05.12.1945
Neðri deild: 49. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1074 í B-deild Alþingistíðinda. (1791)

60. mál, raforkulög

Jörundur Brynjólfsson:

Ég hef leyft mér ásamt 1. þm. Skagf. og þm. V.-Húnv. að bera fram brtt. á þskj. 232 og 233. Enn fremur hef ég leyft mér að bera fram brtt. við hina fyrri brtt. okkar, sem er útbýtt á þskj. 295, að þeirri brtt. stend ég einn, en hér er aðeins um viðauka að ræða. Um brtt. á þskj. 233, þar sem ræðir um, að heildsöluverð sé hið sama frá hinum ýmsu orkuverum, sem ríkið kann að reisa, ætla ég ekki að fara mörgum orðum, þar sem þetta er auðsætt sanngirnismál. Það má gera ráð fyrir, að orkuverin verði mjög misdýr, því að svo mjög eru staðhættir og aðstaða ólík á hinum ýmsu stöðum, sem til greina koma. En ég álít það bæði sanngjarnt og hyggilegt, að heildsöluverðið verði alls staðar hið sama, því að mjög verður verðið á raforkunni misjafnt af mörgum orsökum, þó að ekki sé gerður mismunur á heildsöluverðinu. Aðstaða neytenda til að fá raforku til sín er svo misjöfn, að verðið hlýtur að verða misjafnt, þó að heildsöluverðið sé það sama. Ég vil því vænta þess, að hv. þdm. geti fallizt á þessa brtt., og þó að því miður meiri hl. n. hafi ekki séð sér fært að fallast á þessa till., eftir því sem hv. frsm. segir, þá vil ég vona, að aðrir dm. geti fallizt á það, því að þar er um nauðsynjamál og sanngirnismál að ræða.

Þá er brtt. á þskj. 232, sem er við brtt. hv. þm. A.-Húnv. á þskj. 216. Ég er sammála hv. þm. A.-Húnv. um, að það sé nauðsynlegt að gera einhverjar ráðstafanir til að auðvelda þeim mönnum að fá raforku, sem hafa þannig lagaða aðstöðu, að þeir geta ekki vænzt að fá hana úr orkukerfi ríkisins eða frá þeim félögum, sem virkjað hafa, en mér finnst, að hans till. gangi of langt í þessu efni, því að eins og búið er að víkja að, þá er heimilt samkv. henni að veita stuðning til að reisa orkuver og framleiða raforku innan þeirra svæða, sem ríkið kemur fljótlega til með að leiða raforku um eða jafnvel er búið að leiða raforku um, og einnig er það leyfilegt eftir þessari tili. að styrkja mótorstöðvar. En þó að vísu, þar sem engin von væri um raforku frá vatnsafli, hvorki frá því opinbera né í gegnum félagasamtök eða einstaklinga, þar sem engin skilyrði eru. Væri æskilegt að létta mönnum möguleikana á því að fá raforku, þá held ég, að samt sem áður sé ekki varlegt enn sem komið er að opna svo upp á gátt lánsmöguleikana, og meðan við höfum ekki meira fé úr að spila en enn er, en raforkuþörfin er óleyst að heita má um allt land, þá held ég, að ekki sé þorandi að veita svo víðtæka heimild. Enn er á það að líta, að reynslan er svo stutt komin, hvernig smástöðvar gefast og hversu dýr sú framleiðsla verður, að ég held, að ekki sé vert að taka þetta strax án frekari reynslu og athugunar heldur en enn er orðið. Ég held því, að það sé í alla staði varlegast að ganga ekki lengra í þessu efni en till. okkar á þskj. 232 gefur til kynna, og ég vil vona, enda sagði hv. þm. A.-Húnv. það, að hann að sumu leyti gæti á þessa till. fallizt, og þó að hann kannske að einhverju leyti hefði kosið fremur, að hans till. yrði samþ., þá þótti mér þó vænt um, að hv. þm. A.-Húnv. lét það í ljós, að hann að mörgu leyti gæti á þessa till. okkar fallizt í þessu efni, og mér finnst ekki, að hann ætti að þurfa að láta sér miður þykja, þó að hún yrði samþ., því að eins og á stendur, tel ég, að það sé allra hluta vegna varlegast að fara þá leið.

