03.12.1945
Neðri deild: 47. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í B-deild Alþingistíðinda. (1869)

81. mál, embættisbústaðir héraðsdómara

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. allshn. fyrir tiltölulega góða afgreiðslu á þessu máli. Og án þess að fjölyrða um það frekar, en ég hef gert grein fyrir því áður, þá vil ég geta þess, að brtt. hennar eru mjög í samræmi við það, sem orð féllu hér við 1. umr. málsins bæði frá hæstv. dómsmrh. og eins frá mér sem flm., því að ég geng fyllilega inn á, ef það þykir betur henta, að til sé heimild um það, að byggja megi embættisbústaði og skrifstofur hvort í sínu lagi, enda þótt það sé tilætlunin, að l. nái eingöngu til embættisbústaða utan Reykjavíkur. Ef um Reykjavík væri að ræða, þá ætti að vera heimilt og jafnvel skylt að byggja sem hentaði, því að hér í bæ mun ekki alls kostar henta að byggja skrifstofur þessara embættismanna með íbúðunum. Þessu embætti, sem samsvarar héraðsdómaraembættinu, er nú búið að skipta, og dómararnir hafa hver sína skrifstofu í opinberum byggingum, svo að þar er öðru máli að gegna, og hefði því ekki þurft að greina neitt frekar um þeirra þarfir.

Í annan stað hefur n. til varhygðar sett ákvæði um, að skylda sé til að byggja eftir því, sem fé er veitt í fjárl., og hefði ekki verið nema sjálfsagt, að svo hefði verið, hvort sem það hefði verið ákvæði eða ekki. Ég vænti, að þetta ákvæði verði ekki til að tefja fyrir þessu nauðsynjamáli á hverjum stað, heldur reki á eftir hverri stj. sem er að sjá jafnan svo um, að fé sé veitt í fjárl., þar sem lagagr. skyldar til að byggja hvort sem er.

Þá hefur n. lagt til, að fyrri málsgr. 3. gr. falli burt, og kemur þetta þá sjálfkrafa inn í þau ákvæði, sem um það gilda í þeim almennu launal. Er ekkert um það að sakast, þó að sízt sé ástæða til að ætla, að héraðsdómarar stæðu verr að vígi, ef þetta ákvæði fengi að standa.

Beina þörf sé ég ekki á því, að n. hefur fellt úr síðasta málsl. 1. gr.: „Þar skal fyrst byggja, er þörfin er mest að dómi ráðherra, að fengnum tillögum Félags héraðsdómara.“ Þetta var sett af ráðnum hug, því að það þótti betur fara á, að framkvæmdir yrðu ákveðnar í samráði við félag þeirra, sem kunnugastir væru í þessum efnum, hvernig haga skyldi byggingum, hvar skyldi þá byggja og hvar skyldi síðar byggja, því að þeir vita gerst, sem sjálfir eru í þessu, hvar skórinn kreppir að í þessu tilfelli. Og læt ég nú fritt um þetta með þeim orðum, sem ég nú hef mælt.