12.11.1945
Neðri deild: 30. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1120 í B-deild Alþingistíðinda. (1865)

81. mál, embættisbústaðir héraðsdómara

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Það er aðeins aths. út af því, sem hv. 10. landsk. sagði viðvíkjandi byggingunni yfir hæstarétt. Ég get lýst því yfir, að hún er gerð í fullu samkomulagi við núverandi hæstaréttardómara, en til hve langs tíma sú úrbót nægir, get ég ekki sagt og ekki heldur hv. 10. landsk., en núverandi hæstaréttardómarar eru ánægðir með þá úrlausn, sem málið hefur fengið hjá ríkisstj. Þess vegna er ekki rétt að tala um, að dómararnir séu á einhverri annarri skoðun en stj. um þetta.

Hv. 10. landsk. segir, að ég hafi ekki gert fullnægjandi grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. Mætti ég þá svara því, að ég vildi geyma mér nokkuð að svara þangað til þær ríkisstj., sem setið hafa í embættistíð þessa hv. þm., eru búnar að gera grein fyrir sinni afstöðu til málsins. Enn fremur þangað til hv. 10. landsk. hefur gert fullnægjandi grein fyrir því, hvers vegna hann hefur setið á þ. fleiri þ. án þess að gera tilraun til þess að fá leyst úr þessu máli. Vera má, að ég gæti þá tekið gildar upplýsingar hans um málið, að því hafi ráðið hans alkunna hlédrægni.

Hvað viðvíkur frv. sjálfu sé ég ekki ástæðu til að ítreka það, sem ég hef þegar bent á, að verði frv. samþ. eins og það liggur fyrir, yrði stj. væntanlega að gera það upp við sig, hvort ætti að láta ganga fyrir að byggja embættisbústaði yfir 3 embætti í Reykjavík áður en embættismönnunum sjálfum yrði séð fyrir hæfilegu húsnæði. Hið sama gildir um Akureyri. Eins og frv. liggur fyrir, á það ekki við önnur embætti en þau, þar sem fer saman embættisbústaður og skrifstofur, en það er langur vegur frá því, að svo sé um nema sum embættin og alls ekki um stærstu embættin. Út af ákvæðum 3. gr. um það hámark, sem setja má á leigu, benti ég á það alveg sérstaklega, að slíkt viðgengist ekki um önnur embætti og væri tæplega rétt að fara inn á þessa braut nema sett væri hámark um húsaleigu og laun einnig hjá öðrum embættismönnum, sem líkt er ástatt um.