20.03.1946
Efri deild: 88. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í B-deild Alþingistíðinda. (2066)

128. mál, landshöfn í Keflavíkur- og Njarðvíkurhreppum

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Í sambandi við ræðu hv. 4. landsk. þm. vil ég geta þess, að ég get viðurkennt hans sjónarmið um, að sjómenn eigi að eiga fulltrúa í stjórn hafnarinnar til að gæta sinna hagsmuna, en það hefur verið upplýst, að sjómenn telja sig eiga betri fulltrúa í sínum eigin hreppsnefndum en í Alþýðusambandi Íslands, og ég ætla, að í Landssambandi íslenzkra útvegsmanna sé einnig frekar að finna fulltrúa sjómanna en í Alþýðusambandinu, sem samanstendur af hinum ólíkustu stéttum allt frá rökurum til klæðskera. Ef Alþýðusamband Íslands samanstæði eingöngu af sjómönnum, þá hefði sjútvn. getað fallizt á skoðun hv. 4. landsk. þm.

Viðvíkjandi ræðu hv. 2. þm. Árn. vil ég geta þess, að ef hann hefur verið að leita fylgis við væntanlega landshöfn í Þorlákshöfn, þá get ég glatt hann með því, að viðkomandi hreppsnefnd hefur sýnt þá víðsýni að vilja heldur héraðshöfn. En þar sem hv. þm. var að tala um ljón á veginum, mun hann hafa átt við Austurveg, en mér virðist ástæðulaust að blanda því máli hér inn í.