14.02.1946
Neðri deild: 67. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1032 í B-deild Alþingistíðinda. (1702)

39. mál, girðingar kringum hveri og laugar

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Brtt. sú, sem hér hefur verið lýst, er vafalaust til bóta á þessu frv. En ég vildi aðeins, að það kæmi fram í þessum umr., sem beinlínis er ekki tekið fram í frv. og ekki heldur í þessari brtt., sem hér liggur fyrir, að það er vitanlega sveitarstjórnin í þeim hreppi, sem hverir og laugar eru í á hverjum stað, sem á að skera hér úr, og ég vildi gjarnan, að hv. frsm. vildi staðfesta það, svo að það taki af allan vafa um það, að sveitarstjórnir færu ekki að skerast í málefni annarra sveitarstjórna um þessi atriði.

Annað atriði er hér, sem ég vildi vekja athygli á, að í niðurlagi 1. gr. frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Skal girðingin vera svo traust, að tilgangi þessum sé náð.“ Hins vegar er þess ekki getið, hvaða aðili á að skera úr um það, hvort girðing, sem upp er sett, sé svo traust, að þessum tiltekna tilgangi sé náð, sem í frv. getur. Ég held, að það væri miklu réttara að láta það koma skýrt fram í frv., hvaða aðili það á að vera, sem metur styrkleika þessara girðinga, sem hér um ræðir, hvort þær séu nógu traustar, því að við þekkjum það, að svo ákaflega erfitt sem það er að girða svo, að aldrei komi fyrir, að búpeningur, bæði sauðfé og stórgripir, komist í gegn, er þó sýnu erfiðara að girða þannig fyrir mannfólkið, að það geti ekki komizt yfir girðingar — það er mjög alþekkt fyrirbrigði. Þess vegna gæti það vel hent sig, að þrátt fyrir það að búið væri að girða á einhverjum stað, þá gætu slys viljað til, eftir sem áður, á mönnum. Skilst mér því, að réttara væri að ákveða í þessum l., hvaða aðili það á að vera, sem ákveður í hverju tilfelli, hvort girðing er svo traust, að þessum tilgangi verði náð, sem ná á með þessum l. Ég vil skjóta því til hv. n., hvort ekki er rétt að setja ákvæði um þetta í frv., því að það, sem hér er ákveðið, að sveitarstjórnir skeri úr um, er aðeins að ákveða, hvaða hverir og laugar teljast svo hættuleg, að setja þurfi girðingar þar í kring.