Nú var að því fundið af hálfu hv. frsm., að í till. væru ekki nein ákvæði um það, gegn hvaða tryggingum þessi lán skyldi veita. Mér fannst nú í sjálfu sér þess ekki þörf, því að vitaskuld er það, að þó að lögð sé sú skylda á sjóðinn að veita lán, þá er það auðvitað ekki á annan hátt en þann, sem stjórn sjóðsins telur forsvaranlegt og réttmætt, hún á m: ö. o. um það að dæma, — hún á að meta þær tryggingar, sem til staðar eru, áður en lán er veitt. Það yrði þess vegna alveg á valdi hennar, en ég hef síður en svo á móti því, að þetta sé skýrt fram tekið. Þess vegna hef ég borið fram brtt., sem ég minntist á áður, á þskj. 295, að lánin skuli veita gegn þeim tryggingum, sem stj. sjóðsins metur gildar, þá er tekinn af allur vafi, hver tilætlunin er, og vil ég þá vænta, að þessi brtt. verði samþ.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða frekar um þessa till., ég tel þess ekki þörf. Það er svo einfalt mál og liggur svo ljóst fyrir, að þess gerist ekki þörf.

Þá vil ég víkja með örfáum orðum að brtt. n. á þskj. 266. Ég vil þá taka það atriði fyrst, sem er í 4. tölulið á því þskj., sem ég vil þakka hæstv. samgmrh, fyrir. Ég býst við, að það sé af hans hvötum, sem hv. iðnn. hefur fallizt á að flytja þessa till. Þar er gengið til móts við þær óskir, sem ég lét í ljós hér við 1. umr. málsins, að það mundi verða þungt undir fæti fyrir hin ýmsu byggðarlög, ef þau ættu að leggja eins mikla fjármuni fram af sinni hálfu til að fá raforku eins og í upphafi var gert ráð fyrir, en samkv. þessari till. er það mjög mikill léttir frá því, sem er í frv. nú, og þetta vil ég þakka hæstv. ráðh. fyrir. Mér skilst, að n. standi öll að þessari till,, og er gott til þess að vita, en æskilegra hefði mér þótt að heyra af vörum hv. frsm. n. meiri ánægju af hans hálfu yfir þessari till. en hann lét í ljós, en það kann að vera tiltölulega meinlaust, ef hv. frsm., sem ég efast ekki um, ætlar að fylgja till. Það er að vísu önnur till., sem gengur ofurlítið lengra, og að sjálfsögðu mun ég greiða henni atkv., en þó að hún gangi aðeins lengra, þá munar það ekki miklu frá því, sem er í þessari till., svo að frá því, sem er í frv., getur maður betur sætt sig við brtt. n. en að ekkert sé gert. Að sjálfsögðu fylgi ég till. hv. 2. þm. Rang. og þm. A.-Húnv., enda er hún nákvæmlega stíluð eftir því, sem við vorum áður búnir að tala um, þessir félagar, sem áður vorum að taka þátt í meðferð þessa máls.

Þá eru aðrar till., sem ég vil fara nokkrum orðum um. Mér þætti vænt um, að hæstv. samgmrh. mætti heyra mál mitt. Ég sé að vísu, að hann er hér, en hann er öðru að gegna, en af því ég ætla sérstaklega að beina orðum mínum til hans, þá hefði ég gjarnan viljað, að hann heyrði mál mitt. Það er við fyrstu brtt. n. Það kom ekki nærri nægilega skýrt fram, hvorki hjá hæstv. ráðh. né hv. frsm., hvað í þessari brtt. felst, þ. e. í fyrsta tölul. Eftir því sem hún hljóðar, býst ég við, að hún geti verið nokkuð rúm. Það er a. m. k. eftir því, hvernig hún er úr garði gerð, svo gersamlega fyrir mínum sjónum á huldu, hvað í henni kann að felast. Það gæti jafnvel þýtt það um langa stund, að það höfuðákvæði þessa máls, sem er í þessu frv., um rétt ríkisins eins til að virkja stórar virkjanir, yrði gert að litlu. Í þessari brtt. segir, að við gildistöku þessara l. sé þeim, sem eiga og reka eða eiga í smíðum raforkuver, sem eru stærri en 100 hestöfl, heimilt að reka þau áfram og ráðherra heimilt að leyfa aukningu á þessum raforkuverum allt að fullri fyrirhugaðri virkjun, enda sendi eigendur þeirra greinargerð um framkvæmd verksins innan sex mánaða frá gildistöku l. og setji ráðh., þau skilyrði fyrir slíkum leyfum, sem hann telur nauðsynleg, að fenginni umsögn raforkumálastjóra.

