04.12.1945
Neðri deild: 48. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í B-deild Alþingistíðinda. (1786)

60. mál, raforkulög

Pétur Ottesen:

Ég vil byrja með því að þakka iðnn. þær till., sem hún gerði við 2. umr. þessa máls út af framkomnum óskum frá mér og hv. þm. Mýr. (BÁ). Við förum fram á það við n., að hún breytti 1. og 7. gr. frv. þannig, að Andakílsárvirkjunin hlyti sömu réttindi eins og Reykjavíkurkaupstaður, Akureyrarkaupstaður, Siglufjarðarkaupstaður og Ísafjarðarkaupstaður, að því er tekur til þess, að þessir staðir fá sjálfir að reka áfram þau orkuver, sem þeir hafa komið upp hjá sér. N. tók þessi tilmæli til greina á þann hátt, sem við förum fram á, og hv. d. samþ. þær till., sem n. bar fram hér að lútandi. Nú hefur iðnn. aftur breytt nokkuð þessum báðum greinum, 1. og 7. gr. þessa frv. Breyt. á 1. gr. raska engu um það, sem sett var inn í þá gr. við 2. umr., að því er Andakílsárvirkjunina snertir, heldur eru það breyt. almenns efnis, sem þeir leggja nú til, að gerðar verði. Aftur á móti virðist mér eða okkur hv. þm. Mýr. nú, að breyt., sem þeir eða n. leggur til, að niður séu felld orðin samkv. 2. brtt. á þskj. 266: „eiga nú, eða hafa þegar hafið byggingu á,“ en í þess stað komi : eiga og reka skv. 1. gr. — okkur virðist, að þessi breyt. sé ekki í samræmi við ákvæði 1. gr., að því er Andakilsárvirkjunina snertir; því að sú virkjun er á því stigi, að það er aðeins verið að hefja byggingu hennar, og má segja, að hún geri hvorugt, að „eiga eða reka“ slíkt orkuver, sem um er að ræða, heldur sé verið að koma sér upp slíku orkuveri fyrir atbeina þess félags, sem að henni stendur. Því virðist okkur betra samræmi í því að orða þetta þannig, þegar miðað er við, hvernig ástatt er fyrir þessu fyrirtæki, þegar l. taka gildi, þá er réttara að orða þetta þannig í 2. lið brtt.: „eiga og reka, eða eiga í smíðum skv. 1. gr.“ Þá fellur þetta saman við ákvæði 1. gr., eins og þau eru orðuð nú. Við hv. þm. Mýr. höfum komið okkur saman um að bera fram skriflega brtt., sem hnígur í þá átt, sem ég hef nú lýst. Ég hef borið það undir hv. frsm. n. (STh), og virtist hann ekkert hafa við það að athuga, enda má segja, að þetta sé ekki efnisleg breyt., en að það falli betur saman við efni þessarar 2. gr. með því að orða þetta svo, þegar miðað er við það, hvernig framkvæmd Andakílsárvirkjunarinnar stendur á þeim tíma, þegar þessi l. taka gildi. Ég mun svo síðar afhenda hæstv. forseta þessa brtt., sem við hv. þm. Mýr. vonum, að geti orðið samkomulag um.

