22.11.1945
Neðri deild: 37. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í B-deild Alþingistíðinda. (1768)

60. mál, raforkulög

Sigurður Þórðarson:

Herra forseti. Varla mun það nógur tími, en þó mun ég á það hætta.

Þegar þetta raforkulagafrv. var sent iðnn. til flutnings af samgmn., vannst n. ekki tími til þess að ræða efni þess til hlítar. Ég óskaði því ekki eftir að gerast meðflm. þess, og því er það flutt af meiri hl. n. Hins vegar hafa allir iðnnm. óbundnar hendur um að flytja og fylgja brtt., sem fram koma við frv. Iðnn. ræddi líka um málið á einum fundi, eftir að það hafði verið lagt fram hér í hv. d. Lýsti ég því þá yfir, að ég mundi bera fram brtt. við frv., en samnm. mínir töldu sig ekki geta léð þeim fylgi sitt að svo komnu máli. Brtt. mínar, sem prentaðar eru á þskj. 171, eru samdar og bornar fram í samráði við flm. að raforkumálafrv., sem flutt var á síðasta þ. og samið var af mþn. í raforkumálum. Ég stend því ekki einn að þeim, þótt ég flytji þær einn.

Fimm fyrstu brtt. miða allar að því sama, að fella niður úr frv. ákvæði um fjárframlög úr sýslusjóði til stofnkostnaðar við héraðsrafveitur ríkisins. 6. brtt., sem er aðalbrtt., er við 30. gr. frv. Er hún um það, að söluverð raforkunnar til neytenda skuli vera hið sama hvarvetna á landinu og íbúar stærstu kaupstaðanna þurfa að greiða á hverjum tíma að meðaltali. 7. brtt. er um það að hraða sem allra mest rannsókn á því, hvernig bezt verði fullnægt raforkuþörf landsmanna og að sett verði það markmið, að á næstu 10 árum verði því náð, að hver íbúi hverrar sýslu eða kaupstaðar geti keypt raforku innan kaupstaðarins eða sýslunnar, er fullnægi raforkuþörf þeirra flestra um sinn. Þetta er aðalinnihald brtt. minna.

Vildi ég þá fara örfáum orðum um till. til frekari skýringar. Um niðurfellingu á fjárframlögum úr sýslusjóðum til héraðsrafveitnanna er það að segja, að þar sem frv. gerir ráð fyrir, að þær séu reknar algerlega sem ríkisfyrirtæki og ríkið áskilur sér einkarétt til þess að stjórna þeim og starfrækja þær að öllu leyti án íhlutunar viðkomandi héraða, þá liggur beint við að álykta, að ríkið eigi þá að sjá um stofnkostnaðinn að öllu leyti án fjárframlaga frá héruðunum. Alkunnugt er og, að sýslusjóðir hafa ekki mikla gjaldstofna upp á að hlaupa til þess að geta innt háar greiðslur af höndum.

Þá er að minnast á aðalbrtt., um það, að söluverð raforkunnar til neytenda skuli vera hið sama hvarvetna á landinu. Allir munu viðurkenna, að þetta væri bezta og réttlátasta lausn málsins, en sumir munu halda því fram, að kostnaðarins vegna muni þetta vera óframkvæmanlegt. En er það víst, að það sé óframkvæmanlegt að skipa svo þessum málum með sameiginlegu átaki alþjóðar, að hægt verði að selja raforku jöfnu verði í öllum héruðum landsins, þar sem byggð er sæmilega samfelld? Ég tel mig bresta þekkingu til þess að leggja fram fullkomin rök fyrir því, að þetta verði hægt að gera á næstu árum, en ég hef þá trú, að það muni reynast mögulegt, og ég byggi þær vonir á umsögn þeirra manna, sem mér eru fróðari um þessa hluti og hafa haft með höndum rannsókn í þessum efnum, og er þá nærtækast að vitna til hv. mþnm. í raforkumálum, þeirra er báru fram frv. til raforkulaga á síðasta þingi. Svo vill nú svo vel til, að fyrir liggur yfirlýstur vilji Alþ. í þessu máli. Hinn 4. sept. 1942 var samþykkt í Sþ. svo hljóðandi ályktun um raforkumál: „Alþ. ályktar að kjósa 5 manna n., er geri till. um fjáröflun til þess að byggja rafveitur í því skyni að koma upp nægilegri raforku til ljósa, suðu, hitunar og iðnrekstrar í allar byggðir landsins á sem skemmstum tíma, enda verði raforkan ekki seld hærra verði í sveitum landsins en stærstu kaupstöðum á hverjum tíma.“

Mþn. í raforkumálum, er kosin var af Alþ. 8. sept. 1942, hagaði vitanlega störfum sínum samkv. þessum yfirlýsta vilja Alþ., en ef til vill mætti þó segja, að einum manni undanteknum, er seinna var bætt við í nefndina.

