31.10.1945
Neðri deild: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

6. mál, togarakaup ríkisins

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson) :

Út af því, sem hæstv. ráðh. kvaðst ekki muna fyrir víst, hvort búið hafi verið að ganga frá samningum, þegar fjhn. þessarar deildar kom til fundar við hann um málið, vil ég upplýsa, að eitt af því fyrsta, sem hæstv. ráðh. sagði nefndarmönnunum, var það, að þá væri búið fyrir nokkrum dögum að ganga frá samningum. (Forsrh.: Hvaða mánaðardag var þetta?) Það hef ég ekki við höndina, en get vafalaust upplýst það, því að það mun sjást í fundarbók fjhn. (Forsrh.: Það skiptir ekki máli.) Hæstv. ráðh. gat um eitt útgerðarfyrirtæki, hlutafélagið Kveldúlf, sem hefur, eins og ég hef vikið að áður, sent umsókn um eitt skip. Hæstv. ráðh. segir, að þetta fyrirtæki hafi fest fé í öðrum framleiðslufyrirtækjum og eigi 3 skip, sem það hafi kostað miklu til. Það er einmitt þetta, sem hefði átt að verða til þess, að hæstv. ríkisstj. hefði, áður en hún gekk frá samningum, átt að afla sér nánari vitneskju um sölumöguleika skipanna en hún hefur gert. Það getur vel verið, að það sé svo um fleiri, sem hafa á undanförnum árum fengizt við togaraútgerð, heldur en hin stærri togarafyrirtæki, að þeir telji sér hagkvæmara að leggja fé í önnur framleiðslufyrirtæki og hugsi sér ekki að gera út fleiri togara í framtíðinni en þeir hafa áður gert. Það var því full ástæða til fyrir hæstv. ríkisstj. að athuga þetta betur. Mér virðist, að allt, sem fram hefur komið í málinu, ætti einmitt að verða til þess að hvetja hv. þdm. til að samþ. mínar brtt., svo að þegar verði gerð gangskör að því að athuga, hverjir vilja kaupa þessi skip, og að gerðir verði samningar við þá um það. Ég vil enn ítreka þá ósk mína að fá upplýsingar um það, hvort bæjarstj. Reykjavíkur vill gerast kaupandi að 2/3 af þessum skipum, að svo miklu leyti sem einstaklingar og félög í bænum gera það ekki. Ég sé, að hér er a. m. k. einn hv. þm. staddur, sem sæti á í bæjarstj., og er ekki ólíklegt, að hann geti gefið einhverjar upplýsingar um þetta atriði, sem sé hv. 8. þm. Reykv.