14.03.1946
Efri deild: 84. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í B-deild Alþingistíðinda. (1833)

60. mál, raforkulög

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það er ánægjulegt að heyra hin vinsamlegu ummæli hv. þm. S.-Þ. um þetta mál, þegar litið er á afstöðu flokksbræðra hans gegn þessu. Þetta mál var tekið upp árið 1929 af form. Sjálfstfl., og hefði það fengið fyrr framgang, ef Framsfl. hefði ekki sýnt því andstöðu eða þá kulda og afskiptaleysi. Ég á hér tvær brtt., og er sú fyrri um það, að alls staðar þar, sem talað er um „rafveitur“, rafveitustjóra“ o. þ. h., komi : rafmagnsveitur, rafmagnsveitustjóri og tilsvarandi orð. Þegar maður les frv., kemur í ljós, að mjög skortir á, að samræmi sé í orðalagi: Þetta heitir frv. til raforkulaga, en svo er víðast talað um rafveitur eða rafmagn, og svo rafveitustjóra. Eftir því ætti að veita rafi um landið, sem er auðvitað tóm vitleysa, en þetta mun stafa af fyrri málvenjum, sem auðvitað nær engri átt að taka upp í þetta frv., og vænti ég, að hv. n. athugi þetta og leiðrétti. Raunar ætti að nægja, að forseti úrskurðaði, að skrifstofan skuli lagfæra þetta, þar sem um er að ræða augljósa lagfæringu á máli. Önnur till. er aftur á móti efnisbreyting, þar sem lagt er til, að raforkuráð sé skipað öðruvísi en gert er ráð fyrir í frv. eða samkv. till. n. Eftir minni till. á raforkuráð að vera rétt mynd af vilja Alþ. eins og það er skipað á hverjum tíma. N. leggur til, að þingið kjósi 4 menn í raforkuráð, en ráðh. skipi hinn fimmta, og sé hann formaður. En úr því að þingið á að eiga hér hlut að, þá sýnist mér réttast og eðlilegast, að það kjósi alla þessa menn.

Það hefur verið sá háttur nú um skeið, að leitazt hefur verið við að draga úr valdi Alþ. í ýmsum málum, þótt um margt hafi nú fengizt leiðrétting, svo sem um skipun útvarpsráðs. Það sætti á sínum tíma nokkurri gagnrýni, en síðan Alþ. réð skipan þess, hefur tekizt svo vel, að völd þess þykja nú ekki nóg. Ég hef áður bent á það, að samkv. frv. hefur raforkuráð nánast engin völd, og get ég fallizt á það, ef það er skipað eins og þar er ætlað, en sé það réttlátlega skipað, tel ég, að það megi fá meiri völd.

Ég vil láta það álit mitt í ljós, að ég tel brtt. hv. n. til ills eins og kýs fremur, að frv. verði samþ. óbreytt, en skal ekki að öðru leyti fjölyrða um einstök atriði málsins. Hins vegar get ég ekki verið samþykkur hv. þm. Barð. um það, að þótt þetta sé gott mál, þá þurfi að flýta því svo mjög, að ekki megi leiðrétta það, sem miður fer. Ég álít, að það varði hér mestu sem í öðrum málum, að undirstaðan rétt sé fundin, og ég hygg, að hv. n. hafi ekki athugað þetta mál eins vel og æskilegt hefði verið. Hins vegar hef ég ekki kynnt mér málið svo til hlítar, að ég sé tilbúinn að leggja fram brtt. nú þegar, en ég tel, að hv. n. hefði átt að vísa málinu frá að svo stöddu og láta það fá betri undirbúning.