Nú vil ég vona, að enn sé það í fullu gildi, að hver maður eigi að virða sín orð og þá ekki síður hæstv. Alþ. Fyrir því geri ég mér örugga von um það, að þessi brtt. verði samþ., því að hún er í samræmi við vilja og fyrirmæli Alþ. samkv. ályktun þess frá 4. sept. 1942. En verði þessi brtt., mót von minni, felld, þá verður það ekki af skafið, að Alþ. hefur í þessu máli gengið gegn orðum sínum og ályktunum, og þá mun þjóðin spyrja, hverju treysta megi, ef svo skjótt skipast veður í lofti hjá löggjafarsamkomu ríkisins. Ef nú Alþ. breytir um stefnu í þessu máli og afgreiðir lög, sem ráðgera, að raforka verði seld hærra verði út um sveitir landsins og í smákauptúnum en í stærstu kaupstöðunum, þá verður manni að spyrja: Hvað hefur breytzt frá 1942, svo að nú þurfi að gera upp á milli landsmanna í þessum efnum?

Aðstreymi fólks til Reykjavíkur eykst því hraðar sem lífskjör verða ójafnari í landinu, og ekki hefur sá straumur minnkað síðan 1942. Enginn er hér að tala um að íþyngja Reykjavík eða stærri bæjunum um rafmagnsverð. Heldur er hér um það að ræða, að fólki út um hinar dreifðu byggðir landsins séu einnig boðin sæmileg lífsskilyrði með sameiginlegu átaki alþjóðar. Verði raforkan seld hóflegu verði, þá verður miklu meira keypt af henni en ella. En þegar hvort sem er verður að leggja í mikinn kostnað við orkustöðvar og leiðslur, þá er mjög áríðandi, að sem mest verði notað og keypt af rafmagni, til þess að fyrirtækin beri sig í heild. Þetta ber vel að athuga, þegar ákveðið er verð á raforku til neytendanna. Iðnaður ætti að geta vaxið upp og þrifizt úti um sveitir landsins, ef völ væri á ódýru rafmagni. Þar er ódýrara að lifa en í stærri bæjum og hollara lífsviðurværi: Iðnaðarhverfi ættu að geta stuðzt við margs konar ræktun, t. d. þar sem gnægð er af heitu vatni og jarðhita, og nokkra skepnueign, svo að fólkið geti framleitt næga mjólk handa sér. Þarna mundi verða hollara og affarasælla að ala upp börn og unglinga en í stærstu bæjum landsins, þótt allt sé þar gert með ærnum kostnaði, til þess að uppeldi fari sem bezt úr hendi. Nú er svo komið, fyrir óeðlilegt aðstreymi fólks til Reykjavíkur og húsnæðisleysi og okur á byggingarkostnaði, að þriggja herbergja íbúð hér kostar meira en höfuðbólsjarðir í sveitum landsins, sem eru með sæmilegum byggingum yfir fólk og fénað. Það sýnist því ekki vanþörf á því, að ríkið leysi þetta vandamál og jafni metin, taki af mesta áhallann og skapi sem jöfnust lífsskilyrði hvarvetna á landinu, en það verður bezt gert með því að leysa raforkumálið á þann hátt, sem hér er lagt til, því að raforka skapar óteljandi lífsgæði og bætta framleiðslu- og afkomumöguleika. Ég er þakklátur hæstv. ríkisstj. fyrir þetta raforkufrv., það sem það nær, en ég vona, að hæstv. Alþ. sjái sér fært að fallast á brtt. mínar, því að þær eru vissulega til bóta og í fullu samræmi við áður yfirlýstan vilja Alþ. Um 7. brtt. þarf ég ekkert að ræða. Hún skýrir sig sjálf. En ég vil geta þess, að inn í hana hafa slæðzt villur á þskj. Þar stendur „kauptúns“ á tveim stöðum í síðustu málsgrein, en á að vera kaupstaðar.