04.12.1945
Neðri deild: 48. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1063 í B-deild Alþingistíðinda. (1785)

60. mál, raforkulög

Frsm. (Sigurður Thoroddsen) :

Herra forseti. Það liggja fyrir margar brtt. til 3. umr. Kom iðnn, sér saman um að flytja nokkrar brtt. á þskj. 266, sem hún leggur til, að verði samþykktar. N. leggur einnig til, að samþ. verði brtt., sem flutt er af hv. 2. þm. Skagf. á þskj. 226, en um hinar brtt. varð ekki samkomulag.

N. hefur komið sér saman um að leggja til, að gerð verði breyt. á 1. gr. frv., þar sem ákveðið er, að ríkinu einu sé heimilt að reisa og reka orkuver, sem séu stærri en 100 hestöfl, en þeim, sem eiga og reka eða eiga í smíðum raforkuver, sem eru stærri en 100 hestöfl, sé þó heimilt að reka þau áfram og auka þau allt að fullri fyrirhugaðri virkjun, enda er það skilyrði sett fyrir þessu, að eigendur sendi uppdrætti og greinargerð um framkvæmdirnar innan 6 mánaða frá gildistöku laganna. Ef þessi brtt. yrði samþ., mundi hún t. d. hafa það í för með sér, að Akureyrarkaupstaður gæti lokið við virkjun á þeim stað, sem nú er virkjaður í Laxá, eins og fyrirhugað hefur verið, t. d. með því að bæta við nýrri vélasamstæðu. Með því að uppfylla það skilyrði, sem ráðherra setur, væri þetta sem sagt leyft. Má segja, að þetta sé í samræmi við anda frv., því að yfirleitt hefur verið gert ráð fyrir því, að þeim stöðum, sem þegar hafa hafizt handa í þessum málum, verði leyft að halda áfram á þeirri braut.

Þá hefur n. enn fremur komið sér saman um að flytja einnig þá brtt. við 1. gr. frv., að ráðh. sé heimilt að fengnum till. raforkumálastjóra að veita sveitarfélögum, einstaklingum eða félögum leyfi til að reisa og reka raforkuver allt að 2000 hestöflum að stærð til að fullnægja raforkuþörf sinni. Með því að hækka þetta leyfi upp í 2000 hestöfl er séð fyrir brýnustu þörfunum utan þeirra staða, sem meiri hafa virkjanir. En hins vegar er þetta því skilyrði bundið, að þetta megi aðeins leyfa, ef rafveitur ríkisins eða héraðsrafveiturnar geti eigi eða óska eigi eftir að láta rafaflið í té. Segjum t. d., að það geti komið fyrir, að kaupstaðir eða þorp vilji virkja segjum 2000 hestafla stöðvar, en stjórnarráðið og rafveiturnar sjá aðra betri lausn og vilja því frekar draga úr því, að þetta verði framkvæmt. Þá finnst mér allar líkur benda til þess, að rafveitur ríkisins gætu þarna nokkru ráðið, hvað gert yrði.

Þá er það önnur brtt., sem er við 7. gr. Hún er aðeins til samræmis við þá brtt., sem flutt er við 1. gr., þ. e. 1. brtt. á þskj.

Næsta brtt. er sú, að á eftir 21. gr. bætist ný grein, þar sem ríkisstj. er heimilt að ábyrgjast allt að 2/3 stofnkostnaðar fyrir héraðsrafveitur, með því skilyrði, að fyrir liggi samþykki raforkumálastjóra á öllu fyrirkomulagi og högun verksins hverju sinni. Þessa till. hefur n. tekið upp fyrir tilmæli hæstv. samgmrh., og liggur í augum uppi, að hún á heima hér í l. Eins og hv. þm. muna, þá liggja hér fyrir Alþ. till. til þál., sem fara í þá átt, að ríkisstj. verði heimilað að ábyrgjast stofnkostnað fyrir héraðsrafveitur, svo að þessi brtt. er fullkomlega eðlileg og til þess að létta störf þingsins að miklum mun, því að með þessu móti yrði ríkisstj. heimilað í eitt skipti fyrir öll að ábyrgjast þennan hluta stofnkostnaðar.

Þá er enn ein brtt. Hún er við 26. gr. l. og er um það, að framlag til héraðsrafveitna ríkisins verði minnkað úr helmingi á móti framlagi ríkissjóðs niður í 1/3. Á þskj. 213 flytja tveir hv. þm. brtt. um að flytja þetta tillag niður í 1/5 af tillagi ríkissjóðs. Þessi till. n. er hrein samkomulagstill., og ég fyrir mitt leyti hefði fremur kosið, að þetta hefði verið óbreytt. Eins og hv. þm. er kunnugt, er ekki mikil reynsla í þessum málum, en mér þykir þó rétt að benda á, að þegar hér er gert ráð fyrir helmingi tillags móti helmingi tillags úr ríkissjóði, þá er hér ekki um helming eða ~ af stofnkostnaðinum að ræða, nema veiturnar geti borið sig að fullu. En séu þær styrkþurfi, þurfi helming af stofnkostnaðinum í styrk, þá þurfa þær að fá annan helminginn að láni, en hitt sem óafturkræft. Sem sagt, ég hefði fullt eins vel kosið, að þetta hefði staðið óbreytt í frv., en get þó fallizt á þetta til samkomulags, og reynslan verður að sýna, hvað er bezt.

