14.02.1946
Neðri deild: 67. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í B-deild Alþingistíðinda. (1703)

39. mál, girðingar kringum hveri og laugar

Frsm. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Ég get samkv. ósk hv. þm. Borgf. tekið fram, að tilgangurinn er vitaskuld sá, að það sé sveitarstjórn, þar sem hverinn eða laugin er, sem framkvæmir þetta mat, og ég tel ekki þörf á að breyta frv. til þess að gera það skýrara. –Að því er það snertir, hver eigi að skera úr um það, hvort girðing, sem sett er eftir þessum l., ef frv. verður samþ., er nógu traust, þá vil ég álíta, að það sé lögreglustjóri, sem sker endanlega úr um það, hvort slík girðing er nógu traust, því að það segir svo í frv., með leyfi hæstv. forseta: „Sé slíkum girðingum eigi komið upp innan árs frá gildistöku laga þessara, skal lögreglustjóri láta setja þær upp á kostnað eigenda. ....“ Mér virðist það því koma nægilega skýrt fram í frv., að það er þó ákveðinn aðili, sem um þetta á að fjalla.