03.12.1945
Neðri deild: 47. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í B-deild Alþingistíðinda. (1873)

81. mál, embættisbústaðir héraðsdómara

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Hv. flm. tók fram, að það hefði verið gert með ráðnum hug að setja það upphaflega í frv., að félagsskapur þessara embættismanna skyldi segja til um, hvar þörfin væri mest. N. leggur til, að þetta sé fellt úr frv. N. þóttist skilja, hvað fyrir flm. vekti með þessu, en taldi betur ráðið, að dómsmrh. á hverjum tíma skyldi meta þessa þörf. Þar sem hér er að ræða um ekki fjölmennari hóp manna en héraðsdómara hér á landi, þá er það heldur óþægilegt fyrir þá að gera upp á milli stéttarbræðra sinna í þessu efni, sem kynnu að búa við léleg húsakynni. Og það er alltaf nokkuð vont að meta, hvar þörfin er mest. Það er bezt, að dómsmrh. segi til um, hvar byggja skuli hverju sinni.

Hv. þm. Snæf. hefur borið fram brtt. um, að Reykjavík sé ekki undanskilin í frv. Það, sem vakir fyrir okkur, sem að brtt. stöndum, er, að þörfin fyrir húsnæði er miklu meiri annars staðar hjá þessum embættismönnum. Sums staðar úti um land eru þessir menn á hreinustu hrakhólum með húsnæði fyrir sig og fjölskyldu sína og skrifstofu. En ég ætla, að hér sé þó svo ástatt, að hið opinbera sjái þessum mönnum fyrir húsnæði til skrifstofuhalds. Það er þá frekar íbúð, sem þessa embættismenn vantar. En hið opinbera hefur ekki séð fyrir þeim enn sem komið er. Og þótt vissulega séu erfiðleikar á því að fá húsnæði, þá hygg ég þó, að þessir menn hafi nokkurn veginn bjargazt yfir þá örðugleika. En slíku er alls ekki til að dreifa úti um land. Þess vegna var þetta af hálfu n. sett í nál. Það þótti sjálfsagt að meta þessar aðstæður. Annars er það alls ekki svo stórvægilegt, hvort Reykjavík er talin með eða ekki og alls ekki þess vert að gera mikið úr því atriði. Eins og nú er, hygg ég, að þörfin sé ótvírætt meiri annars staðar og þá gætu þeir staðir verið látnir ganga fyrir fyrst.