Ég skal nú ekki fara langt út í að ræða þetta mál eða einstakar brtt., sem hér liggja fyrir. Þær brtt., sem hér liggja fyrir, ganga aðallega í þá átt að rýmka nokkuð til og greiða fyrir framkvæmdum í raforkumálum einmitt úti um landsbyggðina, þar sem mestir erfiðleikar eru á því vegna kostnaðar að koma þessum málum í framkvæmd, auk þess sem þessar brtt. miða einnig að því, að þetta verði í rauninni að því leyti eitt og sama kerfi, og að þeir menn, sem búa við betri skilyrði til að hagnýta sér orkuna; láti nokkuð af mörkum til hinna, sem búa við erfiða aðstöðu og hafa vitanlega eins mikla þörf til að geta hagnýtt sér orkuna og þeir, sem búa nú í kaupstöðum og kauptúnum landsins eða í þéttbýlinu, eins og það er kallað, og liggja miklu betur við til að hafa not af raforkunni. Ég verð að segja það, að ég er með þessum brtt., því að þær eru mjög að mínu skapi, og ég mun þess vegna greiða þeim atkvæði og tel, að þær séu yfirleitt til mikilla bóta á því frv., sem hér liggur fyrir, og að með þeim sé stefnt í rétta átt til þess að koma á sem jafnastri hagnýtingu raforkunnar. Þó verð ég að segja, að mér finnst æðimikill munur á brtt. á þskj. 216, frá hv. þm. A.-Húnv. og brtt., sem þeir flytja 3 hv. þm., 1. þm. Árn., 1. þm. Skagf. og þm. V.-Húnv. á þskj. 232, því að þeir gera ráð fyrir því, að sá stuðningur, sem hér er um að ræða, sé miðaður við að koma þeim að haldi, sem eru utan þeirra svæða, sem ætlazt er til, að sú sameiginlega framkvæmd í þessum málum taki til. Mér finnst, að samkv. brtt. hv. þm. A.-Húnv., þá gæti það orðið til trafala og skaða fyrir þá menn, sem þar eru, ef farið væri að reisa mikið af sérstökum stöðvum, hvort sem það eru vatnsorkustöðvar eða mótorstöðvar, sem hv, frsm. n. taldi, að gætu rúmazt innan þessara till., þá gæti það orðið til þess að tefja fyrir framgangi þessa máls, þegar til framkvæmda ríkisins kæmi, því að þá væri búið að binda svo og svo mikið fé í rafstöðvum, sem reistar hafa verið fyrir einn og einn bæ. Það er hyggilegt að gera þetta á þeim grundvelli, sem hv. 1. þm. Árn. og fleiri leggja til með brtt. á þskj. 232. Mér finnst, að þeir menn, sem eru nú utan þeirra svæða, sem heildar-héraðsrafveitur verða lagðar um, eigi líka fullan rétt til þess, að það sé litið á þeirra. nauðsyn, þó að það verði að framkvæmast með, öðrum hætti en þeim, sem gert er ráð fyrir með héraðsrafveitunum. Þess vegna finnst mér líka, eðlilegt að jafnframt því, sem gert er ráð fyrir að greiða fyrir héraðsrafveitunum með sameiginlegu átaki ríkisins og viðkomandi aðila, að á þeim svæðum, sem eru þar fyrir utan, verði einnig sýnd veruleg hjálp þeim mönnum, sem þar búa, til að hagnýta sér rafmagnið skv. því, sem lagt er til í þessari brtt. Það getur vel verið rétt, sem hv. frsm. hefur bent á, að það eigi ekki heima í I. að ákveða vextina af þeim lánum, því að í heildarlöggjöfinni skilst mér, að ekki sé farið inn á það atriði, heldur að lánin skuli veitt úr raforkusjóði. Um þetta atriði skal ég ekki deila. En ég vil sem sagt leggja áherzlu á það, að jafnframt því, að heildarlöggjöf verður sett um þetta, þá sé sett inn í l. ákvæði um það,. að sýnd verði viðleitni til að hjálpa þeim mönnum, sem búa á hinum afskekktu stöðum, og greiða götu þeirra til að geta hagnýtt sér rafmagnið. Það er enn fremur hér með tvenns konar hætti létt nokkuð undir skv. þessum brtt., með því að koma upp héraðsleiðslum út um héruðin yfirleitt. Það er fyrst og fremst gert með þessum brtt., því að eins og þetta frv. ber með sér, að þar er ekki gert ráð fyrir því, ef einstakir menn eða félög standa fyrir þessum héraðsveitum, að þeir fái neinn stuðning af hálfu ríkisins til þess að koma þessu upp. En skv. till. n. er gert ráð fyrir því, að þeir fái ríkisábyrgð fyrir 2/3 hlutum af stofnkostnaðinum, og er það vitanlega allmikilsverður stuðningur í þessu efni. Hins vegar er einnig gert ráð fyrir því með tvenns konar hætti í þessum brtt. að draga úr fjárframlagi, sem krafizt yrði af héruðum, þar sem gert er ráð fyrir, að ríkið hafi á hendi framkvæmd þessara héraðsveitna. N. leggur til, að í stað þess að héruðin leggi helming fram á móti ríkissjóði, þá leggi þau ekki nema 1/3 á móti, og skv. brtt., sem hér liggur fyrir frá hv. 2. þm. Rang. og hv. þm. A.-Húnv., er gert ráð fyrir, að þetta verði 1/5 á móti framlagi ríkissjóðs. Með báðum þessum brtt. er svo mikilsvert spor stigið í þá átt að greiða götu manna úti um sveitirnar til þess, að þessum málum verði hrundið í framkvæmd einnig hjá þeim. Mér skilst þess vegna, að þær brtt., sem fyrir liggja og vafalaust ganga fram og verða samþ. hér í hv. d., stefni að meira eða minna leyti til mikilsverðra umbóta á þessu frv. frá því, sem nú var gengið frá því við 2. umr., og ganga má einnig út frá því við þessa umr., að það verði betur úr garði gert að ýmsu leyti, að því er snertir hagnýtingu rafmagnsins úti um sveitir landsins, heldur en það var, þegar það var flutt hér í hv. d. Ég held þess vegna, að með þeirri löggjöf, sem vænta má, að verði sett um þetta efni, — og mér þykir sérstök ástæða til að þakka hæstv. samgmrh. fyrir lausn þessa máls, — að segja megi, að með því hafi verið stigið giftudrjúgt spor til þess að hrinda áfram þessu mikla nauðsynjamáli okkar Íslendinga.