01.03.1946
Neðri deild: 78. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í B-deild Alþingistíðinda. (1892)

175. mál, einkaleyfi

Garðar Þorsteinsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Reykv. átti að vera frsm. þessa máls, en hann er veikur, og skal ég aðeins þess vegna fylgja málinu úr hlaði með nokkrum orðum.

Þetta mál er flutt fyrir beiðni hæstv. samgmrh. og er um það að gera þær breyt. á l. um einkaleyfi, að ákvæði 4. liðar l. nr. 12 20. júní 1923 varðandi embættislega birtingu uppgötvana auglýsinga skuli ekki gilda um þær uppgötvanir, sem embættisleg birting hefur farið fram á erlendis eftir 1. sept. 1939, ef sótt er um einkaleyfi á þeim fyrir 1. jan. 1947.

Það er gefin sú skýring á þessu, sem er sjálfsagt rétt, að vegna stríðsins hafi ekki verið hægt að framfylgja þessu ákvæði l., því að ekki hafi verið hægt að biðja um einkaleyfi hér vegna stríðsins. Allshn. getur fallizt á, að ástæða sé til að gera þessa breyt., vegna þess að sökum stríðsins var ekki hægt að fylgja ákvæðum l. að þessu leyti, og telur þessa breyt. eðlilega afleiðingu af því. N. vill því mæla með, að frv. verði samþ.