09.11.1945
Neðri deild: 29. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í B-deild Alþingistíðinda. (1757)

60. mál, raforkulög

Pétur Ottesen:

Ég hafði kvatt mér hljóðs, þegar umr. var frestað síðast um málið.

Ég sé á þessu frv., sem hér hefur verið lagt fyrir Alþ. nú að tilhlutun hæstv. samgmrh., að þar er í verulegum atriðum fylgt þeirri stefnu, sem fólst í því frv., sem lagt var fyrir síðasta Alþingi og flutt þá af nokkrum hv. dm., sem þá jafnframt höfðu verið í þeirri mþn., sem hafði haft þessi raforkumál til meðferðar. Að vísu er að sumu leyti einnig brugðið frá þeirri stefnu, sem þar kom fram, sérstaklega að því er snertir verð raforkunnar, sem samkv. því frv. átti að geta orðið sem jafnast um land allt, en hins vegar í því frv., sem hér liggur fyrir, fer það eftir atvikum og aðstöðu, hvaða verð verður á rafmagninu á hverjum stað. Sem sé í þessu frv. er lagður sá grundvöllur, sem þar var, að ríkið taki í sínar hendur að heita má, frá þeim tíma að þessi l. yrðu staðfest, alla framkvæmd þessara mála með þeim undantekningum, sem felast í 7. gr. þessa frv., að fjórir kaupstaðir þessa lands, sem komið hafa upp hjá sér rafvirkjunum, fái undanþágu að því er snertir þær rafvirkjanir, sem þegar eru komnar í framkvæmd hjá þeim, en frekari útfærsla á rafvirkjunum hjá þessum kaupstöðum falli undir ríkið eða að það taki hana í sínar hendur.

Nú sé ég ekki í þessu frv., sem hér liggur fyrir, að sé að neinu leyti miðað við þær aðstæður, þar sem svo stendur á, að hafnar hafa verið framkvæmdir að byggingu rafveitu, eins og á sér stað í sambandi við Andakílsárvirkjunina. Eins og hv. þm. er kunnugt, þá hefur Alþ. veitt því fyrirtæki mikinn stuðning með því að ganga í ábyrgð fyrir stóru láni til þessara framkvæmda, og þessar framkvæmdir eru nú komnar það vel á veg, að á síðasta vori var byrjað á þessari virkjun, og ráð er fyrir gert, að virkjuninni í því formi, sem hún er hugsuð, verði lokið fyrir áramót 1946. Þess vegna virðist það vera í alla staði sjálfsagt, að í þeirri löggjöf, sem sett verður um þetta efni, verði fullkomlega mörkuð afstaða til þessa fyrirtækis, sem er þetta vel á veg komið, með hvaða hætti sem það svo verður gert. Mér skilst, að samkv. því, sem felst í 7 gr. þessa frv., þá hefði verið ákaflega eðlilegt, að gerð hefði verið svipuð undantekning um Andakílsárvirkjunina og um sams konar framkvæmdir hjá Reykjavíkurbæ, Akureyri, Siglufirði og Ísafjarðarkaupstað, þó að sá stigmunur sé á þessu, að þessir bæir hafi lokið þessum framkvæmdum, þ. e. a. s. þessum áföngum í framkvæmdum sínum, því að þar verður að sjálfsögðu haldið áfram, en Andakílsárvirkjuninni sé ekki lokið enn, þó að henni sé þetta vel á veg komið. Ég vil þess vegna í sambandi við þetta bera fram þá fyrirspurn til hæstv. samgmrh. og þeirrar n., sem hefur tekið að sér þessi mál og hefur alla þess velferð í sínum höndum. hvort þeir vilji ekki athuga þetta mál og gefa skýringu á því, hvernig viðhorf þessarar löggjafar eða frv. yrði gagnvart þessu fyrirtæki. Ég skal svo ekki fjölyrða um það frekar út af fyrir sig, fyrr en ég hef fengið svör við þessu frá þeim aðilum, sem ég hef beint máli mínu til.

Um frv. þetta að öðru leyti vil ég segja það, að mér finnst það svífa ákaflega í lausu lofti um það, hvaða, vonir megi gera sér um framkvæmdir samkv. þessu frv. í rafveitumálum út um hinar dreifðu byggðir landsins. Eins og ég sagði áður, hefur sú breyt. verið gerð frá fyrra frv., að nú er ekkert ákvæði, sem tryggir það beinlínis, að svipað verð verði á rafmagni eða geti orðið úti í dreifbýlinu og í kaupstöðum og kauptúnum eða þéttbýli landsins. Í frv. því, sem fyrir lá á síðasta þingi, var þó viðleitni gerð til að tryggja þetta með þeim ákvæðum, sem þá stóðu um, að verðlag yrði sem jafnast. Og ef slík ákvæði hefðu hlotið staðfestingu, hefði orðið að miða allar framkvæmdir þessara virkjana við, að svo gæti orðið. Í þessu frv. er þessi stefna aftur á móti með allt öðrum hætti en þar var, sem sé þannig, að gert er ráð fyrir að veita nokkurn fjárstuðning til þeirra rafveitna, sem geta ekki staðið undir sér fjárhagslega, og er í 25. og 26. gr. þessa frv. nánar rætt um það, hvernig þessi stuðningur verði af hendi látinn af hálfu ríkisvaldsins, en hins vegar fer það vitanlega eftir vissum hlutföllum, þar sem ákveðin er þátttaka ríkissjóðs og héraða, til þess að þessar rafveitur geti borið sig. Hins vegar eru engin ákvæði sett í frv. um, við hvaða verð á raforkunni á að miða, þegar reiknað er út, hvað mikinn stuðning rafveitan þurfi, til þess að hún geti borið sig. Það er ekki t. d. sagt, að miða skuli við það verð, sem er í kaupstöðum landsins eða annars staðar, svo að þótt þetta hlutfall sé sett um þátttöku ríkisins, þá fer framlagið eftir því, hvaða verð á rafmagninu er lagt til grundvallar, þegar, reiknað er út, hvað það óendurkræfa framlag þurfi að vera mikið. Þetta stendur opið og er alveg háð því mati, sem verður sett af þeim stjórnarvöldum, sem þetta hafa með höndum á þeim tíma, þegar í þessar framkvæmdir verður ráðizt. Að þessu leyti virðist mér, að frv. tryggi í tiltölulega litlum mæli þá framkvæmd á raforkumálunum, sem allir þrá og nauðsynleg er, að nokkuð hlutfallsleg dreifing rafmagnsins út um byggðir landsins geti orðið til þéttbýlli hluta landsins.