Síðasta brtt. á þskj 266 er hreint formsatriði, sem ég hirði ekki um að ræða.

Þá minnist ég á aðra till., sem iðnn. hefur getað fallizt á, brtt. á þskj. 226 frá hv. 2. þm. Skagf. Hún er um það að fella niður, að sú veita skuli ganga fyrir að jöfnu, sem hæst framlag fæst til. Mér fyrir mitt leyti finnst það ekki skipta miklu máli, hvort þetta er fellt úr frv. eða ekki, og n. leit einnig eins á það mál.

Þá hef ég rætt um þær till., sem n. gat orðið sammála um og mælir með, að verði samþ. Kem ég þá að brtt. á þskj. 233, frá 1. þm. Árn. og 2. hv. þm., um það, að heildsöluverð til rafveitna ríkisins skuli vera sama um allt land. N. var klofin um þessa till., meiri hl. vildi fella hana. Ég læt þetta nægja, en legg til f. h. meiri hl. iðnn., að till. verði felld.

Þá eru eftir 2 till., önnur á þskj. 216, en hin á þskj. 232. Brtt. á þskj. 232 er við brtt. á þskj. 216 frá hv. þm. A.-Húnv. (JPálm). N. gat ekki orðið sammála um þessar till. Meiri hl. vildi fella þær, en minni hl. samþ. Eins og till. bera með sér, þá er hér um það að ræða, að ef einstakir bændur eða fleiri menn saman vilja reisa raforkustöðvar til heimilisnota, þá skuli heimilt að veita allt að 2/3 kostnaðar að láni úr raforkusjóði, og er lánstíminn ákveðinn 30 ár. Þessar till. fara mislangt. Að því leyti fer till. á þskj. 216, frá hv. þm. A.-Húnv., lengra en hin till., að það er ekki tekið fram, til hverra tegunda raforkustöðva hún nær. Hún nær því yfir allar tegundir raforkustöðva, hvort sem um er að ræða vatnsorku eða mótorstöðvar, og eins nær hún yfir þær stöðvar, sem liggja innan við þau svæði, sem héraðsrafveitur ríkisins annars ná yfir. Að þessu leyti fer þessi till. lengra en hin, en á hinn bóginn skemmra, því að þarna er aðeins um heimild að ræða, en í hinni brtt. á þskj. 332 er ákveðið, að lán skuli veitt, ef farið er fram á það. Báðar till. eiga það sammerkt að því leyti, að vextir af lánum eru ekki í samræmi við 38. gr. frv., þar sem ákveðið er, að vextir megi vera allt að 2½% lægri en víxilforvextir í Landsbanka Íslands. Þarna gætir ósamræmis. Mér finnst satt að segja, að efni þessara till. eigi ekki heima í þessu frv. Mér finnst fyrst og fremst, ef þetta verður samþ., að það yrði ekki til þess, í bili að minnsta kosti, að ráðizt yrði í almennar veitur, heldur hitt, að einstakir bændur tækju til að virkja hjá sér einum saman, hver út af fyrir sig. Með því er ekki ýtt undir sameiginleg átök, heldur þvert á móti. Í öðru lagi finnst mér það sérstaklega athugunarvert, að það er alls ekki vitað, ef þetta verður samþ., hve langt það getur farið. Ef við athugum það, að á öllu landinu eru 6 þús. býli, og ef við hugsum okkur, að viss fjöldi þeirra, — og til að vera sanngjarnir skulum við segja, að ef 100 bændur hefjast handa um virkjanir, þá er hér orðið um allverulega upphæð að ræða, eða lauslega áætlað 2–2½ millj. kr., sem raforkusjóður yrði svo að lána til að 2/3 hlutum, eða um 1½ millj. kr. Ég hygg, að lítil not yrðu að raforkusjóðnum, ef hægt á að vera að opna hann upp á gátt. Ef bændur gætu gengið í sjóðinn, þá yrði hann fljótt étinn upp. Svo er það enn eitt, sem báðum þessum till. er sammerkt, að það er ekki ætlazt til þess í þeim, að trygging komi fyrir lánum. Getur þetta stafað af yfirsjón hjá flm., en það er ekki getið um neinar tryggingar fyrir lánum úr sjóðnum. Það eina, sem talað er um, er það, að mannvirkið sé vel gert að dómi rafmagnseftirlits ríkisins. Mér finnst, að það, sem hér um ræðir, standi miklu nær því, að annar sjóður sæi fyrir þessum þörfum, sem kunna að vera fyrir hendi, t. d. einhver sjóður, sem lánar út á byggingar í sveitum, og mér er kunnugt um það, að nýbyggingarráð hefur á prjónunum frv., sem einmitt felur þetta í sér. Finnst mér rétt, að þetta yrði sérstakur sjóður, og auk þess tel ég, að ekki sé fullrannsakað, hve langt þetta getur náð, til þess að rétt sé á þessu stigi málsins að samþ., þetta. Ég vil benda á till. til þál., sem hv. 2. þm. Skagf. (JS) flytur, þar sem farið er fram á, að ríkisstj. athugi, hvernig megi ráðleggja bændum að koma sér upp mótorstöðvum. Mér finnst miklu réttara, að þetta mál sé tekið upp á þennan hátt, því að hér vantar athugun, áður en lögbundið er að fara þessa leið, sem hér er um að ræða.