04.03.1946
Efri deild: 76. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1174 í B-deild Alþingistíðinda. (1995)

28. mál, skólakerfi og fræðsluskylda

Gísli Jónsson:

Ég get fallizt á það, sem hæstv. ráðh. sagði um að láta till. mínar bíða til 3. umr., ef hann vill láta athuga þetta, hvort rétt sé að lengja skólaskyldualdurinn, og einnig tel ég varhugavert að gefa sveitarfélögunum vald í þessu, og þarf þetta athugunar við.

Það er rangt, sem hv. 7. landsk. sagði um skólaskyldualdurinn í Danmörku og Noregi. Hann er ekki 16 ár, heldur 14. Annars gekk öll ræða hans út á það að skamma þingbróður sinn, og sýnir það bezt, að þessi n. er óstarfhæf og að skipta þarf um nefnd. — Þá er ég alveg hissa á því, að hv. 7. landsk. skuli leyfa sér að bera á aðra þm., að þeir sæki ekki þingfundi, vitandi það, að ég sæki alla þingfundi.

Þá þarf 9. gr. athugunar við. Í frv. er gert ráð fyrir, að sá styrkur, sem þar um ræðir, verði greiddur úr fræðslusjóði, en hér er gert ráð fyrir, að hann verði greiddur af almannafé. Það þarf að taka skýrt fram, hver á að greiða þetta fé, uppihald þeirra af þessum nemendum, sem ekki geta uppihaldið sig sjálfir. Um kostnaðinn er það að segja, að hann er hvergi nálægt sannleika, 1,8 millj. er bara grunnkostnaður. Frv. ber það með sér, að kennarastéttin ein hefur fjallað um það og bara hugsað um sinn hag.

Ég skal svo ekki hafa mál mitt lengra, hv. þm. S.-Þ. getur svarað fyrir sig. En það er algerlega óþarfi fyrir hv. 7. landsk. að vera að drótta því að bændastéttinni, að hún sé á lægra menningarstigi en aðrar stéttir, því að þaðan hafa komið okkar mestu menn. Ég vildi láta þetta koma fram hér, og hv. þm. veit vel, að það er rétt.