26.02.1946
Efri deild: 72. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1163 í B-deild Alþingistíðinda. (1982)

28. mál, skólakerfi og fræðsluskylda

Bjarni Benediktsson:

Ég verð að segja það, að ég skil ekki ásakanir hv. 1. þm. Reykv. um það, að hér standi til að tefja málið. Málið hefur alltaf verið tekið af dagskrá síðan um miðja síðastliðna viku, til þess að n. athugaði það áður en það væri tekið til umr. Þetta vita allir hv. þm., en nú virðist eiga að taka það til umr. í d., án þess að n. athugi það. Og ég verð að segja, að það kemur úr hörðustu átt, ef verið er að ásaka nm. um, að þeir séu að tefja málið, því að kunnugt er, að umr. hér í hv. d. hefur verið frestað, af því að n. hefur ekki haft tækifæri til þess að halda fundi um málið. — Ég verð að taka undir það með hv. þm. S.-Þ., að mér finnst málið fá mjög einkennilega meðferð. Það er engin grein gerð fyrir þessu máli í nál. og heldur ekki í ræðu frsm. Ég hef beint þeirri spurningu til þeirra manna, sem hafa kynnt sér þetta mál, hvaða þýðingu það hefði, ef frv. verður samþ., og það eru m. a. bollaleggingar um það, hvaða gildistökutíma eigi að setja í frv. Það hefur hins vegar enginn getað sagt mér enn, hvaða lagalega þýðingu það hefði, hvort þetta frv. yrði samþ. eða ekki, vegna þess að þetta frv. virðist vera eins konar efnisyfirlit eða beinagrind, sem önnur frv. eiga að fylla út í. Ég hef því enn ekki getað séð, hvaða þýðingu samþykkt frv. hefur, og engin svör fengið við spurningum mínum, og þess vegna er eðlilegt, að maður spyrji, hvað vaki fyrir hv. n. með samþykkt þess.