20.03.1946
Efri deild: 88. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (2063)

128. mál, landshöfn í Keflavíkur- og Njarðvíkurhreppum

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Hinn 21. febr. 1945 var útbýtt á Alþ. prentuðu frv. eða handriti um landshöfn í Njarðvík. Er það fyrsta frv. til l. um landshöfn, sem lagt hefur verið fyrir hæstv. Alþ. En hinn 30. nóv. sama ár var lagt fram frv. til l. í hv. Nd. um landshöfn í Keflavík af hv. sjútvn. þeirrar d. Þetta frv. hér er í meginatriðum eins og handritið 1945 að landshöfninni í Keflavíkurhreppi viðbættri, og er frv. breytt í samræmi við það, t. d. hvað snertir kaup á hafnarmannvirkjum og hafnarstjórn. Að öðru leyti er frv. byggt á sama hátt og þannig afgr. frá hv. Nd. Hinn 14. des. s. l. var það sent til hv. sjútvn. Ed. og hefur raunar legið þar nokkuð lengi, en n. leit svo á, að óhjákvæmilegt væri að gera breyt. á frv. Þetta er fyrsta frv. um landshöfn á Íslandi, og því nauðsynlegt að vanda til þess, því að ætla má, að það verði tekið sem fordæmi fyrir öðrum álíka frv. Það var og sjáanlegt, að frv. var byggt á sama hátt og almenn hafnarlög, þar sem 2 aðilar eru: hreppsfélagið og ríkið. En hvað landshöfn viðkemur, er aðeins einn aðili, ríkið, sem er eigandi hennar, en þegnarnir verða viðskiptamenn. Allar brtt. n. hníga í þessa átt. — Þá kem ég að brtt. í sambandi við eignarnám. N. vildi ekki leggja til, að heimild yrði gerð um eignarnám, því að hún telur annars hættu á, að heimildin mundi hækka verð á landi eða eignum, sem liggja að höfninni, ef l. yrðu samþ. um það.

Segja má, að frv. þetta hafi hlotið talsverðan undirbúning. Árið 1938 eða 1939 var samþ. að leggja til að koma upp landshöfn við sunnanverðan Faxaflóa. Leggja átti til hennar 250 þús. kr., er geyma ætti, þar til byrjað yrði á höfninni. Var þetta fyrsti vísirinn að landshöfn. Síðan hafa komið fram háværar kröfur um byggingu landshafna, t. d. á Þórshöfn og á Snæfellsnesi. Með hliðsjón af þessu þótti nauðsynlegt að hafa grundvöll þessa frv. sem beztan.

Þær breyt., sem n. leggur til, að gerðar verði, eru á 1. gr. frv. Samkv. frv., eins og það kom frá Nd., er gert ráð fyrir, að 10 millj. kr. sé veitt til hafnargerðar, og á að borga 1/3 af því úr ríkissjóði. N. vill breyta því þannig, að ríkissjóður taki að láni nú 10 millj. kr., og ætti það ekki að tefja framkvæmdir. Hins vegar þótti n. rétt að leggja til, að þetta lán skyldi endurgreitt þannig, að 1/3 yrði greiddur úr ríkissjóði, en 2/3 skyldu greiddir úr hafnarsjóði og skyldi miða hafnargjöldin við það. E. t. v. verður erfitt að standa undir þessu fyrst í stað, en ég held, að heppilegast væri að taka lán til 40 ára. Ég tel þetta þess virði, að það sé athugað, hvort ekki væri hægt að hafa þann hátt á. Með þessu móti er því slegið föstu, að ríkissjóður greiði bara 1/3, en það er nokkru lægra en gert er ráð fyrir í almennum hafnarl., því að þar er gert ráð fyrir 2/5 hlutum, og ætti þetta því ekki að verða ríkissjóði þyngri byrði en þó að um héraðshöfn væri að ræða. N. þótti líka rétt, að tekið væri ákveðið fram, hvar höfnin skyldi byggð. Hún leggur til, að hafnarmannvirki skuli byggð innan línu, sem dregin er stytztu leið milli Vatnsness- og Hákotstanga. Það kom til mála í n. að hafa þetta svæði minna, eða milli Hákotstanga og hafnarmannvirkja í Innri-Njarðvíkum, en rétt þótti að hafa þetta eins og segir á þskj. 556. — N. þótti rétt að selja á vald ráðherra, vitamálastjóra og hafnarstjóra, hvernig þessi mannvirki væru sett niður. Það liggja fyrir uppdrættir um fyrirkomulag þessarar hafnar, þar sem sýnt er fram á, að hægt er að gera góða höfn í Ytri-Njarðvíkum. Þar er gert ráð fyrir, að aðalhafnargarðurinn liggi í framlengingu núverandi aðalbátabryggju. Hins vegar liggur fyrir annar uppdráttur, og gert er ráð fyrir, að hann liggi eftir grynningunni, sem gengur út í víkina frá suðvestri. Nú er vitanlegt, að ef fljótt ætti að bæta úr þeim skaða, sem mótorbátaflotanum er að skorti á höfn á Suðurnesjum, þá ætti að byggja garðana fyrst, og mundi þá skapast gott skjól fyrir bátana. Hvort þetta er hægt, veltur á því, hvort hægt er að framkvæma þá gr. frv., sem sjútvn. setti inn í frv. um, hvort hægt sé að kaupa það land, sem nauðsynlegt er. Í sambandi við þetta get ég upplýst, að þegar hafa farið fram kaup á landi í Ytri-Njarðvíkum, en enn hafa ekki tekizt samningar um kaup á landi í Innri-Njarðvíkum.

