29.11.1945
Neðri deild: 42. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1135 í B-deild Alþingistíðinda. (1942)

28. mál, skólakerfi og fræðsluskylda

Frsm. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Frv. þessi um skólamál voru flutt í öndverðu af meiri hl. menntmn. Eftir 1. umr. hefur n. svo rætt frv. þessi ýtarlega, og nú liggur fyrir nál. um eitt þeirra, þ. e. frv. um skólakerfið sjálft og fræðsluskylduna, og er nál. á þskj. 223 og eru þar þrjár brtt., sem n. flytur. Auk þess liggja fyrir brtt. við frv. á þskj. 230 frá hv. þm. A.-Sk., og mun ég ekki ræða þær fyrr en hann hefur gert grein fyrir þeim hér.

Um efni þessa frv. get ég verið fáorður. Það var skýrt svo ýtarlega af hv. frsm. n. við 1. umr., að þar er litlu við að bæta. Í fám orðum sagt er ætlazt til þess, að skólakerfi landsins skiptist í fjögur stig, barnafræðslu, gagnfræðastig, menntaskóla- og sérskólastig og svo háskólastig. Og einn meginkostur þessa frv. og annarra frv., sem frá mþn. í skólamálum hafa komið, er sá að samræma skólakerfið í landinu, en á því hefur verið mikill misbrestur að undanförnu. — Önnur meginbreyt. með þessu frv. er sú að lengja fræðsluskyldualdurinn um eitt ár. Nú er barnafræðsluskyldan frá 7 ára aldri til 14 ára aldurs, og er ætlazt til þess, að barnafræðslan styttist um eitt ár að ofan og verði frá 7 til 13 ára aldurs, en svo bætist við tveggja ára skólaskylda sem nám í unglingaskóla, miðskóla eða gagnfræðaskóla. Raunverulega skólaskyldan lengist því um eitt ár með þessari tilhögun.

Það er eðlilegt, að mönnum verði á að spyrja, hvern aukinn kostnað mundi leiða af lögfestingu þessara nýju fræðslulaga. Meginkostnaðurinn mundi náttúrlega koma af þeim auknu unglinga- og fræðsluskólum, sem upp risu samkv. þeim. Í frv. eða grg. um gagnfræðanám er leitazt við að gera því nokkur skil, hver aukning á kennaraliði og skólastofum yrði nauðsynleg með þessari breyt. Þar er gert ráð fyrir, að eftir þessum breyt. yrði vegna stóraukins nemendafjölda, nemendafjöldinn mundi aukast um þrjú þús. nemendur, sbr. bls. 12 í því þskj., þörf á 120 kennurum í viðbót og 100 kennslustofum í skólunum. Þegar reiknað er með núverandi kaupi kennara, eins og það er lögfest í launal., og byggingarkostnaði við skólahús, þá er bert, að kostnaðurinn mundi verða ákaflega mikill af þessari tilhögun. En eftir því, sem fræðslumálastjóri hefur upplýst menntmn. um, hefur sú breyt. orðið á síðan mþn. í skólamálum samdi þessi frv. og gerði þessa grg., að ég ætla, að kostnaðaraukinn muni nú ekki vera nema líklega um 40% af því, sem þar var gert ráð fyrir. Sú hefur nefnilega orðið, raunin á, eins og gert var ráð fyrir af mþn. og bent var á hér í framsögu, að frv. þessi væru fyrst og fremst lögfesting á þróun, og jafnvel þó að þau væru ekki samþ., mundi þróunin leiða til þess, að flestallir unglingar í landinu leituðu sér framhaldsmenntunar. M. ö. o., þessi kostnaður, sem af breyt. á fræðslul. stafaði, mundi koma hvort sem væri. Eftir upplýsingum fræðslumálastjóra er reynslan orðin þessi, að nemendaaukningin í þessum framhaldsskólum hefur aukizt svo, að nú er ekki talan 3000, eins og gert var ráð fyrir, að nemendaaukningin mundi verða, heldur 1800. Þarna frá vill svo fræðslumálastjóri draga um 600 nemendur í sveit og smærri þorpum, sem mundu fá skyldunám sitt á vegum barnaskólanna án verulegs aukakostnaðar, þannig að raunverulega mundi ekki þurfa að reikna með nemendafjölgun meiri en 1200 og sennilega 40 til 48 fleiri kennurum. Það er náttúrlega nokkrum erfiðleikum bundið að gera sér glögga grein fyrir því, hver kostnaður yrði af þessu. En ég vil þó benda á, að ef miðað er við 48 nýja kennara með 4 þús. kr. grunnlaun hver, þá mundi það ásamt verðlagsuppbót, eins og hún nú er, verða rúmlega 1.200.000 kr. á ári. Það má svo gera ráð fyrir öðrum rekstrarkostnaði en kennaralaunum um helmingi þeirrar upphæðar, eða rúml. 600 þús. kr., og samtals yrði það þá 1800000 kr. á ári, kennaralaunin og annar kostnaður, miðað við þessar nýju upplýsingar frá fræðslumálastjóra.

