12.11.1945
Neðri deild: 30. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í B-deild Alþingistíðinda. (1864)

81. mál, embættisbústaðir héraðsdómara

Flm. (Gísli Sveinsson) :

Herra forseti. Hæstv. ráðh. hefur gert grein fyrir afstöðu sinni, þar á meðal að nokkru leyti, að því er mér skilst, ekki fullnægjandi fyrir því, hvers vegna hann vildi ekki skerast í þetta mál sjálfur sem eins konar vörður bæði laga og réttar og einnig þessarar starfsgreinar, og ekki sízt með það fyrir augum, að hann hefur tekið sér fyrir hendur að lofa, að hæstiréttur fengi inni á einhverjum hæfilegum stað í hæfilegu húsi í Reykjavík, þó ekki með þeim hætti, sem hæstiréttur út af fyrir sig mundi telja fulla lausn á húsnæðisvandamáli hæstaréttar lýðveldisins Íslands. En hann taldi sér ekki fært að fara inn á þetta. Nú er ég ekki að sakast um það, og það því síður þar sem tilraun sú hefur staðið nokkuð lengi, þessi tilraun að fá ríkisvaldið til að skerast í þennan leik, og það var fullnægjandi ástæða til þess og það var út í hött mælt hjá hæstv. ráðh., að ég hefði átt að koma fram með þetta fyrr. Það er hvort tveggja, að ég er það siðsamari við ríkisstj. að vilja unna þeim að bera fram það mál, sem þeim var skylt að bera fram, og eins hitt, að ég held því fast fram, að ríkisstj. sé skyldug að standa við slík mál. En úr þessu má bæta með því að taka upp opinberan stuðning til framgangs málinu, og efast ég ekki um, að ríkisstj. geri það þannig, að við megi hlíta hennar forustu í því, og er þá tilganginum náð, því að stundum verður tilganginum ekki náð fyrr en eftir langa mæðu. Um þetta mál má segja, að það er ekki fyrr en nú, að tímabært er, að það komi fram í dagsljósið, þó að það hafi verið áhugamál og réttilega séð af mörgum manni, að það þyrfti að komast áfram. Hins vegar er það svo, eins og hæstv. ráðh. veit, að ég sem embættismaður, þó að ég eigi allmikinn hlut að þjóðmálum, hef verið ófús á að bera fram málefni, sem væri þannig einstaklingslegt, að segja mætti, að þessi embættismaður væri í rauninni að afla sér bústaðar. Fyrst nú þessi félagsskapur þessarar stéttar er kominn í það horf, að hann leyfir sér að koma fram fyrir hönd stéttarinnar og í hennar nafni ber fram þetta mál, er nokkuð öðru máli að gegna. Svo að til þessa eru þær eðlilegu ástæður og þær eru pólitískt siðsamar.

Hæstv. ráðh. gat þess, að þetta væri tvenns konar vandamál, og það má vitanlega segja, þó að það sé ekki mjög áberandi. Það er enginn vafi á því, að mínum dómi og starfsbræðra minna, að það á að binda saman þetta, sem hann hefur skilið í tvennt og má skilja í tvennt, þetta með embættisgögnin hér í Reykjavík. En alls staðar annars staðar er málið þannig, að full nauðsyn er á, enda sjálfsögð skylda ríkisvaldsins að sjá embættum og embættismönnum fyrir fullnægjandi híbýlum. Því að hvernig á embættismaður, sem vitanlega rekur embættið hverju sinni, að starfrækja embættið án þess að hafa nothæft skýli fyrir sig? Það er sannarlega ekki hægt að hugsa sér, enda fer það sjálfsagt vel saman og er hagkvæmt að byggja hús úti um landið allt, í kaupstöðum, kauptúnum og í sveitum, yfir þessa embættismenn í einu lagi, það er hagkvæmt og sjálfsagt, en í Reykjavík má skilja þetta sundur. Þegar bæjarfógetaembættið í Reykjavík var í fullum gangi, sem núverandi embætti klofnuðu úr, þá var þetta í sameiningu, skrifstofur allajafna í húsi því, sem embættismaðurinn bjó í, svo að hér er ekki langan veg að rekja. Þetta getur, vel farið saman, að byggja á einum eða öðrum stað fyrir embættisskjöl og skilríki og embættismanninn. Þetta má hins vegar aðskilja í einstaka tilfellum, en að aðgreina það hér, er ekki full nauðsyn. Það er framkvæmdaatriði, sem kemur nú ekki til, því að hvar sem það kæmi til, væri það brot út úr reglunni.

Ég vil þakka hæstv. ráðh., því eins og ég bjóst við, tók hann vel í efni málsins, þó að hann reyndar með sérstöku útflúri segði, að þetta væri svona og svona. Það lagast allt við sameiginlega meðferð. Ég skal ekkert sýta í það. En nú er að hefjast handa, ef menn eru sammála og þingmeirihl. er fyrir hendi, því að enginn getur neitað því, að full nauðsyn er fyrir framgangi málsins.

Þá vil ég aðeins minnast á 3. gr. Hæstv. ráðh. sagði, að orðalagi hennar væri svo hagað, að ef ekki væri samþ. þetta ákvæði, þá væri til almennt ákvæði um þetta, sem sé mat samkv. launal. á íbúðum eða leigu þessara embættismanna. Í fyrsta lagi er það engin goðgá, þó að eitthvað sérstakt gildi um þessa menn, því að þetta eru sérstæð embætti, og í annan stað er hér ekki um neinn eðlismun að ræða, því að eins og hæstv. ráðh. veit, er í launal. ákveðið í meginatriðum, hvað leigan er metin af skattan. og gæti hún því orðið lág með því að vera undir mati skattan. Ég held þetta sé mikið á valdi ráðh., sem er yfirboðari þessara manna, og við hann er að eiga einnig um það, hvaða ákvörðun hann vill setja um þetta. En þessu atriði geri ég ekkert sérstakt úr, það fer eftir því, sem henta þykir, hvort þessu ákvæði verður sleppt að einhverju leyti. Ætti það þá að falla, án þess að þyrfti að taka það fram.

Að svo mæltu vil ég vænta, að þetta mál gangi greiðlega í gegn, því að þetta er mikið nauðsynjamál og þarf að komast í hæfilega höfn þegar á þessu þingi.