14.03.1946
Efri deild: 84. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í B-deild Alþingistíðinda. (1834)

60. mál, raforkulög

Jónas Jónsson:

Það hefur komið í ljós, að hv. 6. þm. Reykv. hefur verið of upptekinn af vísindastörfum til þess, að hann geti fylgzt svo með gangi þingmála sem æskilegt hefði verið. Ég veit, að þessi hv. þm., sem hefur skrifað sögu Alþ., skilur þann mun, sem er á Garðari Svavarssyni og þeim Ingólfi og Hjörleifi. Þegar Garðar kom hér fyrst, var ekki tími til kominn, að landið yrði byggt, en hins vegar var sá tími kominn, þegar þeir Ingólfur og Hjörleifur komu. Þannig var það, að 1929 var enginn grundvöllur fyrir því að koma á stórfelldum rafmagnsvirkjunum. Þá var hér einungis rafmagn frá Elliðaánum. Mætti hv. 6. þm. Reykv. muna frásögn Eldeyjar-Hjalta í bók hans um þá mótspyrnu, sem Sogsvirkjunin sætti á sínum tíma. Framsfl. studdi þá Eldeyjar-Hjalta og kom fram málinu. Einnig má benda á það, að ekki fékkst nægilegt fjármagn til að kaupa efni til hitaveitunnar fyrir stríð. Það stafaði ekki af ódugnaði Reykjavíkurbæjar, heldur af því, að sá andi, sem skyldi tryggja málinu framgang, var ekki fyrir hendi.

Mér þykir rétt að benda á þessi atriði, úr því að minnzt var á sögu þessa máls. Sannleikurinn er sá, að 1929 var ekki grundvöllur fyrir þessu máli. Reykjavík var ekki tilbúin. Þannig var því einnig háttað um frv. það, sem ég flutti 1925 um aðstoð við byggingar í sveitum. Þá náði það ekki fram að ganga, en 1927 kom ég því fram. Af þessu er ljóst, að í þessu máli er ekki Framsfl. um að saka, heldur er það tímanna rás, sem hér skiptir sköpum.