Þá þótti n. og rétt að taka fram í l., hvað telja ætti til hafnarmannvirkja, en það eru hafnargarðar, hafskipa- og bátabryggjur og verbúðir. Vil ég alveg sérstaklega vekja athygli og taka fram verbúðirnar svo og uppfyllingar, dráttarbrautir, alls konar tæki og vélar, leiðslur o. fl. Allt þetta taldi n. rétt að telja til hafnarmannvirkja.

Miklar breyt. eru á 3. gr. frv. Hún orðist svo: Ráðherra er heimilt að kaupa fyrir hönd ríkissjóðs, á verði, er hann telur sanngjarnt, núverandi hafnarmannvirki í Keflavík og Njarðvíkum, svo og allt það land, er liggur að hinu fyrirhugaða hafnarsvæði og svo langt út frá því, sem hann og hafnarstjórn telja nauðsynlegt — o. s. frv., eins og segir á þskj. 556. Í þessari brtt. er felld niður eignarnámsheimildin, en ríkissjóði er veitt heimild til að kaupa hafnarmannvirki í Keflavík, en þau verði ekki seld nema fyrir byggingarverð. Þá skal á það bent, að með því að kaupa ekki hafnarmannvirki í Keflavík, þá rýrna tekjur hafnarinnar í Keflavík mikið, þegar þessi höfn er komin upp. En ekki er hægt að hindra Keflavík í að halda áfram að reisa hafnarmannvirki með 2/3 framlagi úr ríkissjóði í stað 1/3.

Sjútvn. gerir till. um breyt. á stjórn hafnarinnar. Hún leggur til, að í stað þeirra tveggja, sem skipaðir hafa verið af Alþ., komi 2 skipaðir af Landssambandi útvegsmanna. Einn nm. gat þó ekki fallizt á þetta, en mun koma með sérálit og gera grein fyrir afstöðu sinni, en það er hv. 4. landsk. Þessi höfn er notuð af mönnum alls staðar að af landinu, og taldi n. því ekki óeðlilegt, að Landssamband íslenzkra útvegsmanna hefði þar tvo menn í stjórn.

N. þótti og rétt, að á 6. gr. frv. yrðu gerðar breyt., þannig að þar, sem stendur „eigum,“ komi : eignum og tekjum o. s. frv. Svo þótti og rétt að breyta því, að ríkissjóður bæri ekki ábyrgð á skuldum hafnarinnar, heldur hafnarsjóður. N. leggur til, að 7. gr. falli niður. Það er Alþ. eitt, sem getur ákveðið, hvort eignir eru seldar, og er því gr. óþörf. — Við 13. gr. er lítilfjörleg breyt. um endurskoðendur.

Ég hef nú lýst þeim breyt., sem sjútvn. hefur talið nauðsynlegar á frv. N. kallaði á sinn fund ýmsa menn, samgmrh., þm. Gullbringu- og Kjósarsýslu, hafnarstjóra, Eggert Jónsson o. fl. og ríkti fullt samkomulag. En Eggert Jónsson tók engan þátt í því. Vegna þessara gerbreyt. hefur málið tafizt í nefnd. N. leggur til, að frv. verði samþ. með þessum breyt.

Mín persónulega skoðun er sú, að það sé ekki keppikefli fyrir einstök héruð að fá landshafnir: Það er ákveðið í þessu frv., ef samþ. verður, að héruðin standi undir kostnaði við þær að einhverju leyti og héruðin eignast ekki heldur mannvirkin, heldur ríkissjóður. Ég hygg, að menn ættu að hafa þetta í huga, og ég álít það ekki hagkvæmt.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta meira.