14.12.1945
Efri deild: 49. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1089 í B-deild Alþingistíðinda. (1813)

60. mál, raforkulög

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Hv. þm. Barð. spurðist fyrir um það, hvort ég væri samþykkur frv. eins og það lægi nú fyrir. Ég get sagt um það atriði, að ég var samþykkur því í upphafi, að ríkissjóður legði til héraðsrafveitna eins og þar var ætlazt til, eða í mesta lagi 1/3 í frumfrv. Svo hækkaði þetta í meðferðinni upp í 3/4. Ég geri engan ágreining út úr því og mun sem sagt alveg sætta mig við það.

Brtt. hafa verið bornar fram og samþ. margar, það er alveg rétt, en yfirleitt var ekki samkomulag í Nd. um aðrar till. en þær, sem iðnn. tók þá upp í einhverju formi, hún sem sagt gerði þá að sínum þær till., sem hún vildi aðhyllast, og yfirleitt voru þær samþ., en hinar ekki. Það er alltaf viðleitni í svona málum að teygja ríkissjóðsframlagið sem allra lengst, en ég tel, að hér sé teygt á því nokkurn veginn eins og hægt er og það sé tæplega hægt meira en frv. gerir ráð fyrir.

Út af 3. og 4. kafla skal ég aðeins segja, að 3. kafli frv. á við þær rafveitur, sem gert er ráð fyrir, að standi undir sér sjálfar án alls framlags úr ríkissjóði. Héraðsrafveitur skiptast í tvennt, annars vegar þær, sem geta staðið undir sér alveg sjálfar, þar sem eru þéttbýl bæjarfélög, sem eiga þessar héraðsrafveitur og geta borið uppi kostnaðinn sjálfar með hæfilegum raforkugjöldum, og í þann flokk koma þær innanhéraðsrafveitur, sem ekki þurfa aðra aðstoð en ríkisábyrgð fyrir þær að einhverjum hluta stofnkostnaðarins, en geta að öðru leyti borið uppi allan kostnað sjálfar. Þessar rafveitur er gert ráð fyrir, að viðkomandi bæjar- og sveitarfélög eigi og reki og sjái um sjálfar að öllu öðru leyti en því, að ríkissjóður aðstoði héruðin við lántökur með því að ábyrgjast þennan hluta stofnkostnaðarins, en leggi hins vegar ekkert fram.

Svo er það hinn flokkurinn, 4. kafli frv. Þar eru þær rafveitur, sem þannig eru í sveit settar, að þess er ekki að vænta, að tekjur af rafmagnsgjöldum á viðkomandi svæði gefi nægilega stóra upphæð til að standa undir vöxtum og afborgunum af stofnkostnaði. Um það hefur verið gerður sérstakur kafli og gert ráð fyrir, að ríkissjóður hafi umsjón með þeim svæðum og annist reksturinn þar. Það er algerlega ógerlegt að slengja þessu tvennu saman í einn kafla, því að þetta er sitt hvors eðlis, annars vegar fyrirtæki, sem eru fjárhagslega sjálfstæð og hægt að reka áfram án styrks frá ríkinu, og hins vegar fyrirtæki, sem eru styrksþurfi og þess vegna verða að heyra undir ríkið, og ríkissjóður verður því að leggja fé til þess. Ég held því, að það sé rétt athugun og rétt hugsun, sem liggur til grundvallar fyrir því, að frv. skilur þarna alveg á milli.

Ég veit, að það er rétt, sem hv. þm. segir, að það kemur fram mikil ásókn úr ýmsum héruðum að veita fé þangað eins og til vega, hafna og brúa og ýmiss konar þess háttar hluta. En umfram allt vildi ég þó undirstrika það, að hreppapólitík væri sem allra minnst inn í þessar framkvæmdir sett, því að þessar framkvæmdir líða mest af öllum framkvæmdum við það, ef héraðapólitík er blandað inn í þessi mál. Þessar framkvæmdir þurfa fyrst og fremst af öllum framkvæmdum, sem ríkissjóður hefur með að gera af opinberum framkvæmdum, að verða reknar eftir einhverju skynsamlegu plani og með hliðsjón alls rekstrarins fyrir augum. Getur það vitaskuld orðið til þess, að eitt hérað verði að biða lengur en annað, en við því er ekkert að segja. Þetta er hægt, ef það liggur fyrir, hvernig hagkvæmast og heppilegast muni vera að haga framkvæmdum heildaráætlunarinnar, hvar eigi að byrja, hvernig eigi að halda áfram o. s. frv. og hvar eigi að enda. Þetta allt er hægt að setja upp á pappír og sýna fram á, hvernig þessi leið verði bezt og aðrar koma varla til greina. Þess vegna væri það eitt það versta, sem hægt væri að gera í þessu máli að mínu áliti, ef ætti að afgr. þetta mál eingöngu með hliðsjón af því, hvaða óskir koma fram, eða m. ö. o. afgr. málið eftir hreppapólitík, en það vil ég vona í lengstu lög, að ekki þurfi til að koma í þessu máli.