03.12.1945
Neðri deild: 47. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1128 í B-deild Alþingistíðinda. (1920)

126. mál, vitagjald

Frsm. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Þetta frv. er flutt af fjhn. d. eftir ósk hæstv. fjmrh. Tollstjóri Reykjavíkur kom á fund hjá n. og ræddi um málið við hana, en frv. mun samið af honum í samráði við ríkisstj. Þarna er um mjög lítilfjörlega breyt. að ræða á núgildandi l. um vitagjald. Í 1. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir því, að vitagjald skuli greitt fyrir hvert skip, sem er 5 smál. brúttó eða stærra, en í eldri l. er ákvæðið þannig, að fyrir hvert skip, sem hefur þilfar eða gangvél, skuli greiða vitagjald. Nú eru til allmargir bátar, sem hafa gangvél, en eru minni en 5 smál., hinir svokölluðu trillubátar. N. skildist, að alls staðar á landinu gilti ekki sama regla viðkomandi þessu, þannig að sums staðar hefði verið tekið gjald af þessum litlu trillubátum, en annars staðar hefur það ekki verið gert. Nú er meiningin að ákveða þetta gjald þannig, að miðað verði við stærð skipa og þessir minnstu bátar verði undanþegnir gjaldi. En engar breyt. verða á gjaldinu sjálfu, Fleira sé ég ekki ástæðu til að taka fram, en vil óska fyrir hönd n., að frv. verði vísað til 2. umr.