08.02.1946
Neðri deild: 65. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (1692)

39. mál, girðingar kringum hveri og laugar

Frsm. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Frv. þetta er borið fram af hv. þm. Ak. og heitir það: Frv. til l. um girðingar kringum hveri og laugar. Efni þess er um það, að skylda skuli eigendur hvera og lauga að afgirða þessa staði og gera það þannig, að hvorki mönnum né skepnum stafi hætta af heita vatninu. Ástæðan fyrir því, að þetta frv. er fram komið, er sú að nokkrum sinnum hafa hlotizt alvarleg slys vegna þess, að menn og unglingar hafa skaðbrennt sig og jafnvel hlotið bana af í hverum og laugum, sem ekki hafa verið afgirt. Þessu máli var vísað til allshn. og hefur hún athugað það og fellst á, að brýna nauðsyn beri til að setja lög um þetta efni vegna slysa, sem orðið hafa, og slysahættu framvegis. N. leggur til, að örlitlar breyt. verði gerðar á frv., og eru þær á þskj. 327. Frv. gerir ráð fyrir, að allir hverir og laugar, sem væru 50 gráðu heitar og þar yfir, skyldu vera girðingarskyldar. N. taldi ekki ástæðu til að láta þessi ákvæði ná lengra en til hvera og lauga, sem í byggð eru eða svo nærri byggð, að mönnum geti stafað hætta af. Aðra hveri og laugar sá n. ekki ástæðu til að skylda menn til að girða. Í öðru lagi er um orðalagsbreyt. að ræða. í frv. stendur: „Skal girðingin vera svo traust, að hvorki mönnum né skepnum geti stafað hætta af hinu heita vatni.“ Þessu var breytt þannig: „.... að mönnum geti stafað hætta af fyrir líf eða limum ....“ Skepnum stafar ekki hætta af þessu, þær forðast hveri svo, að varla eru til dæmi þess, að tjón hafi orðið á skepnum af þessum sökum. — Þá eru sett ákvæði um það, að sveitarstjórnir skuli meta það, hvort hverir séu svo nærri byggð, að mönnum stafi hætta af fyrir líf og limum. Við 2. gr. bætist ákvæði, þar sem það er skýrt tekið fram, að girðingarskylda hvíli á eiganda hvers og laugar.

Allshn. leggur til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem ég nú hef lýst.