Hv. frsm. vék að því, hvað í þessu kynni að felast. Hann nefndi sem dæmi virkjunina við Laxá, að þar er hægt út frá þeirri stíflu, sem nú er til staðar, að bæta einni pípu við. Mér er ekki alveg kunnugt, hvað hún er stór, en ef í þessu felst ekkert frekar, þá má segja, að hér sé um takmörkun að ræða. En svo nefndi hann annað dæmi, eimtúrbínustöðina, sem Reykjavík hefur í huga að byggja, sem mundi falla undir þetta ákvæði. Væri þar ekki heldur um frekara að ræða, þá má segja, að þarna komi skýrt fram, hvað í þessu felst, en mér skilst, að í þessu orðalagi, úr því þetta er ekki beint tekið fram, þá gæti falizt, miklu fleira. Er þá fyrst á það að benda, að í upphafi 3. málsgr. segir, að við gildistöku 1. sé þeim, sem eiga og reka eða eiga í smíðum raforkuver, leyfilegt að stækka orkuver sín, að vísu með leyfi ráðherra, upp í fyrirhugaða stærð, en um það er vitaskuld enginn stafur og heldur engar upplýsingar, hver sú fyrirhugaða stærð sé. Ef þetta hefði komið þannig fram, að það hefði verið einskorðað við eitthvað víst, þá mátti segja, að maður vissi, að hverju væri verið að ganga þarna, en mér skilst, að þessi stækkun byggist fyrst og fremst á því, hvað hún geti orðið, hún byggist fyrst og fremst á fyrirætlunum þeirra manna, sem eiga raforkuverið, þeir þurfi aðeins að skila áætlunum og teikningum til ráðh. innan þessara sex mánaða. M. ö. o., ég get ekki betur séð en að þetta ákvæði sé svo rúmt, að það sé undir geðþótta þeirra manna, sem eiga og reka raforkuver, hvað þeir ætlast mikið fyrir um stækkun á þessum raforkuverum sínum og þá, hvað ríkið kann að fallast á, gersamlega án tillits til alls annars, hvað kann bezt að henta í þessu efni. Ég verð að segja, að það getur a. m. k. farið svo, að langa stund verði heldur lítið gagn að þeim einkarétti, sem ríkið áskilur sér um raforkuframleiðslu, ef þetta er framkvæmt eftir óskum þeirra manna, sem hafa stórt í huga í þessu efni, að koma á virkjunum og gera áætlanir og senda teikningar innan þess tíma, sem þar er tilskilinn. Ég verð að segja, að hvað sem svo öllu öðru líður, þá finnst mér, að þarna sé afskaplega óvarlega farið. Nú vil ég ekki að óreyndu vantreysta hæstv. samgmrh., sem nú er, en ég verð að segja, að ef fullnægt er ákvæðum gr. af hálfu þeirra, sem hafa huga á því að stækka stórkostlega orkuver sín, sem þeir eiga fyrir, þá mundi það verða erfitt fyrir hæstv. ráðh. að standa á móti þeim óskum. Það hefur verið talað um virkjun Sogsins, að virkja það til fulls, það er hvorki meira né minna en rúm 100 þús. hestöfl í Soginu. Ef Reykjavíkurbær hefði hug á að fullvirkja Sogið og kæmi fram með áætlanir og teikningar yfir þessa virkjun og kapp lagt á það, — það kann líka vel að vera mikill undirbúningur og kannske langt kominn, — þá mundi skilyrðunum fyrir þessu vera fullnægt. Og ef Reykjavíkurbær fengi þennan rétt sér til handa um fulla virkjun Sogsins, þá mundi ekki á því svæði a. m. k. vera í annað hús að venda en til Reykjavíkurbæjar um orku frá þessari miklu virkjun. Ég tel enga þörf á þessu fyrst og fremst og heldur alls ekki rétt, að svona verði með þessi mál farið.

