29.11.1945
Neðri deild: 42. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1141 í B-deild Alþingistíðinda. (1945)

28. mál, skólakerfi og fræðsluskylda

Páll Þorsteinsson. Mér finnst sú tilvitnun, sem hv. þm. Snæf. bar fram úr grg. mþn., um vilja hennar fyrir því að hækka skólaskyldualdurinn nú þegar, sýna einmitt það, að það er síður en svo ástæða til að amast við till. minni, því að ef þessi vilji er fyrir hendi heima í héraði, þá verður skólaskyldan vitanlega framkvæmd ekkert síður þó að till. mín verði samþ. Í öðru lagi vildi ég leiða athygli hv. frsm. og annarra hv. þm. að því, að það er ekki fordæmalaust í löggjöfinni, að það sé veitt undanþága frá því að fullnægja til hlítar skólaskyldu alls staðar á landinu. Vildi ég í því efni benda á það, sem raunar kom fram hjá hv. þm. Snæf., hvernig þetta hefur verið framkvæmt um skólaskyldu frá 7–10 ára aldri skólaskyldra smábarna. Þegar fræðslulögin voru sett 1907, var ákveðin skólaskylda frá 10–14 ára aldri fyrir öll börn í landinu. Þá var gert ráð fyrir því, að heimilin önnuðust smábarnakennsluna frá 7–10 ára. Þróunin hefur orðið sú, að löggjafinn hefur smáfikrað sig áfram með þessa framkvæmd skólaskyldunnar fyrir þessa aldursflokka nemenda. Með l. frá 1926 mun hafa verið gefin heimild fyrir kaupstaði til að koma á skyldufræðslu fyrir þessa aldursflokka nemenda, en þegar l. voru endurskoðuð 1936, þá mun þetta fyrst hafa verið fært inn sem skylda, en þá með þeirri undantekningu, að heimilt sé að veita skólahverfum í sveitum undanþágu frá því. Þannig hefur löggjafinn tekið á þessum málum hingað til, og þannig hefur þróunin verið um ákvörðun skólaskyldunnar ofan frá.

Þá verð ég að benda hv. frsm. á það, að hann fór beinlínis rangt með eitt atriði, sem hann vitnaði í, og mun hann sannfærast um það, ef hann kynnir sér það betur. Undanþáguheimildin, sem er í gildandi l. um það, að börn frá 7–10 ára aldri þurfi ekki skilyrðislaust að sækja skóla í sveitum, var og er í höndum fræðsluráðanna í þeim l., sem nú gilda, og skólan. eiga að gera till. um það, en fræðsluráð að ákveða, svo að það kemur ekki í hendur fræðslumálastjórnar. Þannig er till. mín einmitt í samræmi við þetta.

Þá vildi ég aðeins benda á það, þó að það sé ekki alls kostar sambærilegt við þetta mál, að í ýmsum stórmálum, sem veita fólkinu mikil réttindi, hefur löggjafanum þótt eðlilegt að fylgja svipuðum leiðum og ég legg til í brtt. minni. Er þá skemmst að minnast á þingið 1943. Þá ákvað löggjafinn að koma á ákvæðum um sjúkrasamlög með þeim hætti, að fólk í sveitum skyldi beinlínis greiða atkv. um það, hvort það vildi stofna sjúkrasamlög. Þetta er ekki alls kostar sambærilegt, en ég bendi á þetta sem dæmi, undanþágan var færð út þar eftir vilja fólksins um þau réttindi, sem verið er að skapa því til handa og það á að búa við.

Ég man svo ekki eftir neinu sérstöku í sambandi við þetta smávægilega atriði, sem ég þarf að taka fram að svo stöddu.