði að skipta sér nokkuð af fyrirtækinu. Endurbyggingin varð vonum framar ódýr, duglegur, samvizkusamur maður var ráðinn við gróðurhúsin og uppskeran varð prýðileg í sumar. Hagur þessa fyrirtækis væri nú góður, hefðu óhöppin ekki hent það, í stjórnartíð framsóknarmanna. Þrátt fyrir þótt svona liggi í málinu hafa Tíminn, Alþýðublaðið og önnur sorpblöð Framsfl. kallaði fyrirtæki þetta „sovétfyrirtæki kommúnista“, sem vel sýni ráðsmennsku þeirra alla.

Með þessum og tugum af öðrum álíka lygasögum undirbjó þrenningin aðalfund Kaupfélags Siglfirðinga og slysaðist með nokkurra atkvæða mun til að ná meirihluta.

Hinum sögulega aðalfundi Kaupfélags Siglfirðinga var stjórnað af S. Í. S., sem sendi starfsmann kaupfélaganna þangað sem sinn fulltrúa. Hvert ofbeldisverkið öðru meira var framið, félagslögin fótum troðin og samvinnulögin brotin. Mál þetta er nú fyrir dómstólunum, og skal ekki frekar um það rætt. En þessar aðfarir sýna, að stjórn S.Í.S. er nákvæmlega sama, þó að það leggi stór og merk kaupfélög í rústir, ef þau hlýða ekki boði þess og banni og gerast möglunarlaust flokkstæki Framsfl.

S. Í. S. er innkaupasamband kaupfélaganna og er stofnað og starfrækt til að kaupa inn góðar og ódýrar vörur, ódýrari en heildsöluverzlanir selja þær. Nú í stríðinu hefur þó lítið farið fyrir samkeppninni við heildsalana. Og í stað hinnar gömlu og hatramlegu baráttu S. Í. S. gegn þeim, gegn heildsalaokrinu, eins og framsóknarmenn kölluðu það, hefur verið hin bróðurlegasta samvinna. Uppvíst hefur orðið um nokkra heildsala, að þeir hafa selt vörur óleyfilega háu verði og beitt til þess ýmsum brögðum, falsað innkaupareikninga og því um líkt. Tíminn hefur verið mjög hneykslaður yfir þessu athæfi. En hvernig er þá um afstöðu S. Í. S.? Það hefur ekki heyrzt, að vörur frá S. Í. S. væru ódýrari en hjá heildsölum. Hvernig má slíkt vera, ef S. Í. S. hefur alveg hreint mjöl í pokanum? Að vísu kann sú skýring að vera á þessu, að S. Í. S. hafi gert óhagstæðari vöruinnkaup en heildsalarnir, eða einhverjar aðrar skýringar, sem ég kem ekki auga á. En þetta mál þarf rannsóknar við.

Í stjórnartíð Framsfl. voru allar embættisveitingar pólitískar, menn voru í stórum hópum keyptir fyrir embætti. Engum manni var veitt embætti, nema hann væri framsóknarmaður eða styddi Framsfl. Svo langt var komið í þessum ósóma, að á tímabili var varla nokkur maður til í hinni fjölmennu kennarastétt landsins nema framsóknarmenn. Héraðsskólarnir voru notaðir sem áróðursmiðstöðvar fyrir flokkinn, og nemendur, sem ekki játuðust hinni réttu pólitísku trú, ofsóttir og jafnvel reknir úr skólunum. Gjaldeyris- og innflutningsleyfi voru notuð til pólitískrar mútustarfsemi og stjórnarandstæðingar ofsóttir á hinn smánarlegasta hátt. — Þá var það og alkunna, hvernig ýmsir braskarar, sem eitthvað áttu útistandandi við lögin fyrir skattsvik eða pretti, gengu í Framsfl. eða gerðust stuðningsmenn hans til að fá vernd. Einn ríkur braskari sagði eitt sinn í mín eyru, að aldrei á ævinni hefði hann grætt eins mikið á neinu útlögðu fé og tillagi sínu til Framsfl.

Það ber brýna nauðsyn til, að ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar geri sér þess fulla grein, hvers konar flokkur Framsfl. er, hvers konar vinnubrögðum hann beitir og hvers konar tökum þarf að taka hann. Það hefur gætt andvaraleysis á þessu sviði. Eins og t. d. það, að Framsfl. skuli haldast uppi með að láta nokkra flokksmenn sína í þýðingarmiklum trúnaðarstöðum tefja fyrir og vinna skemmdarverk á sviðum nýsköpunarmálanna. — Þá er það kunnara en frá þurfi að segja, hve mikil ítök Framsfl. hefur í stjórnarflokkunum. Vísir, Alþýðublaðið og Skutull á Ísafirði reka erindi Framsfl. leynt og ljóst, og fjórði parturinn af þingflokki Sjálfstæðisfl. er svo háður Framsókn, að hann neitar að styðja ríkisstjórnina, vegna þess að Framsfl. er þar ekki með. Þó hafa þeir ekki lýst sig andvíga stefnuskrá ríkisstjórnarinnar.

Svo háðir Framsfl. eru þessir menn, að við kosningu fjárveitinganefndar hér í sameinuðu þingi fyrir nokkrum dögum, létu tveir þeirra sér sæma að sitja hjá og fella þar með sjálfstæðismanninn frá kosningu og koma framsóknarmanninum að.

Einlægir stjórnarsinnar, sem skilja hvað mikið er í húfi fyrir alla þjóðina, að nýsköpun atvinnuveganna takist, verða að taka höndum betur saman gegn skemmdarstarfi framsfl., sem ber er að því að svíkja þjóðina fyrir það, sem hann telur flokkshagsmuni, og er sekur um að hafa beitt í baráttu sinni pólitískum þorparabrögðum, sem ekki eiga sér dæmi nema í nazistaflokki.

Ríkisstjórn og þing þurfa að vera vel á verði gegn skemmdarvörgum, og umfram allt, þjóðin þarf að gefa þeim rétt svar við næstu kosningar.