08.02.1946
Neðri deild: 65. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1030 í B-deild Alþingistíðinda. (1693)

39. mál, girðingar kringum hveri og laugar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Við fyrri umr. þessa máls gat ég þess, að frv., eins og það þá lá fyrir, þyrfti breyt. við. Ég benti á, að margir hverir og laugar væru fjarri öllum mannabyggðum og allri almennri umferð og engin þörf væri á því að girða í kringum þær. Nú sé ég, að hv. n. hefur tekið tillit til þessarar aths. minnar. En samhliða því, sem hún hefur gert það, hefur hún skemmt frv. svo, að það er nú einskis virði. Það er sett í 1. gr. frv., að skylda sé að girða kringum hveri og laugar, en ekki er þar einn stafur um það, hver eigi að sjá um, að það sé gert. Sveitarstjórnir eiga að dæma um það, hvaða laugar það eru, sem þörf sé að girða af þeim, sem í byggð eru. En hver er það, sem á að biðja sveitarstjórn um að dæma um það? Á hún að taka það upp hjá sjálfri sér? Ef sveitarstjórn tekur þetta þó upp hjá sjálfri sér og segir eiganda að girða hverinn, en eigandi segir nei, þá skilst mér, að við það muni sitja, því að engar sektir liggja við slíku. Frv. hefur því stórversnað, því að áður var í frv. ákvæði um, að lögreglustjóri héraðsins léti í slíkum tilfellum girða á kostnað eiganda. (GTh: Það ákvæði stendur enn). Ef svo er, þá er það að vísu stór bót. En hver á að biðja um úrskurð hreppsnefndar um, hvaða hveri skuli girða og hverja ekki? Nú er það gefinn hlutur, að niðri í byggð eru margir hverir, sem engum dytti í hug að biðja um að girða í kringum. Í slíkum tilfellum vantar einhvern aðila til að taka það mál upp frá fyrsta grundvelli og láta ákveða það. Náttúrlega gætu hreppsnefndir í hverjum hreppi búið út lista yfir alla hveri og laugar í sínum hreppi og flokkað þær eftir því, hvort þurfi að girða þær eða ekki. En ég held, að annar aðili sé betri, bæði vegna þess, að hreppsnefndir eru svo margar, og hjá þeim geta komið ýmiss konar sjónarmið til greina vegna kunningsskapar og þess háttar. Það er sá aðili, sem hefur skrá yfir alla heita hveri og laugar og veit, hvar þær liggja, það er rannsóknaráð ríkisins. Ég er ekki viss um nema betra væri að láta einn aðila hafa þetta með höndum, þótt ég sé ekki á móti, að hreppsnefndir hafi þetta líka, en þá þurfa þær að semja skýrslu um málið. Ég legg sem sagt áherzlu á það, að þannig verði gengið frá, að frv. verði að gagni.