23.11.1945
Neðri deild: 38. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1058 í B-deild Alþingistíðinda. (1771)

60. mál, raforkulög

Sigurður Þórðarson:

Hv. 11. landsk. hefur lýst málinu frá sínum bæjardyrum, og átti ég þess nokkra von, að hann talaði í þá átt, sem hann gerði. Ég hafði komizt á snoðir um það í iðnn., að hann leit svona á málið. Nú er ekkert við því að segja, þótt hér rísi upp ýmis sjónarmið í þessu máli sem öðrum málum. En ég verð að játa, að ég varð dálítið hissa á málflutningi hv. þm. Ég ætla að fara um þetta fáum orðum.

Hv. þm. minntist á framlög sýslusjóða til héraðaveitna og sagði, að hann liti svo á, að þau þyrftu að vera sem nauðsynlegur hemill á kröfur um framkvæmdir. Og í öðru orðinu er líka þess látið getið, að niðurfelling þessa framlags mundi tefja fyrir framgangi málsins í heild. Þessu er ekki hægt að koma heim og saman. En sleppum þessu. Það, sem ég sagði um niðurfellingu framlags sýslusjóða til rafveitnanna, var, að óviðkunnanlegt væri, að ríkið tæki að sér einkarétt á rekstrinum og héruðin hefðu ekkert með stjórn fyrirtækjanna að gera. Ég sagði, að mér fyndist það óvenjulegt og hjákátlegt, að ríkið gæti krafið héruðin um fjárframlag til héraðaveitnanna, þar sem þau hefðu ekkert með stjórnina að gera og um hreinan ríkisrekstur væri að ræða. Þegar ríkið tekur málið í sínar hendur, verður það að standa straum af kostnaði fyrirtækjanna. Allt samkrull í þeim efnum er óviðkunnanlegt. Það er einnig vitað, að sýslusjóðir hafa ekki yfir miklum gjaldastofnum að ráða, og það er augsýnilega fjárhagsgetu þeirra um megn að leggja fram stórfé í þessu skyni. Þetta mál hefur verið hugsað þannig, frá því yfirlýsingin var gefin 1942, að ríkið hlypi undir bagga og leysti málið með hagsmuni alþjóðar fyrir augum. Þannig stendur málið enn, og ég reyndi að undirstrika, að það væri óhugsanlegt, að Alþ. hlypi frá þessari yfirlýsingu. Hv. 11. landsk. sagði, að Alþ. ætti að standa við orð sín, nema ef upplýstist, að annað væri réttara. Og hvernig getur annað verið réttara en að standa við orð sín? Mér skildist á hv. síðasta ræðumanni, að Alþ. væri leyst frá fyrri skuldbindingum sínum, og því væri rétt, að verðið væri misjafnt í landinu. Ég veit, að hv. þm. álítur það rétt, að raforkuverðið sé misjafnt í landinu, hærra þar, sem lífsbaráttan er erfiðari. En þetta er hans eigið sjónarmið. En flestir sanngjarnir menn, sem hugsa um málið frá þjóðhagslegu sjónarmiði, álíta, að réttast sé, að þessi lífsgæði séu seld með sem jöfnustu verði, hvar sem er á landinu. Það er óhugsanlegt, að Alþ. hlaupi frá yfirlýstum vilja sínum frá 1942, þar sem segir, að raforkan verði ekki seld hærra verði í sveitunum en í stærri kaupstöðum á hverjum tíma. Það hafa engar breytingar orðið síðan þessi yfirlýsing var gerð, sem valda því, að annað sé nú uppi á teningnum í þessu máli.

