25.10.1945
Neðri deild: 16. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (1686)

39. mál, girðingar kringum hveri og laugar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Í þessu frv. er lagt til að girða kringum hveri og laugar, sem eru 50 stig eða heitari. Ég hef því miður ekki í höndum gögn um, hvað víða á landinu þetta mundi vera, en rannsóknaráð ríkisins mun nú í sumar hafa rannsakað þetta allýtarlega. Ég var í gær að renna huganum yfir landið og mundi fljótlega eftir yfir 200 stöðum, þar sem heitar laugar eru. Mér varð þá ljóst, að margir af þessum stöðum liggja þannig, að engu kvikindi stafar hætta frá þeim, þær eru uppi á öræfum og óbyggðum, sumar þar sem skepnur koma hér um bil aldrei. Þess vegna hygg ég, að ekki sé fært að samþ. frv. í þeirri mynd, sem það hefur nú. Það er algerlega óþarft og kemur ekki til mála að fara að girða þær heitar laugar, sem eru uppi í óbyggðum og engum stafar hætta af, enda mundi enginn fara þangað árlega til að líta eftir, hvort girðingarnar héldu sér. Ég gæti trúað, að ef gera ætti ráðstafanir sem þessar, af því að þær teldust nauðsynlegar, á þeim stöðum, sem umferð er veruleg, þá verði aðalvandinn að greina á milli, hvar þess sé þörf og hvar ekki. Víða þarf ekki neina girðingu, t. d. er lengst inni við jökulrætur í Austur-Skaftafellssýslu heit laug í eyðihrauni, þar sem aldrei kemur skepna. Hvaða ástæða er til að girða hana? Í Reykjanesfjallgarði eru laugar hér og þar og þangað koma skíðamenn og menn á skemmtigöngu. Á Vestfjörðum eru sömuleiðis laugar, sem engin hætta er á, að menn komi að, svo að þeir taki skaða af. Yfirleitt er þörf á aðila, sem skeri úr, hvar þörf sé að girða og hvar ekki, og til eru nokkrir staðir, sem vafi leikur á hver eigi og hverjum bæri skylda til að girða um. (PO: Hver á að girða Hveravelli?). Já, hver á að girða um þá, og þar er þó fremur þörf að girða en sums staðar annars staðar, því að þeir eru þó í alfaraleið, þó fáförult sé. Ég hygg, að rannsóknaráð ríkisins, sem nú í tvö sumur hefur látið rannsaka hitasvæði í landinu, sitji inni með bezta þekkingu á hitasvæðunum og sé því helzt dómbært um, hvaða hveri þarf að afgirða og um hvaða hveri sé engin þörf á að girða.