29.11.1945
Neðri deild: 42. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í B-deild Alþingistíðinda. (1946)

28. mál, skólakerfi og fræðsluskylda

Sigfús Sigurhjartarson:

Það eru aðeins nokkur orð út af þeim ummælum hv. þm. A.-Sk., að valdið til þess að veita undanþágu frá núgildandi fræðslul. sé í höndum fræðsluráðanna. Það er í rauninni rétt, en hitt er þó engu síður rétt að fræðslumálastjórnin hefur haft vald til að grípa fram í og fyrirskipa fræðsluskyldu, ef það kemur í ljós, að börn í skólahverfinu hafa ekki fengið þá uppfræðslu, sem sæmileg er talin.

Varðandi það meginágreiningsmál, sem hér er á ferðinni, langar mig til að undirstrika nokkuð frekar en gert hefur verið, að mþn. í skólamálum hefur kynnt sér ákaflega rækilega hug þeirra manna, sem hafa hugsað og hugsa um skólamálin í landinu. N. hefur sent öllum kennurum landsins og öllum skólan. fyrirspurnir út af frv. og m. a. spurt sérstaklega greinilega um það atriði, hvar þessir aðilar telji, að fræðsluskyldan ætti að enda. Ég vil benda hv. þm. á að athuga vel þá skýrslu, sem er að finna á bls. 17 í þessari grg. Þar kemur í ljós, að af 712/9 skólan., sem svara, eru aðeins 8, sem vilja nefna lægri fræðsluskyldualdur en 15 ára. Síðan koma 22, sem nefna ákveðið 15 ár, 13, sem segja 15–16 ára, 282/3, sem segja 16 ára. Með öðrum orðum, 632/3 eru ofan við þennan aldur. Hér var því farin sú leið af mþn. að taka það lágmark, sem fullt samkomulag virtist um, að þetta ætti að ná til. En eigi að síður er gefin heimild til þess að ganga inn á þá braut, sem mjög verulegur hluti skólans vill, að lengja skólaskyldualdurinn til 16 ára. Þetta virðist mér vera að taka fullt tillit til þeirrar þróunar, sem hefur verið að gerast í landinu og að nokkru leyti orðin er. Hitt er svo rétt hjá hv. þm. A.-Sk. að það eru ýmis vandkvæði á að framkvæma þessi l. í skjótri svipan, og fyrir því er gert í þeirri brtt., sem menntmn. er sammála um, að gera ráð fyrir, að l. komi til framkvæmda á árunum 1946–1952, eftir því sem fræðslumálastjórnin ákveður í samráði við hlutaðeigandi fræðsluráð. Slík ákvörðun er ekki tekin fyrr en ríkið er tilbúið að fullnægja skyldum sínum á hverjum stað.

Er svo ekki ástæða til að orðlengja meira um þennan ágreining, sem var innan menntmn. N. er öll sammála um að vilja stuðla að framgangi frv. og framgangi brtt., sem fyrir liggja, þó að einn nm. vilji ganga þetta lengra í brtt.