08.10.1945
Neðri deild: 3. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í B-deild Alþingistíðinda. (193)

6. mál, togarakaup ríkisins

Eysteinn Jónsson:

Út af nokkrum atriðum hjá hæstv. forsrh. vil ég segja örfá orð. Hann kvað ræðu mína hafa borið þess vitni, að ég sé ekki kunnugur gangi málsins. Þetta má vera rétt, því að sannleikurinn er sá, að gangi þessa máls hefur verið haldið mjög leyndum fyrir mönnum. Stjórnin hefur pukrað með þetta mál. Máske kvatt til fróða menn í tekniskum efnum, eins og hæstv. forsrh. sagði, en almenningur og alþingismenn hafa sáralítið fengið að vita um þessi efni. Og ýmsir utan stjórnarflokkanna a. m. k. hafa ekkert annað vitað en það, sem þeir hafa séð í blöðum. Þess vegna þarf hæstv. forsrh. ekkert að undrast, þó að aðrir geti ekki talað af sama kunnugleika og hann. Með því að hæstv. forseti beið stundarfjórðung eftir forsrh., vil ég fara fram á við hann að hann beini til hæstv. forsrh., að hann loki sig ekki inni, þegar hann loksins er kominn. (Forseti hringir). Ég óttast, að forsrh. hafi ekki heyrt þessa hringingu, en þó er það framför, að nú opnast dyrnar á ráðherraherberginu: en ekki er til of mikils mælzt, að ráðherra sá, sem fer með þessi mál, sé viðstaddur, meðan þau eru rædd á þingi. Hæstv. forsrh. þarf ekki að ímynda sér, að hann sýni mér sérstaka óvirðingu með því að stökkva á dyr. Hann sýnir Alþingi óvirðingu með því. Við ættum allir að gera okkur grein fyrir því, að það er ekki hægt að halda uppi virðingu þessarar stofnunar með því að vilja ekki taka þátt í umræðum. Ég legg því áherzlu á, að þessi aðferð ráðherrans hittir ekki markið. (Forseti: Gerið svo vel að lofa dyrunum að vera opnum inn í ráðherraherbergi!)

Hæstv. ráðh. minntist á það, eins og ég hef gert grein fyrir, að ég talaði ekki af nægum kunnugleika. Ég sagði af hverju það var, að þm., sem ekki eru í stjórnarflokkunum, fengju ekkert annað að vita en það, sem í blöðunum stendur, sem er ákaflega ófullnægjandi, svo að erfitt er að átta sig á málinu eftir því. En það eru ýmsir fleiri en ég, sem þó standa nærri stj., sem ekki hafa fengið ýtarlegar upplýsingar, og vil ég í því sambandi nefna, að borgarstjórinn í Reykjavík beitti sér fyrir því í bæjarstjórn að skora á ríkisstj. að gefa skýrslu um þetta mikilsverða mál, m. a. af hverju stj. hefði ekki hnigið að því ráði að hafa eitthvað af þessum togurum dieseltogara. Ég lét í ljós, að ekki mundi hafa verið undirbúin nægilega vel sendiferð sú, sem farin var til þess að afla tilboða í togara. Þessa ályktun byggði ég á því, sem hæstv. forsrh. sagði, að stj. hefði verið kölluð saman til að kveða á um þetta eftir að hún var búin að fá tilboð erlendis. Og ef til vill einnig á því, að áberandi menn í stjórnarflokkunum gera nú skeleggar till. um aðrar togarategundir en þær, sem fyrir valinu urðu, sem sé dieseltogara. Þær kröfur eru og gerðar í bæjarstjórn Reykjavíkur. Af þessu dró ég, að framkvæmdir hefðu ekki verið nægilega undirbúnar fyrirfram. Hæstv. forsrh. sagði, að þetta væri misskilningur, íslenzkir togaraútgerðarmenn hefðu um mörg ár rannsakað, hvað heppilegast væri í þessu efni, og gert sér grein fyrir, hvernig framtíðartogarinn ætti að vera. Út af því vil ég gera þá fyrirspurn til hæstv. forsrh., hvort þeir togarar, sem nú eru fest kaup á, séu eins og þessi framtíðartogari, sem íslenzkir útgerðarmenn vilja fá. Þetta tel ég þýðingarmikið mál, en ég dreg í efa, að svo sé. Ég hef haldið því fram, að ríkisstj. hafi átt bæði um bátakaup og togara að vera í nánu sambandi við þá, sem frá öndverðu hafa sýnt áhuga fyrir að fá báta og skip til landsins. Og, ég hef haldið fram, að einstakir menn, forráðamenn útgerðarfélaga og bæjarfélaga, mundu hafa verið alveg eins færir um að fást við þessi tilboð eins og hæstv. ríkisstj. En af því að þessi aðferð var ekki viðhöfð, er hætt við endalausu pexi eftir á um það, hvort rétt hafi verið valið, og stjórnin hefur tekið á sig mikla áhættu. Ég spurði, hvort mikilla tæknilegra framfara væri að vænta í sambandi við þessa nýju togara og í hverju þær væru fólgnar: Hæstv. forsrh. svaraði ekki neinu fullnægjandi um þetta. Hann kvað þetta vera stærri skip og því meiri möguleikar til að koma að meiri nýtízku vinnubrögðum en áður þekktust. Það er alveg rétt, að ef skipin eru 175 fet, er það meiri stærð en þekkt er áður hér á togurum, en ekki miklu meiri. En þetta eru engar upplýsingar um nýja tækni, sem skipunum fylgja.

Ég hef nú bent á nokkur meginatriði, áður en málið fer til nefndar. Að síðustu vil ég benda á, að ekki kom fram í ræðu hæstv. forsrh. í gær, hvert mundi verða verð skipanna. Hann sagði, að það hefði verið ráðgert 2 millj. kr. eða tæplega það í öndverðu, en nú væri komið í ljós við athugun á málinu, að ef togararnir ættu að verða verulega fullkomnir og miðaðir við almennar kröfur hér, yrði að bæta miklu við, sem kostaði verulegt fé. Hann gaf ekkert í skyn um það, hvert mundi verða endanlegt verð togaranna. En samt sem áður lét hann þess getið, skildist mér, að Íslendingar væru algerlega bundnir við samningana í heild sinni um þennan togarafjölda. Ég hefði satt að segja kunnað betur við það, að nokkurn veginn væri vitað, hvert mundi vera verð togaranna, áður en gerður er fullkomlega bindandi samningur, og held ég það sé venjulegri aðferð. Vil ég spyrja hæstv. forsrh. um það nú, hvort hann gæti ekki veitt mönnum hugmynd um hið endanlega verð á togurunum, eftir að fram hafa farið þær endurbætur, sem nú hafa verið ákveðnar.