Ég vil nú benda á það, að það er almennt litið svo á, að þessi aukna unglingafræðsla mundi koma smám saman og það jafnvel á næstu árum, þróun tímanna virðist vera í þá átt. Ég vildi rétt aðeins, af því að ég hef heyrt á ýmsum, að þeim blöskraði kostnaðurinn við þetta, leggja fram hér þessar upplýsingar, þó að það sé ákaflega erfitt að gera sér nokkra nákvæma áætlun um kostnað við framkvæmd þessa nýja skólakerfis.

Ég skal þá víkja að brtt., sem fyrir liggja. Fyrsta brtt. er við 4. gr. frv., 4. málsgr. Þar er í frv. sett fram sú regla, að gagnfræðaskólar séu 4 ára skólar, en að fræðslumálastjóra sé heimilt að leyfa gagnfræðaskólum í sveit að veita aðeins tveggja ára fræðslu að loknu unglingaprófi. Svo er það hugsað, að unglingafræðslan í sveit verði í sambandi við barnaskólana án verulegs aukins kostnaðar, en að héraðsskólar, sem nú eru, og aðrir hliðstæðir skólar, sem upp koma þar, veittu gagnfræðakennslu, svo að það þyrfti ekki að lögfesta nema skóla til þess að veita unglingakennslu. N. þótti rétt að snúa þessu við, þannig að meginreglan í sveit væri sú að hafa aðeins tveggja ára gagnfræðaskóla, en þó heimild til þess að veita undanþágu frá þessu, ef forráðamenn gagnfræðaskóla óska þess, þannig að þá yrðu gagnfræðaskólar í sveit þriggja til fjögurra ára skólar.

2. brtt. n. er við niðurlag 4. gr. frv., þar sem rætt er um réttindi, sem gagnfræðapróf veitir, og er tekið fram í frv., að það sé „til náms í þeim sérskólum, er þess prófs krefjast, og til starfs við ýmsar opinberar stofnanir.“ Þetta þótti nokkuð óákveðið orðalag, og leggur n. til, að því verði breytt þannig, að í stað orðanna „til starfs við ýmsar opinberar stofnanir“ komi: „til starfs við opinberar stofnanir, eftir því sem lög og reglugerðir ákveða.“ Og er æskilegt, að að því verði stefnt, að við opinberar stofnanir verði það sett að skilyrði til ýmissa starfa, að menn hafi lokið gagnfræðaprófi. Þetta er hins vegar ómögulegt á þessu stigi að útlista nánar í frv., en verður að koma í l. um einstakar stofnanir eða reglugerðum, sem forráðamenn stofnananna mundu setja.

Loks er í brtt. n. gert ráð fyrir þeirri breyt., að á eftir 10 gr. komi ný 11. gr., um það, hvenær l. komi til framkvæmda. Í frv. er nú ekkert ákvæði um þetta. Hins vegar er gert ráð fyrir því í frv. um gagnfræðanám, að þau l., ef það frv. verður samþ., skuli verða komin til fullra framkvæmda eigi síðar en 1950. Nefndinni þótti réttara að taka þetta gildistökuákvæði inn í sjálft frv. um skólakerfið, en þótti jafnframt rétt að ætla nokkru lengri tíma til þess að þetta nýja skólakerfi kæmist til framkvæmda, og er efni þessarar brtt., 2. liður, það, að 1. öðlist þegar gildi og skuli koma til framkvæmda á árunum 1946 til 1952, eftir því, sem fræðslumálastjórn ákveður í samráði við hlutaðeigandi fræðsluráð. Nú er bersýnilegt, að ekki er hægt að fyrirskipa, að öll þessi l. komi til framkvæmda þegar í stað, því að e. t. v. verður hörgull á nægu kennaraliði og hörgull á nægum skólahúsum. Sums staðar vilja menn kannske fá lengri frest til þess að koma á skólaskyldu eftir þessum frv. Og þetta er ætlazt til, að fræðslumálastjórnin hafi í hendi sinni og eftir atvikum í samráði við fræðsluráð í hverju héraði. Eru þannig ætluð sjö ár til þessa.

Sé ég ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta mál að sinni. Ég vænti þess, að brtt. menntmn. verði samþ.