23.10.1945
Neðri deild: 15. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1135 í B-deild Alþingistíðinda. (1940)

28. mál, skólakerfi og fræðsluskylda

Páll Þorsteinsson:

Það kom fram í ræðu frsm., hv. 8. þm. Reykv., að ég hef ekki fylgt flutningi þessa máls, enda er það augljóst af frv. sjálfu. Öll þau mál, sem eru á dagskrá þessa fundar, eru að meira og minna leyti í samhengi hvert við annað. Hér er að ræða um frv., sem hafa að geyma ekki minna en 160 gr. samtals og munu fela í sér allverulegar breytingar á skólakerfi landsins frá barnaskólum og upp að háskóla, a. m. k. hvað snertir hina almennu hlið skólafræðslunnar. Ég hef að vísu fengið þessi frv. í hendur fyrir alllöngu, eins og aðrir hv. þm., en sökum margháttaðra anna hefur mér ekki unnizt tími til þess að kynna mér þessi mál til neinnar hlítar. Þess vegna taldi ég mig ekki geta staðið að flutningi þessa máls að svo komnu. Gildir að þessu leyti hið sama um öll þau mál, sem á dagskrá eru.