Nú er það svo, að með aukinni tækni, sem við erum alltaf að fá meiri og meiri kynni af, er hagnýting rafmagnsins og verður sennilega einhver allra stærsti og öflugasti þátturinn í því nýja landnámi, sem hugir manna í þessu landi stefna að, en það er að nema óræktaða landið út um byggðirnar og breyta því í ræktunarland og framleiðsluland með mjög margvíslegum hætti. Þess vegna virðist mér, að við megum fullkomlega hafa hliðsjón af því við setningu þessarar löggjafar, og ef það er virkilega meiningin, sem ég efast ekki um að sé, að verja verulegu fjármagni til nýs landnáms og aukinnar ræktunar, þá er höfuðatriðið, að rafmagn geti dreifzt sem allra fyrst út um hinar víðáttumiklu byggðir þessa lands, og með tilliti til þessa finnst mér, að þessu sé engan veginn eins vel gaumur gefinn og engan veginn eins vel tryggt í þessu frv., að þetta geti orðið, eins og ég álít, að gera ætti, en vitanlega stendur þetta allt til bóta, þar sem þetta frv. er aðeins að hefja göngu sína á þessu þingi.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram hér, þó með sérstöku tilliti til þess, að í grg. frv. virðist ekki að þessu leyti vera hærra stefnt en það, að rafmagn komist inn í það, sem kallað er kjarni byggðanna hér á landi, en sá kjarni, sem þar yrði um að ræða, er fólginn í jarðargróða og öðrum gæðum víðs vegar út um byggðir þessa lands, þegar rafmagn og aðrar aðstæður eru fyrir hendi til hagnýtingar til að framleiða þessi gæði úr skauti náttúrunnar. En grundvöllurinn til, að slíkt geti orðið víða annars staðar, er engu síður þar fyrir hendi. Þar vantar aðeins þá bættu aðstöðu til að leysa þau mörgu verkefni, sem þar bíða. Þess vegna virðist mér að þessu leyti hvað dreifbýlið snertir markið vera sett allt of lágt í þessu frv., svo að það út af fyrir sig þurfi verulegra umbóta við frá því, sem hér er. Hitt vil ég mjög gjarnan taka fram, að ég þakka hæstv. samgmrh. fyrir að hafa lagt fullkomna rækt við þetta mál og látið undirbúa þetta frv. vel í hendur Alþ. En þótt ég sé hæstv. ráðh. ekki að öllu leyti sammála um ákvæði frv., þá er það mál út af fyrir sig. Auk þess tók hæstv. ráðh. það fram í síðustu ræðu sinni um þetta mál, að hann væri fullkomlega reiðubúinn til viðræðna um ýmsar breytingar á þessu frv. frá því, sem nú er.

Hæstv. samgmrh. tók fram, að sá munur, sem gerður er á aðstöðu ríkisins og einstaklinga til að koma rafveitum út um byggðir landsins, er geysimikill. Þar er ætlazt til, að einstaklingar fái engan styrk, ef þeir hafa þessar framkvæmdir með höndum. Þetta er eitt af því í frv., sem stendur til bóta, og benti hæstv. samgmrh. á, að hann teldi þetta þurfa breyt. við.

Skal ég svo ekki á þessu stigi málsins láta frv. fylgja fleiri orð. En ég óska að fá svör við því, hvað hæstv. samgmrh. og n. hafa hugsað sér varðandi aðstöðu Andakílsárvirkjunarinnar í sambandi við þetta frv. Því að eins og frv. liggur fyrir, þá geta að mér skilst ekki þeir aðilar, sem að henni standa, haldið þessu verki áfram, og er því sennilega meiningin, að ríkið taki við þeim framkvæmdum. En þetta þarf að liggja ljóst fyrir, því að hér er um áþreifanlegt dæmi að ræða. Ég vil svo ljúka þessum orðum með því að leggja til, að þeim aðilum, sem standa að Andakílsárvirkjuninni, verði sköpuð svipuð aðstaða og þeim aðilum, sem um getur í 17. gr. frv. Ég hef talið það eðlilegt, þótt það sé meiningin samkv. þessu frv., að verkið á þessu stigi falli undir ríkið, þannig að það taki nú við og ljúki verkinu. En úr þessu þarf að skera, því að ekkert hik má koma á framkvæmd verksins, ef sú áætlun á að standast, sem gerð hefur verið, að virkjunin á að geta orðið tilbúin um áramótin 1946–47.