14.12.1945
Efri deild: 49. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1088 í B-deild Alþingistíðinda. (1812)

60. mál, raforkulög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þetta er eitt af hinum stóru málum, sem liggja fyrir þinginu, og ekki þess að vænta, að það sé í fljótu bragði hægt að átta sig nægilega vel á því.

Ég vil í sambandi við þessar umr. leyfa mér að benda á, að iðnn. Nd. hefur ekki haft neina samvinnu við iðnn. þessarar d. um þetta mál, og kann vel að vera, að það tefji þó nokkuð fyrir málinu, vegna þess að n. hefur ekki haft þess nokkurn kost að kynna sér málið og meðferð þess í Nd. Í sambandi við það vildi ég leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. í fyrsta lagi, hvort hann er algerlega sammála þeim ákvæðum, sem nú eru í frv. Mér skilst það reyndar á hans orðum, að hann sé sammála þeim ákvæðum, sem eru í frv. nú, og svo hitt atriðið, hvort undir hann hafi verið borinn hinn mikli sægur af till., sem liggur fyrir á ýmsum þskj. í þessu máli. Ég hef ekki haft tækifæri til að bera saman, hvað mikið hefur verið fellt og hvað samþ., en það gæti létt nokkuð starf n. að fá það upplýst.

Hins vegar vil ég á þessi stigi leyfa mér að benda á, hvort raunverulega sé þörf á 3. kafla, ef 4. kafli er samþ., eða á 4. kafla, ef 3. kafli er samþ. Mér skilst, að 3. kafli fari inn á það, að héruðin geti staðið sjálf undir þessu með 85%, það sé meginatriðið, með ábyrgð ríkissjóðs, en 4. kafli fer fram á, að ríkissjóður leggi fram óendurkræft framlag 1/3, og ég vil þá spyrja, hvort ekki væri rétt að samræma þetta í einn kafla, svo að það sé tekin bein stefna um annað hvort, ákveðin stefna, að annaðhvort skuli héruðin hafa það með ábyrgð ríkissjóðs eða að ríkissjóður geri það sjálfur, eins og stendur í 4. kafla. Mér skilst, að ef farið er inn á þessa stefnu hér, eins og í 27. gr., þá geti orðið deila um það á hverju einasta þingi, hvað mikinn styrk skuli veita úr ríkissjóði til þessara framkvæmda. Við þekkjum það um kröfur úr ríkissjóði til vega og hafna og annarra framkvæmda, og það verður ekki sótt minna á um þessi atriði. Ber þá að athuga, hvort ríkissjóður geti staðið undir þessu á almennum rekstrarútgjöldum og hvort ekki þarf að gera sérstaklega ráð fyrir að afla fjár til þeirra útgjalda. Hér er ekki einasta um það að ræða, að þörfin sé knýjandi um allar sveitir landsins, heldur mun koma ofan á það hrein og bein réttlætiskrafa og krafizt svo og svo mikils til raforkumála í hverri sýslu, eins og gert er um vegi og brýr og aðrar framkvæmdir þess opinbera.

Annars fer ég ekki að tala fleira um þetta mál nú. Málið á að fara til iðnn., þar sem ég á sæti, og mun ég taka það þar til athugunar, svo fljótt sem kostur er á.