07.11.1945
Neðri deild: 26. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (1754)

60. mál, raforkulög

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Mér þykir vænt um, að frv. þetta skuli vera hér fram komið. Og ég fagna því vegna þess, að viss atriði þess eru mjög mikilvæg, ef samþ. verða, og geta hjálpað til þess að koma á góðri skipan í þessum málum. Og sízt mun of mikið úr því gert, hve mál þetta er þýðingarmikið fyrir þjóðina í heild. Það varðar því nokkru, að þar verði komið góðri skipan á sem fyrst og að í fyrstu séu ekki stigin nein óheillavænleg spor eða neitt framkvæmt, sem yrði til þess að hindra framkvæmdir.

Ég hef frá upphafi verið þeirrar skoðunar, að því aðeins sé vel fyrir þessum málum séð, að ríkið hafi þar yfirstjórn og framkvæmdir, og þótt við séum hér skammt komnir enn þá, virðist sú skoðun ótvírætt rétt. Ég þakka þann skilning, sem hæstv. ráðh., er hefur mál þetta með höndum, hefur sýnt, og staðfesting hans á nauðsyn þess. Enda þótt frv. uppfylli ekki allt það, sem ég hefði helzt kosið, eins og með undantekningar frá því, að ríkið reisi virkjanir upp í 100 hestöfl og í vissum tilfellum upp í 500 hestöfl, verður maður að ætla, að til þeirra undantekninga verði ekki gripið, nema í einstaka tilfelli. En frv. leyfir ekki stærri virkjanir nema undir yfirstjórn ríkisins, og er það kjarni málsins. En vissulega ræður alltaf miklu skilningur þeirra manna, sem stjórna málunum.

Annað atriði er það, að í frv. er ekki gert ráð fyrir, að allir njóti sömu kjara, heldur fari það eftir aðstæðum. Nú get ég látið það í ljós, að mjög er mismunandi, hvað ganga má langt í því að neyta aðstöðu. Þó að í frv. sé allmikið gengið til móts við þá, sem hafa erfiða aðstöðu, eiga þeir stundum erfitt með að fá rafmagn. Auðvitað eru sumir staðir útilokaðir frá rafmagni, vegna óhentugrar legu, en vonandi eru þeir sem fæstir. Frv. gefur vonir um, að nokkuð verði komið til móts við þá, sem erfitt eiga, hvernig sem sú framkvæmd verður, það eð ríkið á að leggja til 2/3, en héraðið 1/3 kostnaðar. Þó vantar mikið á, að hér sé fullkomið jafnræði. Því að á það verður að líta, að þar, sem aðstæður eru beztar, hefur ríkið gert þeim mun auðveldara fyrir, vegna opinberra stofnana og ýmissa stórra fyrirtækja, sem standa að þeim virkjunum. Slíkur stuðningur er mjög mikilvægur, en honum er alls ekki til að dreifa í strjálbýli. Ég drep á þetta hér, ekki til þess að telja eftir, heldur til þess að benda á, að það er ekki að öllu óverðskuldað, sem lagt er til strjálbýlisins. En þó að þetta sé svona í byrjun, stendur það til bóta. Sennilega verða bornar fram brtt. til þess að auðvelda einstökum byggðarlögum þetta. En hvernig sem frv. þetta verður úr garði gert, veldur alltaf mjög miklu skilningur þeirra, sem síðar fara með málið í framkvæmd.