Hv. 11. landsk. sagði, að sér fyndist ómögulegt að selja raforkuna með því fyrirkomulagi, sem gert er ráð fyrir í frv. mþn. í raforkumálum, þ. e. að selja raforkuna út um land á sama verði og í stærstu kaupstöðunum. Þetta fyrirkomulag átti að vera svo flókið. Ég verð að segja það, að mér finnst einkennilegt, að nokkur maður skuli geta borið sér þetta í munn. Hvers vegna er þetta ekki hægt? Hvers vegna ætti ekki að vera hægt að selja raforkuna út um hinar dreifðu byggðir á sama verði og í kaupstöðunum? Ég get ekki skilið, að þetta þurfi að vera svo flókið. Hér er gert ráð fyrir einu kerfi, háspennulínum, sem tengdar eru um allt landið. Með því móti flýgur raforkan um allt landið eftir því, sem þörf er fyrir hana, og verður seld á jöfnu verði.

Ég kom inn á það í ræðu minni í gær, að það væri ákaflega hættulegt, að lífskjörin væru mjög mismunandi í landinu, því að þá hlyti fólkið að streyma þangað, sem mest er gert fyrir borgarana. Þetta mundi hafa það í för með sér, að stærstu kaupstaðirnir mundu vaxa meir og meir, en það hefur sínar skuggahliðar, eins og við vitum allir. Ég álít, að þetta beri að athuga, þegar þessi mál eru rædd. Ef hvergi eiga að vera ódýr lífsgæði nema þar, sem þéttbýli er, þá leiðir það til þess, að fólkið flýr dreifbýlið. Þá hefur ríkisvaldið vanrækt að veita þessu fólki hjálp til þess að það geti starfað og búið að sínu.

Þá sagði hv. 11. landsk., að síðasti liður brtt. minnar á þskj. 171 væri áróður, sem ekki ætti við að flytja í Nd., og benti á, að flytja ætti hana í Sþ. Til samkomulags við hv. 11. landsk. ætla ég að gefa honum þetta eftir, ef hann vill gerast meðflm. till. í Sþ. En þessi brtt. er flutt í sambandi við þetta mál og á heima í Nd. og er alls enginn áróður. Þetta er skipulagsatriði varðandi framkvæmd málsins. Ég skil ekki hv. 11. landsk., sem er einn í þeim hóp, sem dýrkar Rússa. Þetta er þó aðeins 10 ára áætlun, sem ég legg til, að gerð verði á sama tíma og útvarpið í Moskva segir frá 10 ára áætlun þar í landi. Það ber ekki á því, að hv. 11. landsk. sé neitt hneykslaður á 10 ára áætlunum í Rússlandi, þó að hann telji það óhæfu og áróður, að á slíkt sé minnzt hér í sambandi við mesta nauðsynjamál Íslands. Þetta tek ég sem gaman, enda færði hv. þm. engin rök til stuðnings því að þessi brtt. væri áróður. Það eru bara hans orð, hans sleggjudómur.

Það, sem hv. 11. landsk. sagði um framlög sýslusjóða, álít ég rétt, ég álít þau muni tefja málið. Það er mjög hæpið, að sýslusjóðir geti lagt mikið af mörkum. Hins vegar veit málið að Alþ., sem hefur yfir að ráða miklu meira fé í hlutfalli við sýslufélögin. Ég legg því til, að þetta verði fellt niður úr frv. Ég er sannfærður um, að málið gangi greiðara fyrir sig, ef þessi tvískipting er ekki látin haldast og ríkið taki þetta allt að sér vegna nauðsynjar alþjóðar.

Ég ætla svo ekki að fara fleiri orðum um þetta. Ég hef minnzt á öll atriðin, sem hv. 11. landsk. bar fram á móti þessum breytingum mínum, sem margir standa að, þótt ég kalli mínar. Hann hrakti ekki rök mín að nokkru leyti eða þeirra manna, sem líta á málið eins og ég. En það eru þeir menn, sem fluttu frv. til raforkulaga á síðasta þingi. Þeir hafa líka mest um þetta mál hugsað, og þeirra rök munu standa óhögguð bæði af hv. 11 landsk. og öðrum þeim, sem vilja mæla þessu í gegn. Ég sé ekki nokkrar líkur til þess, að hv. Alþ. hafi skipt um skoðun í þessu máli. Það lýsti yfir skoðun sinni 4. sept. 1942. Og hún hlýtur að standa. Ég trúi ekki öðru, fyrr en ég tek á því.