Þegar þetta frv. var fyrst flutt hér inn í þingið, drap hæstv. samgmrh. á það í ræðu, að hyggilegt kynni að vera að hafa heimildina nokkru rýmri en upphaflega var gert ráð fyrir, sem sé 500 hestöfl, og lét einu sinni orð falla, að jafnvel gæti verið hyggilegt að hafa heimild fyrir 2 þús. hestafla orkuver, án þess að heimild ríkisins kæmi þar til. Þetta læt ég vera, því að þetta gæti undir sumum kringumstæðum komið sér vel, og því ekki um það að fást, þó að heimildin sé til. Ég tel reyndar, að heldur yrði það að meini, en þar yrði maður þó að treysta ráðh. En sú till., sem n. flytur um þetta efni og ég heyrði ekkert um, fyrr en hún kom fram, tel ég, að sé alveg fráleit, af því að mér finnst, að með þessu móti fengju þeir, sem komnir eru af stað með virkjanir, lítt takmarkaðan rétt til að halda áfram að stækka þær og færa þær út eftir vild fyrir utan það, sem ríkið gerir sjálft, og það tel ég rýra frv. ekki lítið, ef slíkt nær fram að ganga. En ef ekki er unnt að leggja þessa skýringu í brtt., þá óska ég, að hæstv. ráðh. láti í ljós sinn skilning á þessu ákvæði og hvað undir það geti fallið. Þá vil ég einnig gjarnan heyra frá hv. frsm., hvernig hann skoðar þetta ákvæði, því að hér er um svo stórvægilegt atriði að ræða, ef þessi rýmkun er svo skýlaus, að hún er aðeins bundin við, hvað þeir, sem vilja koma upp orkuverum, ætla sér og treysta sér til í framtíðinni, svo að þeir geti staðið fyrir utan í bráð og lengd og staðið þannig bezt að vígi eins og Reykjavík, sem hefur ekki fengið þá aðstöðu fyrir sjálfa sig, heldur fyrir atbeina ríkis og stj. Ef á að sleppa slíkum aðilum úr og þeir aldrei að koma inn í langt fram í framtíðina, þá tel ég þetta mál stórgallað, stórkostlega limlest og svo gersamlega horfið frá því, sem hefur fyrir langflestum mönnum vakað, hélt ég vera, a. m. k. 1942, að það sé alls ekki viðunandi.

Ég mun svo ekki fjölyrða meira um þetta. Það er í mínum augum algerlega einskis vert, hvaða augum forstöðumaður Reykjavíkurbæjar í þessum málum, rafmagnsstjórinn í Reykjavík, kann að líta á þetta mál út frá því sjónarmiði, sem hann telur kannske bænum henta bezt, enda gat hæstv. ráðh. meira um hans skoðun sem sýnishorn af því, hvað menn litu á þetta misjöfnum augum, heldur en sem sína skoðun, og þykir mér vænt um það.

Mér þykir mjög raunalegt, ef við Íslendingar ætlum að afgr. þetta mál frá þinginu á þann hátt, sem hefur gefizt lakast erlendis og menningarþjóðirnar hafa gert mest til að laga hjá sér og reynt að tryggja sig og þegna sína fyrir, að endurtæki sig, því alls staðar þar, sem einstaklingar, einstök félög eða bæjarfélög hafa verið látin annast þessi mál, hefur það fyrirkomulag reynzt stórgallað og óhjákvæmilegt orðið að bæta úr því, sem aflaga hefur farið.

Nú er talað mikið um nýsköpun og að við eigum að taka við því, sem til umbóta horfir, og er ég sannarlega með því, að við eigum að færa okkur í nyt reynslu annarra þjóða í öllu, sem bezt hefur gefizt. En þá held ég, að við eigum ekki sízt að gera það í því máli, sem er eitt langþýðingarmesta málið hjá okkur, en einmitt í þessu máli sannar reynsla annarra þjóða ótvírætt, að þessum framkvæmdum er langbezt borgið í höndum ríkisvaldsins. Ég vil því vona, að hv. d. gangi svo frá þessu atriði, sem ég hef nú gert að umtalsefni, að það leiki alls ekki á tveimur tungum, hvað í þessari brtt. felst, og það sé gersamlega skýrt afmarkað, hvað mikið af þessum framkvæmdum verði undanþegið einkaleyfi ríkisins.

Að lokum vil ég svo segja það, að ég ber í sjálfu sér gott traust til hæstv. núv. ráðh., svo að ég vona, að fyrir honum hafi ekki vakað neitt svipað því, sem mér finnst hægt að skilja þessa till. En þó að hann kannske vilji túlka þetta þröngt og hafa það skýrt afmarkað, þá gæti komið annar maður, sem vildi leggja annan skilning í þessi ákvæði. Við verðum að hafa það hugfast, að við erum allir dauðlegir og enginn veit fyrir sitt endadægur. Nú er síður en svo, að ég sé að óska eftir neinu, sem gæti orðið þessum hæstv. ráðh. að fjörlesti, ekkert er fjær mér, en ef svona stór framkvæmd á að byggjast á varúð viðkomandi ráðh. og hans persónulegu skoðun, þá er ekki nógu vel frá löggjöfinni gengið. Slíkar framkvæmdir sem þessar verða að byggjast á skýrum lagabókstaf, svo að menn með öðru hugarfari og geðþótta geti ekki unnið stórkostleg skemmdarverk þjóðinni til óþurftar í bráð og lengd.