27.02.1946
Efri deild: 73. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í B-deild Alþingistíðinda. (1820)

60. mál, raforkulög

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Hv. iðnn. hefur skilað áliti sínu, og það gefur mér ekki tilefni til mikilla umræðna, því að hún leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, og er ég ánægður með það. Ég get verið hæstv. frsm. sammála um, að ýmsum atriðum mætti breyta og gera betur. En það er ekkert einsdæmi með þetta frv., aðalatriðið er, að ríkisstj. fái heimild til að halda áfram með framkvæmdir í þessum málum, sem hafizt hefur verið handa um. Háværar kröfur hafa komið frá almenningi, sem hafa valdið því, að málinu var hraðað meira en ella hefði verið gert. Þessi ástæða hefur líka orðið til þess að breyta eða hafa áhrif á afstöðu mína og annarra. Ég er með því, að raforkuverin verði skipulögð sem mest í einni heild og ríkið hafi með þau að gera, en það getur tafið, ef farið er of ýtarlega út í þetta, að engir nema ríkið megi hafa með þetta að gera, þótt æskilegt sé, að ríkið hefði sem mest með þetta að gera. Hv. þm. Barð., frsm. iðnn., hefur farið nokkrum orðum um frv. og greinar þess og beint til mín nokkrum fyrirspurnum, og enda þótt brtt. liggi nú ekki fyrir, geta þessar umræður orðið grundvöllur til gagngerðra endurbóta á frv. Vil ég því leitast við að svara því, sem hv. þm. spurði um. Hann byrjaði á því að spyrja, hvort ég teldi, að 1. mgr. 1. gr. þýddi, að ríkið eitt skuli byggja raforkuver tig bjóða þau ekki út. Ég hef skilið þetta svo, að ríkið láti gera petta, en engu slegið föstu um form framkvæmdanna.

Þá ræddi hv. þm. um undantekningarákvæði 1. gr. frá því, að ríkið reki raforkuver eitt. Það er rétt, að þarna er um nokkurn tvískinnung að ræða, en hann stafar af því, að ekki þótti rétt að setja fótinn fyrir neina þá viðleitni, sem bætt getur úr hinni brýnu þörf. Ég geri ráð fyrir, að það verði einkum bæjar- og sveitarfélög, sem þarna eiga hlut að máli, og þessar framkvæmdir geti fallið inn í heildarkerfið síðar.

Um 2. gr. taldi frsm., að mjög orkaði tvímælis ákvæðið um 100 hestöfl. En mér skilst, að það sé í samræmi við ákvæði í 1. gr., þar sem ræðir um II. kafla frv. — Umsögn hv. þm. um það, að rafveiturnar eigi að vera fjárhagslega sjálfstæðar, er ég sammála að verulegu leyti. Í frv. er gert ráð fyrir, að áætlun sé gerð og ekki farið út í veitur, sem ekki eru líkur til, að geti borið sig. En þá er miðað við, að veiturnar beri sig, eftir að þær eru komnar á fót, þótt leggja hafi þurft fram fé í stofnkostnað, eða a. m. k. til að lækka hann verulega. Mun ég koma að þessu nánar síðar í sambandi við IV. kafla frv.

Viðvíkjandi 5. gr. taldi hv. frsm., að gefa ætti raforkuráði meira vald en gert er. Ég get raunar fallizt á þetta, og yfirleitt tel ég, að athuga þyrfti þann kafla nánar. Samkv. frv. er raforkuráð nánast ráðgefandi. Það mætti fá meira vald að mínum dómi; og er auðvelt að breyta því síðar, þótt ég telji ekki rétt að gera það nú. Mér þykir eðlilegt, að svo stórt fyrirtæki hefði stjórn, sem stæði yfir raforkumálastjóra, en hann stæði ekki beint undir ráðh., eins og frv. gerir ráð fyrir. Þá ræddi hv. frsm. um þann tvískinnung, sem væri í 7. gr., þar sem ýmsum virkjunum er leyft að selja raforku í heildsölu. En þetta kemur af því, að nauðsynlegt þótti að flýta fyrir framkvæmdum á þessum stöðum.

Viðvíkjandi 8. gr. frv. þótti hv. frsm. það óeðlilegt, að kostnaður við rannsóknir skuli greiðast úr ríkissjóði eða raforkusjóði. Nú er það svo, að ríkissjóður getur seinkað verkinu eða flýtt því með framlögum í fjárl., og ég tel ekki óeðlilegt, að raforkusjóður geti einnig haft áhrif á slíkar framkvæmdir og rannsóknir með fjárframlögum. Mér þætti miður, ef þessu væri breytt.

11. gr. sagði hv. frsm., að betra hefði verið að orða þannig, að gjöldin til rafveitnanna skuli standa undir öllum kostnaði að viðbættum 10%. Um þetta atriði er þó eitt að segja til viðbótar. En það er, að fyrirtækið getur í rauninni haft möguleika til að vera fjárhagslega sjálfstætt, þótt tap sé á því fyrstu árin. Mönnum lærist smátt og smátt að nota rafmagnið, og það er raunar fyrst á 4.–5. ári, sem hægt er að sjá fyrir víst, hversu veiturnar muni bera sig, enda hefur það verið svo með margar veitur, sem hafa sýnt sig að geta borið sig, að þær hafa sýnt tap í fyrstu, en bætt hag sinn, er frá leið. Þá get ég vel fallizt á athugasemdir hv. frsm. víð 18. gr. um hæpið orðalag, og ætti að mega ráða bót á því.

Aðalathugasemdir hv. frsm. voru þó við IV. kafla frv., sem hann taldi, að mætti fella niður eða sameina öðrum köflum frv. Þetta er kannske hægt, en ég tel rétt, að kaflinn haldi sér. Ég vænti, að ekki þurfi að skýra það fyrir hv. þdm., að aðrar reglur hljóta að verða að gilda þar, sem orkan er seld í smásölu, en þar, sem hún er seld í stórum stíl. Rafveitur ríkisins eiga einungis að taka orkuna og selja hana í heildsölu til aðila á hverjum stað, sem síðan sjá um dreifingu hennar. Ef enginn slíkur aðili er til, leiðir það af sjálfu sér, að ríkið verður að taka þetta að sér, en um þetta fjallar IV. kafli. Einkum skildist mér, að ákvæði 27. gr. væri þyrnir í augum hv. þm. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Gegn óendurkræfu og vaxtalausu framlagi ríkissjóðs til héraðsrafveitu ríkisins skal ávallt koma óendurkræft og vaxtalaust framlag úr héraði, er að upphæð nemi minnst 1/3 af framlagi ríkissjóðs“ o. s. frv. — Þetta taldi hann hróplegt ranglæti, þar sem hinir verr settu væru látnir bæta aðstöðuna fyrir þá, sem betur væru settir. En ég lít svo á, að einmitt þetta eina ákvæði geri það mögulegt, að sveitirnar fái rafmagn, og ég ætla, að með þessu fyrirkomulagi séu hinar dreifðu byggðir ekki frekar gefendur en þiggjendur.

Ég skal svo ekki hafa mörg fleiri orð hér um. Ég er þakklátur hv. frsm. og n. fyrir að leggja til, að frv. skuli samþ. óbreytt. Eins og hv. frsm. gat um, liggur nú fyrir þinginu fjöldi af till. um ýmiss konar aðstoð við rafveituframkvæmdir. En æskilegast væri, að þetta frv. næði samþykki svo fljótt, að það gæti leyst öll þessi mál í einu.