Hv. frsm., sem hafði orð fyrir hv. iðnn., drap á mismun þann, sem er á þessu frv. og því, sem meiri hl. mþn. flutti. Ég þarf ekki að fara út í þann samanburð, en mismunurinn er einmitt á sölu orkunnar til hinna einstöku neytenda, og er það vitanlega mjög mikilvægt atriði og varðar miklu, hvernig framkvæmt verður. Um önnur atriði, eins og meðferð raforkumálasjóðs og fyrirkomulag stjórnarinnar, er ekki svo mikið að segja, það getur verið skoðunarmál, en skiptir ekki miklu. Ætíð varðar mestu, hvaða menn stjórna, hver skilningur þeirra er og jafnvel, hverjum mannkostum þeir eru búnir. Um þá embættismenn, sem hér er gert ráð fyrir, ætla ég ekki að ræða mikið, en þeir eru hér áætlaðir fleiri en í frv. á síðasta Alþ. Það er sízt mikilvægt, hvort embættismennirnir eru 2 eða fleiri, sem sjá um stjórn málsins. Hitt er höfuðatriðið, að undirbúningurinn sé góður og framkvæmdirnar styrkar. Í grg. er vikið að mikilvægi málsins. Ekki get ég samt að öllu leyti lýst ánægju minni yfir umsögn grg. á því, hvers sveitirnar megi vænta. Mér skilst, að afskekktustu staðir muni ekki fá rafmagn, og á einum stað er sagt, að töluverður hluti sveitanna sé svo strjálbýll, að rafmagn komi þar ekki til greina. Þar er vitnað til Ameríku og talið, að þar standi ólíkt á. En mætti ég þá spyrja, hvort sum lönd, þar sem raforka er komin út í sveitirnar, t. d. Noregur, Svíþjóð og England, stæðust í þessu efni samanburð við Ameríku. Ég minnist í þessu sambandi ummæla eins af núv. ráðh. brezku stj., þar sem hann talaði um það í brezka þinginu, að það væri mjög mikilvægt að koma raforku út í sveitirnar, enda þótt það væri erfiðleikum bundið. Starf sveitafólksins væri svo mikilvægt, að það ætti alls ekki að njóta minni þæginda en fólkið í borgunum. Mér þykir vænt um svona hugsunarhátt. Og ég vildi óska þess, að íslenzkir stjórnmálamenn litu svona á, ef þeir líta þá ekki smáum augum á störf fólksins úti á landi. Ég tel, að í framtíðinni muni störf þess engu lítilvægari en fólksins við sjávarsíðuna. Annað mál er það, að takmörk eru því sett, hvað hægt er að mæta óskum fólks, ef aðstæður eru erfiðar.

Að vísu er sagt í grg.: „Í öllum sýslum landsins þarf auk þess hið allra fyrsta að sjá miðstöðvum atvinnu- og menningarlífs sveitanna og kjarna byggðanna fyrir rafmagni.“ Þetta er góðra gjalda vert. En hver er þessi kjarni byggðanna? En ef þeir menn, hvort sem þeir eru á Alþ. eða ekki, sem vilja þjappa fólkinu saman í þorp og á kragabúskap, telja kjarnann samanþjappaða hópa eða þorp, en allt þar fyrir utan hismi, þá er ég hræddur um, að hismið verði meira en hismi.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða svo mjög um frv., en vildi aðeins láta í ljós skoðun mína á ýmsum meiri háttar atriðum þess. Mér finnst 20. gr., einkum niðurlagið, ekki nógu ákveðin. Æskilegra væri að kveða skýrar á, til þess að ekkert valdi misskilningi. Það ætti a. m. k. ekki að spilla fyrir. Á grg. viðvíkjandi þessu ákvæði er ekki mikið að græða. En á þessu má auðveldlega ráða bót, ef mönnum finnst þess þörf, eins og mér finnst.

Þetta frv. er flutt af iðnn., og í sjálfu sér skiptir það ekki miklu máli, hvaða n. flytur málið. En mér finnst þetta mál eiga hvergi heima nema hjá fjhn. Þetta er fjárhagsmál, þó að það geti gripið inn í iðnaðinn síðar. Fjallar þetta einungis um fjárhagsleg atriði og getur því aldrei orðið annað en fjárhagsmál.

Nú geri ég það alls ekki að till. minni, að málinu verði vísað til annarrar n. en þeirrar, sem flutti það. Ég hugsa þarna meir fyrir framtíðina og það, sem vera á.

Ég vil svo ekki fjölyrða frekar um málið. Ég vil þakka hæstv. ráðh., sem að frv. þessu stendur, þó að allt sé ekki eins fullkomið og ég óska, og er það sérstaklega eitt atriði, er ég vildi hafa öðruvísi, en vona, að um það náist fullt samkomulag. Ég vona, að frv. þetta nái lögfestingu á þessu þ., því að þetta er mikið nauðsynjamál.