31.10.1945
Neðri deild: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

6. mál, togarakaup ríkisins

Eysteinn Jónsson:

Ég tel eðlilegt, að ríkisstj. geri það, sem í hennar valdi stendur, til þess að greiða fyrir innkaupum á bátum og skipum, enda sé það jafnframt tryggt, að kaupendur séu að þessum tækjum. Í sambandi við togarakaupin hefur þessa ekki verið gætt. Samningarnir um togarakaupin hafa farið fram alveg án samráðs við Framsfl., og er meðferð málsins mjög ábótavant að hans dómi. Samningar þessir eru hins vegar fullgerðir og bindandi nú þegar málið loks kemur til kasta Alþingis. Af þessu leiðir, að ekki er í rauninni hægt að hafa önnur afskipti af þeim málum en þau við atkvgr. að styðja brtt., sem bætt gætu að einhverju leyti úr því, sem vanrækt hefur verið. Ég greiði því ekki atkv. um frv.

Brtt. 70,2 felld með 15:10 atkv.

2.–3. gr. samþ. með 18 shlj. atkv.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frv. vísað til 3. umr. með 18 shlj. atkv.